Ánægjan að hafa stútað einum vesælum

Útilokað er að verja árásina á starfsmenn Lagastoða í gær. Ég held að enginn málstaður réttlæti ofbeldi af neinu tagi og því hlýtur maður að fordæma ofbeldið. En umræðan hefur fleiri hliðar og málavextir eru margir.

Í ljósi atburðarins er engu að síður nauðsynlegt að líta til verkefna lögmanna og hvernig þeir og kröfuhafar iðka sín störf. Fjöldi dæma eru um að þeir elti skuldara nær því út yfir gröf og dauða. Fyrir getuleysi, mistök, óheppni, vitleysisgang eða hver ástæðan hefur verið fyrir því að skuld var ekki greitt, er hefnt grimmilega. Tölvan á lögmannsstofunni gleymir engum. Hún minnir lögmanninn á að halda við kröfunni. Það kostar hann ekkert. Hann sendir bara kópi/peist bréf.

Dæmi eru frá gríðarlegri óhamingju og erfiðleikum vegna þess að lögmenn og kröfuhafar sýndu ekkert annað en hörku og óbilgirni. Í þessu sambandi má vitna til orða Marinós G. Njálssonar sem segir eftirfarandi í pistli á bloggi sínu:

Margoft er búið að biðja fjármálafyrirtækin og innheimtulögfræðinga þeirra um að sýna skilning, manngæsku og auðmýkt. Því miður hafa þessir aðilar ekki hlustað nægilega vel. 

Ég þekki persónulega dæmi þess að lögmenn og kröfuhafar opinberra stofnana eins og Lánasjóður íslenkra námsmanna hundelti skuldara þrátt fyrir gjaldþrot.

Og tuttugu árum eftir að krafan myndaðist, tíu árum eftir að skuldarinn fór í gjaldþrot hefur hann náð sér upp úr versta öldudalnum og eignast íbúð. Hver er þá fyrsti gesturinn sem bankar uppá? Jú, lögmaðurinn með hina fornu kröfu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Og þeir hirða íbúðina, kasta skuldaranum, án efa réttilega, aftur út í skógganginn. Og hvað fær Lánasjóðurinn og lögfræðingurinn fyrir vikið. Kannski ekkert nema ánægjuna að hafa stútað einum vesælum utangarðsmanni og þessir aðilar vita ekkert um að sá tók í kjölfarið líf sitt.

Ekki misskilja, lögmenn eru ekki verri en annað fólk. Sumt fólk metur hins vegar meira budduna sína en manngæsku og auðmýkt.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband