Steingrímur skrökvar og bullar fyrir Landsdómi
14.3.2012 | 09:01
Sjaldnast hefur einn maður runni jafn illilega á rassinn í vitnaleiðslum og þessi Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra ótal ráðuneyta. Vitnisburður hans fyrir Landsdómi í gær var pólitískur og var ætlað að koma höggi fá Geir en honum mistókst það gjörsamlega. Í Mogganum í morgun er frétt um framgang hans. Hún er grátbrosleg eins og alltaf þegar pólitísk atlaga snýst í höndum gerandans og hann stórskaðar sjálfan sig. Í fréttinni er eftirfarandi:
Og það var skrautlegt er Andri Árnason, verjandi Geirs, spurði út í orð Steingríms um samning sem gerður hefði verið samhliða gjaldmiðlaskiptasamningnum og stungið ofan í skúffu, eins og Steingrímur lýsti því. Þegar Andri spurði Steingrím hvar orðið samningur hefði komið fyrir á skjalinu svaraði Steingrímur: Formið á þessu er samningur ... samkomulag ... yfirlýsing.
Ráðherrann er gerður afturreka með orð sín, kemst að því að ekki er gleypt við öllu sem hann segir. Þess er krafist að hann sé nákvæmur í máli sínu, nokkuð sem hann hefur hins vegar aldrei vanið sig á. Og áfram var maðurinn krafinn sagna:
Samtalið hélt áfram og Andri spurði hvar Steingrímur hefði heyrt að yfirlýsingunni hefði verið stungið ofan í skúffu. [...] Það eru mín orð, svaraði Steingrímur. Það endurspeglar þá tilfinningu sem ég fékk. Líklega á fundi mínum með Stefan Ingves [sænska seðlabankastjóranum].
Sem sagt engu var stungið ofan í skúffu, allra síst samningi, og því ekkert að marka þessi orð Steingríms. Svona pólitískt orðahnoð og skrök verður ekki Geir til sakfellingar.
Andri spurði þá hvort ítarleg svör Seðlabanka Íslands 8. júlí og 16. september árið 2008 hefðu ekki þótt fullnægjandi.
Annaðhvort það eða þeir voru ósáttir við að ekki væru meiri efndir, svaraði Steingrímur.
Var talað um efndir? spurði Andri og lét færa Steingrími yfirlýsingu stjórnvalda og spurði hvað af atriðunum hefði ekki verið efnt. Steingrímur las stuttlega og svaraði:
Eins og ég segi, það var ekki farið út í þetta þannig. Ekki farið út í svör. Þetta bar almennt á góma og það var lýst óánægju.
Bara svona þannig, ekki svör, bar bara almennt á góma, líklega í samræðum við leigubílstjórann á leiðinni til baka á hótelið.
Þvílíkt bull ... aftur skrökvar Steingrímur og svo reynir hann að kjafta sig út úr horninu sem hann hafði málað sig út í. Ekki verður þetta til sakfellingar Geirs. En þetta var ekki nóg því hinn skilmerki blaðamaður sem skrifar fréttina, Pétur Blöndal, lætur eftirfarandi fylgja með ofangreindum orðum ráðherrans:
Skömmu áður hafði Árni Mathiesen sagt fyrir Landsdómi að eitt atriði yfirlýsingarinnar hefði snúið að starfsemi Íbúðalánasjóðs og þess vegna heyrt undir Jóhönnu Sigurðardóttur sem þá var félagsmálaráðherra. Það var kannski það atriði af þeim sem þarna voru sem ekki gekk eftir, sagði Árni.
Steingrímur lét vera að minnast á það.
Auðvitað er það þannig með Steingrím, þann vana stjórnmálamann, að hann reynir að komast hjá því að skrökva. Hálfsannleikurinn er nóg til að hann komi boðskap sínum á framfæri. Með hálfsannleikann að vopni var stokkið til og efnt til pólitískra réttarhalda yfir Geir H. Haarde. Nú hefur hins vegar komið í ljós að aðahvatamaðurinn að þessum málaferlum hefur ekkert markvert að segja, getur ekki veitt neinar upplýsingar sem geta sakfellt Geir af þeirri ástæðu einni að sökin er ekki fyrir hendi. Fengi hann hins vegar sama málfrelsi og á þingi yrðu honum ekki skotaskuld úr því að bera vitni um að Jón Bjarnason bæri ábyrgð á hruninu.
Þetta breytir þó því ekki að Steingrímur heldur því statt og stöðugt fram að hann hafi varað við hruninu. Hvað hann á við veit enginn. Að minnsta kosti mætti hann ekki á fund hjá ríkisstjórninni og fór hamförum eins og Davíð Oddsson. Ekki heldur stóð hann upp á Alþingi og messaði yfir þingheimi. Í hvert skipti hefði hann þó átt að brjóta ræðupúltið. Það hefði verið hið eina rétta miðað við boðskap um fyrirsjáanlegt efnahagshrun haustið 2008. En nei, nei. Steingrímur bjó ekkert yfir neinni spádómsgáfu, hann var jafngrandalaus eins og við hin ... og þagði um þessi mál.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sigurður. Þetta var vandræðaleg alhæfing hjá Steingrími í gær. Minnir svolítið á hans verklag almennt.
Hann er stóryrtur um andstæðinga skoðana hans, og fer frekar óvandað í fullyrðingarnar. Skýtur fyrst og spyr svo. Þannig samstarfs-aðferðir eru ekki vænlegar til árangurs.
Því miður hefur rangur maður setið á sakamanna-bekk í Landsdómi. Það er mér ljóst eftir að hafa fylgst með framburði flestra þar. Svona fara stóru glæponarnir að því að sundra þjóðum, og stilla upp saklausu fólki með sínum svikavinnubrögðum og glæpum.
Það væri fróðlegt að vita hvar Ingimundur Friðriksson starfar núna, og hvernig hann fékk það starf? Hann var bæði í stjórn FME og háttsettur í SI á sama tíma, fyrir nokkrum árum síðan.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 14.3.2012 kl. 09:52
Takk fyrir innlitið Anna.
Ingimundur Friðriksson var umsvifalaust ráðinn til norska Seðlabankans enda mikill fagmaður.
Taktu eftir hverjir bera vitni í málinu gegn Geir. Embættismenn og stjórnendur, pólitíkusar , andstæðingar og samherjar, og svo hinir ...
Taktu svo eftir hvernig vitnisburðurinn skiptist milli þessara hópa og hverjir eru marktækir. Steingrímur er ekki í hópi þeirra sem eru marktækir, það er fullvíst.
Taktu líka eftir því að Geir er með þeim fyrstu á sakabekkinn, en þeir sem ollu hruninu eru látnir bera vitni gegn honum.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.3.2012 kl. 09:59
Satt, Sigurður. Þegar dómurinn fer orð fyrir orð yfir það sem Steingrímur J. segir, þá stendur ekki steinn yfir steini.
Ívar Pálsson, 14.3.2012 kl. 11:14
Alveg kostulegur vitnisburður hjá manninum, Ívar!
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.3.2012 kl. 11:16
Sigurður. Ég geri mér grein fyrir að embættismanna-kerfið er ennþá hertekið af spillingar-ruglinu.
Ég vil bara vita hvers vegna Ingimundur var ráðinn til norska Seðlabankans? Í hverju er hann svona mikill fagmaður? Gat hann ekki reynt að varað okkur við, fyrst hann er svona mikill fagmaður?
Er hann núna að nota fagmennskuna sína í Noregi, til að aðstoða nýja "Darling" í Bretlandi? Hvernig fer almenningur í Noregi út úr þeirri fagmennsku?
Þessar spurningar mínar eru ekki óréttmætar, vona ég?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 14.3.2012 kl. 14:41
Vil bæta við, ég vil bara finna uppruna spillingarinnar, til að hægt sé að rétta það sem er rangt í stjórnsýslukerfinu. Það verður að finna rót vandans. Það hjálpar engum að refsa fólki.
Síst af öllu hjálpar það nokkrum manni, né leiðréttir neitt, ef hegningar-áráttan ræður för. Við þurfum að hugsa í lausnum fyrir samfélagið og réttlætið lýðræðislega.
Það er í raun ónothæf og villimannsleg aðgerð, að hegna fólki sem er svo illa statt að gera rangt, og ætti ekki að líðast í upplýstu siðuðu samfélagi, sama hver á í hlut.
Sama hvort um er að ræða róna eða ráðherra. Það hefur alla tíð verið mín skoðun á hegningarkerfinu þröngsýna og dómharða og vandamála-miðaða.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 14.3.2012 kl. 15:02
Mér finnst nú alltaf betra að alhæfa ekki of mikið, Anna. Svo er ég ekki alveg viss um að embættismannakerfið sé „hertekið af spillingar-ruglinu“ eins og þú nefnir það. Ég hef lengi hugsað um þetta og komist að þeirri niðurstöðu að til þess að geta staðhæft þetta þarf annað hvort að halda því fram að allir séu spilltir eða greina milli þeirra sem ekki eru það.
Hið fyrrnefnda hlýtur að teljast talsverð alhæfing af þeirri einföldu ástæðu að ekki eru allir vondir eða spilltir. Geti maður fullyrt að einhver hluti embættismanna séu spilltir þarf eiginlega að geta nafngreint þá. Þetta eru ekki svo margir einstaklingar að ekki sé hægt að segja að þessi eða þessi sé spilltur vegna ákveðinnar ástæðu. Þá erum við komin út á afskaplega hálann ís, fæstir (sekir sem saklausir) eru sáttir við svona áburð og krefjast rökstuðnings.
Það er svosem hægt að halda því fram að einhver einstaklingur sé spilltur vegna þess að hann seldi hlutabréf í banka er hann frétti innanbúðar um að bankinn væri að fara á hausinn. En var maðurinn að öðru leyti góður embættismaður? Ég leyfi mér að segja að margt bendi til þess.
Hvað varðar Ingimund Friðriksson þá held ég að Seðlabanki Noregs hafi leitað eftir starfskröftum hans af fyrra bragði. Það hlýtur nú að segja eitthvað um manninn og orðstí hans.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 14.3.2012 kl. 15:20
Þakka góðan pistil Sigurður.
Eftir alla þessa vitnisburði hef ég komist á þá skoðun að öll þessi umræða um sök „hins opinbera“ á hruninu sé gengin sér til húðar. Ekki það að störf eftirlitsstofnana og ríkistjórnar hafi verið óaðfinnanleg, alls ekki.
Það er erfitt, jafnvel ómögulegt að tortryggja endurskoðaða pappíra.
Öllum bönkunum var stjórnað af siðleysingjum og því fór sem fór.
Snorri Hansson, 15.3.2012 kl. 15:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.