Um pólitíska aðför og listina að standa uppréttur
2.3.2012 | 09:43
Atkvæðagreiðslan á Alþingi í gær um frávísun á tillögu Bjarna Benediktssonar um afturköllun á málsókn gegn Geir H. Haarde fyrrum forsætisráðherra var athyglisverð. Í Morgunblaðinu í morgun birtist í morgun einstaklega fróðleg samantekt um afstöðu einstakra þingmanna og flokka til málsins.
Þar staldrar maður við þingmenn sem sögðu kusu gegn málarekstrinum í upphafi en hafa síðan viljað halda honum áfram þrátt fyrir fyrri afstöðu. Meðal þeirra eru Jóhanna Sigurðardóttir og Árni Páll Árnason. sú fyrrnefnda var í upphafi á móti en hefur síðan verið fylgjandi. Árni Páll sat núna hjá eftir að hafa kosið gegn málarekstrinum í tvígang. Össur Skarphéðinsson og Ásta R. Jóhannesdóttir hafa þó sýnt einstakt drenglyndi og ávallt kosið gegn ákæru á hendur Geir.
Undarlegast þykir manni sinnaskipti Sigmundar Ernis Rúnarssonar, þingmanni Norðausturkjördæmis. Í upphafi kaus hann gegn málrekstrinum, var fjarverandi í annað skiptið (sagðist þó ekki hafa breytt um skoðun) og í gær var hann fylgjandi. Staksteinar Morgunblaðsins fjalla um þingmannin og þar er ekkert ofsagt eins og sést hér:
Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði frá því á sínum tíma að hann væri stoltur yfir þeirri ákvörðun sinni að greiða atkvæði gegn því að fjórir fyrrverandi ráðherrar yrðu dregnir fyrir landsdóm.
Um mitt ár í fyrra sagði hann einnig á bloggi sínu: Geir Hilmari Haarde mælist rétt. Landsdómsmálið er pólitísk aðför að honum. Og hreinsun, finnst mér; kattahreinsun.
Þar sagði hann jafnframt að sú ákvörðun Alþingis að stefna einum manni fyrir dóm fyrir ábyrgðina á óförum landsins væri vægast sagt billeg og seint eða aldrei teldist hún stórmannleg. Hún væri röng og lítilmannleg.
Í janúar sl., þegar greidd voru atkvæði um frávísun á tillögu Bjarna Benediktssonar um niðurfellingu ákærunnar á hendur Geir H. Haarde, var Sigmundur Ernir erlendis en sagðist ella hefðu greitt atkvæði gegn frávísun og að hann mundi styðja tillögu Bjarna.
Í gær fékk hann tækifæri til að snúa við ákvörðuninni sem hann telur að sé pólitísk aðför og lítilmannleg.
Þess í stað notaði hann atkvæði sitt til að ákærunni yrði haldið áfram.
Hvaða orð ætli Sigmundur Ernir Rúnarsson leggi til að verði notuð um þessa framgöngu hans?
Jón Magnússon, lögmaður segir á bloggi sínu um sama mál:
Þegar þingsályktunartillagan, um að fallið yrði frá ákæru á hendur Geir H. Haarde, var tekin til afgreiðslu eftir fyrri umræðu á Alþingi lýsti Sigmundur Ernir Rúnarsson þingmaður stuðningi við tillöguna.
Stuðning gat Sigmundur þó ekki veitt nema í orði, þar sem hann var á ferðalagi í Afríkuríkinu, Burkina Faso.
Nafnið Burkina Faso var tekið upp sem nafn landsins þegar frjálsræðis- og framfaraviðhorf sigruðu nýlenduhugsun og undirlægjuhátt. Nafnið Burkina Faso þýðir "Þar sem menn ganga uppréttir".
Við atkvæðagreiðslu um fráfall ákæru á hendur Geir heyrðist allt í einu skrýtið hljóð frá Sigmundi Erni sem hætti við að ganga uppréttur. Nú brá svo við að Sigmundur Ernir greiddi atkvæði með frávísun tillögunar sem hann sagðist styðja.
Sennilega eru sinnaskipti Sigmunar Ernis í beinu samhengi við það að á þingflokksfundum Samfylkingarinnar hafa félagar hans sagt honum að það væri ekki til siðs í Samfylkingunni að menn gengju uppréttir. Þeir yrði að beygja sig undir okið hvort sem þeim líkað betur eða verr. Sigmundur Ernir hlýddi eins og vel upp alinn kjölturakki sem aldrei gengur uppréttur.
Það gerðu líka þingmennirnir hugumstóru þeir Björgvin Sigurðsson, Árna Páli Árnasyni og Kristjáni L. Möller, sem treysta sér ekki heldur til að ganga uppréttir.
Það er gott fyrir Jóhönnu að hafa hóp kjölturakka þegar hún þarf að smala köttum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.