Næstbesti kosturinn í meirihlutaviðræðunum
10.2.2012 | 09:40
Margir fullorðnast hratt og læra að verða pólitíkusar á augabragði. Skiptir engu þó hinir sömu hafi talað hæst um nauðsyn siðbótar, spillingu og sitthvað svona um heilagleika annarra en hinna. Einn þessara manna er Hjálmar Hjálmarsson, bæjarfulltrúi Næstabesta flokksins í Kópavogi.
Hjálmar skrifar langa grein í Morgunblaðinu í morgun. Langloka er kannski næstbesta nafnið á greininni. Ég ætlaði varla að nenna að lesa hana enda er greinin síst af öllu árennileg: Höfundur nota til dæmis ekki millifyrirsagnir og er ótrúlega spar á greinaskil. Slíkar blokkir fara yfirleitt framhjá lesendum þrátt fyrir að myndin af manninum sé jafn aðlaðandi og af republikana í forsetaframboði í Bandaríkjunum (að lopapeysunni undanskilinni).
Verst er þó að Hjálmar er ekki málefnalegur í greininni sem hann skrifar í krónólógíu stíl, rekur atburði eftir hentugleikum, amast ýmist við uppnefnum eða notar þau sjálfur. Hann telur sig ekki vilja setjast í dómarasæti yfir neinum manni en gerir það þó.
Hjálmar átti líklega mestan þátt í að fyrri meirihluti sprakk, hann gat ekki myndað meirihluta með Sjálfstæðisflokknum, Framsókn og Kópavogslistanum. Hvað getur hann þá eiginlega? Er engin málefnaleg taug í manninum? Er þetta allt saman grín og spé rétt eins og hjá Jóni Kristinssyni í Reykjvík?
Staðreyndin er einfaldlega sú að flokkar í fyrri meirihluta gátu ekki unnið saman. Hjálmar á sína sök á því. Hann gat farið í meirihlutaviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, vissi þó fyrirfram um dómsmálið gegn Gunnari Birgissyni og Ómari Stefánssyni. Eitthvað annað hlýtur þó að hafa fælt manninn frá viðræðunum en þeir Gunnar og Ómar.
Nú er staðan hins vegar sú að Hjálmar var greinilega næstbesti kosturinn í meirihlutviðræðunum. eins og svo oft áður var hægt að mynda meirihluta án hans.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.