Fjármagn í geymslu og engum til gagns
20.2.2012 | 09:28
Á Alþingi vantar pólitíska forystu til að lagfæra skuldastöðu heimilanna. Pólitísk samstaða þvert á stjórnmálaflokka virðist vera til staðar en enginn gerir neitt. Ríkisstjórnin hefur auðvitað brugðist enda er markmið hennar að skjalborg um fjárhagsstöðu fjármálastofnanna.
Illugi Gunnarsson, alþingismaður, ritar langa grein í Morgunblaðið í morgun. Greinin er nokkuð góð þó ekki sé ég fyllilega sammála öllu sem fram kemur í henni. Að hætti svo margra stjórnmálamanna fer hann mörgum orðum um fjölmargt, tiplar þó bara í kringum málið án þess að taka beina afstöðu. Það hefði hann svo sem getað gert, aðeins þurft að sagst t.d. vera á móti verðtryggingu húsnæðislána.
Illugi er greinilega ekki sá sem ætlar að taka forystu í málinu. Hann vill skoða vaxtabóta- og skattkerfið til að færa til fjámuni til illra staddar lántakenda. Það gengur alls ekki og er eiginlega engin lausn. Vandinn er ekki aðeins þeir sem eru illa staddir heldur einhliða uppgjör fjármálastofnana vegna hrunsins. Skuldararnir eru allir látnir taka ábyrgð á hruninu og skuldaeigendur mala gull.
Munum að með hruninu varð forsendubrestur á lánum tryggðum með verð- og gengistryggingum. Ekki er nokkur leið á að hægt sé að klína ástandinu á skuldara. Hins vegar er ljóst að fjármálastofnanir geta hæglega breytt ástandinu, aukið við verðbólgu sem veldur hækkun lána.
Sé ætlunin að brúka skattkerfið eða vaxtabætur eingöngu til að lagfæra stöðu fólks er afleiðingin eiginlega verri en engin. Illugi verður að skilja forsendubrestinn. Hann er til staðar hvort sem fólk getur eða getur ekki staðið í skilum með íbúðarlán sín eða önnur lán.
Svo er það önnur en skyld saga að samfélagið tapar ótrúlegum fjárhæðum vegna þess að tæpur helmingur þjóðarinnar á í fjárhagslegum erfiðleikum vegna húsnæðislána sinna. Það mætti segja mér að stór hluti atvinnuleysisins sé vegna þess að hagkerfið er stíflað. Peningar sem annars hefðu leitað út sem alls kyns greiðslur fyrir vörur og þjónustu eru nú geymdir í bönkum og lífeyrissjóðum engum til gagns.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Peningarnir sem er í bönkunum eru til gagns.
Á verðbólgutímum eins og nú þá kæla þeir hagkerfið.
Er veðbólgan kannski ekki vandamál?
Lúðvík Júlíusson, 20.2.2012 kl. 09:50
Peningar í banka eru aðeins tölur í tölvu. Við þurfum að biðja alla að lesa sér til á netinu.
Hér er reynt að ná í fróðleik á netinu.
http://www.herad.is/y04/1/2012-01-25-fjarmal.htm
http://www.herad.is/y04/1/
Byrja neðst á nýustu dagsetningum.
http://jonasg-eg.blog.is/blog/jonasg-eg/entry/1223828/
Jónas Gunnlaugsson, 20.2.2012 kl. 14:08
Þú skrifar: "Peningar sem annars hefðu leitað út sem alls kyns greiðslur fyrir vörur og þjónustu eru nú geymdir í bönkum og lífeyrissjóðum engum til gagns."
Viltu ekki hugsa þetta aðeins betur. Árið 2010 greiddu lífeyrissjóðrinir 75 milljarða í lífeyri. Einhverjir höfðu gagn af því.
Lífeyrissjóðirnir fjármagna stóran hluta ríkisrekstyursins. Varla er það gagnslaust. Þeir fjármagna Íbúðalánasjóð að stærstum hluta.
Fyrirtæki fjármagna sig með lánum (skuldabréfaútgáfu) frá lífeyrissjóðum og einnig með hlutafé frá þeim. Heimilin fá lán frá sjóðunum, sjóðfélagalán.
Er ekki fullmikið sagt að þetta (og fleira) sé engum til gagns?
Þórhallur Birgir Jósepsson, 20.2.2012 kl. 20:56
Nei, Þórhallur. Hér er ekki fullmikið sagt og þú sannar það með orðum þínum. Rangt er hins vegar að lífeyrissjóðirnir fjármagni stóran hluta ríkisrekstrarins.
Lúðvík, vandamál ríkisstjórnarinnar eru mörg og hún ræður ekki við þau. Held að það sé ekki lausn á verðbólguvandanum að viðhalda háu atvinnuleysi, neita leiðréttingu á forsendubrestinum, halda í verðtryggingu á lánum en ekki launum osfrv.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 20.2.2012 kl. 22:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.