Pennastrik ...
3.2.2012 | 09:47
Hversu mikla skuldsetningu þola íslensk heimili? Þannig vildi Illugi Gunnarsson, alþingismaður, að ríkisstjórnin hefði spurt Hagfræðistofnun HÍ er hún óskaði eftir skýrslu um hugmyndir Hagsmunasamtaka heimilanna um afnám verðtryggingar og leiðréttingar á stökkbreyttum lánum.
Í stað þess að gera eins og Illugi nefnir óskaði ríkisstjórnin eftir svari við þvi hversu miklar afskriftir á skuldum heimilanna bankarnir þyldu ...
Og Illugi segir:
Ef niðurstaðan er sú að íslensk heimili eru skuldsett umfram greiðslugetu, þá þarf að afskrifa meira af lánum heimilanna. Miklu skiptir að niðurstaða þessarar rannsóknar sé eins óumdeild og hægt er, deilur um þetta mál eru mjög erfiðar og til þess fallnar að sundra þjóðinni.
En rannsókn Hagfræðistofnunar er ekki eins óumdeild og talið er. Ástæðan er bankaleyndin. Þetta fullyrðir Marinó G. Njálsson í sláandi pistli á bloggi sínu þann 26. janúar síðast liðinn. Hann segir m.a.:
Sem sagt, vegna "bankaleyndar" gat Hagfræðistofnun ekki sannreynt eitt eða neitt. Tölur í skýrslu Hagfræðistofnunar (og líklegast ályktanir) eru mataðar upplýsingar, þar sem stofnunin fékk ekki færi á að rannsaka hlutina.
Ég sæi nú fyrir mér hvort dómstólar samþykktu sönnunarfærslu sem byggð væri á munnmælasögum. Okkur er aftur ætlað að trúa Hagfræðistofnun sem hafði þó ekkert annað en munnmælasögur.
Það sem verra var, að Hagfræðistofnun lagði ekki einu sinni vinnu í að kanna hvernig munnmælasögurnar féllu að raunveruleikanum. Nei, þeim var bara trúað eins og um heilaga ritningu væri að ræða. Ósk HH um að tölur væru sannreyndar voru því hunsaðar algjörlega. Við hvað eru menn hræddir?
Við þetta reka lesendur áreiðanlega upp stór augu enda hvergi annars staðar komið fram að Hagfræðistofnun hafi ekki getað staðreynt það sem hún fullyrðir í skýrslu sinni. En undrun manna beinist þó frekar að bönkunum eða eins og Illugi segir:
Sú óánægja sem hefur farið vaxandi vegna uppgjörs á skuldum heimilanna grefur undan markaðshagkerfinu og tefur fyrir efnahagsbatanum. Bankarnir sjálfir eiga því allt undir því að sátt náist og skuldastaða íslenskra heimila verði bærileg. Það er miklu mikilvægara verkefni heldur en til dæmis fjárhagsleg endurskipulagning einstakra fyrirtækja.
Þessi orð Illuga eru hárrétt. Við getum ekki rekið þjóðfélaga þar sem helmingur landsmanna á í fjárhagslegum erfiðleikum vegna hamfara sem þeir bera ekki nokkra ábyrgð á.
Hins vegar held ég að það sé borin von að ríkisstjórnin geri nokkurn skapaðan hlut vegna skuldastöðu heimilanna. Í viðtali í RÚV í morgun fullyrti forsætisráðherra að hún hefði samúð með þessu fólki rétt eins og þetta fólk væri í fjarlægum heimshluta og komi henni ekki við en ekki samlandar hennar. Og eina lausnin fyrir almenning er að samþykkja að ganga í ESB ... Heldur einhver að almenningur kokgleypi þessa gulrót?
Ég er hins vegar á þeirri skoðun að Alþingi þurfi að taka af skarið og brúka það pennastrik sem forðum var mikið rætt um. Verði ekki sett lög fyrir vorið þar sem áskipað er að veðskuldir íbúðarhúsnæðis breytist í átt til þess sem þær voru í upphafi árs 2008 má búast við því að enn frekari vandræði steðji að þjóðinni.
Þar er nefnilega rangt hjá forsætisráðherra að allt sé á uppleið og fjölmargt í pípunum. Ekki þarf annað en að benda á viðtal við Ragnar Árnason hagfræðiprófessor í Morgunblaðinu í gær sem greint hefur t.d. hagvöxtinn sem forsætisráðherra gumar af. Hann á ekki rætur sínar að rekja til efnahagsráðstafanna ríkisstjórnarinnar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.