Þarf olnboga-, tilfinningalegt og praktískt rými

Skapti

Skapti Hallgrímsson, hinn skemmtilegi blaðamaður Morgunblaðsins í „höfuðstað Norðurlands“ ritar að venju frábæra grein í Moggann í morgun. Í henni telur hann upp þá sem koma til greina sem forsetaframbjóðendur vegna forsetakjörs þann 30. júní næstkomandi.

Því miður gleymir hann mér, sem er mjög alvarleg yfirsjón. Í gær átti ég nebbnilega notalega kvöldstund með bekkjarfélögum úr Hlíðarskóla 1965-68 er við voru níu til tólf ára. Og þarna, yfir frábæru matarborði hennar Kristínar Bladursdóttur, hrökk upp úr Dóru Axelsdóttur að ég ætti að bjóða mig fram sem forseta. Hún Dóra var nú afskaplega framsýn og skörp og með þessari áskorun sannar hún svo ekki verður um villst að engu hefur hún tapað á þeim fáu árum sem liðin eru.

Mig minnir að meira að segja einn eða tveir í samkvæminu hafi tekið undir áskorunina með mikilli hrifningu. Að sjálsögðu stóð ég upp (um leið fækkaði umtalsvert í boðinu, skil ekkert í því) og flutti langa, fróðlega og skemmtilega ræðu um forsetaembættið, stöðu þess og nauðsyn á breytingum. Um það bil þremur klukkustundum síðar lauk ég henni (var þá Kristín gestgjafi farin að sofa) með því að segja að ég mun hugsa málið framyfir helgi (fann þá úlpuna mína og læddist út). Þjóðin verður bara að bíða og skilja að þessi áskorun kemur notalega flatt upp á mig en ég þarf olnboga-, tilfinningalegt og praktískt rými til að hugsa minn gang. Væntanlega mun ég kalla saman blaðamannafund á tröppum Bessastaða, í það minnsta bekkjarfund í gömlu stofunni okkar í Hlíðaskóla, og tilkynna ákvörðun mína. 

Þegar upp er staðið er þetta ágætis innidjobb, felur í sér ferðalög og fjölda samkvæma og ríkið borgar mat, húsnæði og bús fyrir mann. Á móti kemur að minni tími gefst til að ganga á fjöll, leika golf, detta í'ða, fara á kvennafar, blogga, ... 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband