Í áhrifastöðu verður kjáninn ekki lengur kjáni
15.1.2012 | 13:24
Kjáni er bara kjáni hvort sem hann er verkamaður, skrifstofumaður eða skrifar þennan pistil. Ýmsir finna svo mikið til sín þegar þeir komast í áhrifastöður að það flögrar að þeim að þeir séu ekki lengur kjánar, hafi þvert á móti höndlað sannleikann. Ég er án efa kjáni en hef því miður aldrei komist í áhrifastöðu til að sannreyna kenninguna. Hún er sem sagt ósönnuð, flokkast því sem tilgáta.
Jæja. Í dag las ég frétt á visir.is. Fyrirsögnin er þessi: Falskt eftirlit verra en ekkert - brimsalt bjúga í skólamötuneytinu. Vissulega er þetta löng fyrirsögn og hefur freisting blaðamannsins verið slík að hann gat ekki gert það upp við sig hvort hann ætti að hafa einfalda eða tvöfalda kynningu í fyrirsögn. Í greininni er vitnað til bloggs Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns Hreyfingarinnar. Þar lýsir hún yfir áhyggjum vegna lélegs eftirlits eftirlitsstofnanna .... Og svo segir í fréttinni:
Margrét segir málið vægast sagt sérkennilegt og bendir á að einstaklingar myndu ekki nota iðnaðarsalt til matreiðslu heima hjá sér. Maður reynir að hafa hollan mat heima. En svo fara börnin manns í skólann þar sem þau borða í mötuneytinu. Og þar er stundum brimsalt bjúga í boði," segir Margrét og bætir við að það sé hrollvekjandi að hugsa til þess hversu lengi saltið hefur verið notað til matvælaframleiðslu.
Nú er það svo að salt er salt. Mér skilst að ekki sé til veikt salt né sterkt salt, allt er þetta sama mölin. Eftir því sem ég bes veit er eiginlega enginn munur á iðnaðarsalti og matarsalti. Það sem skilur á milli er meðhöndlun matarsaltsins sem þarf að uppfylla ýmis skilyrði eins og aðrar vörur til manneldis.
Birmsalta bjúgað í sögu Margrétar þingmanns er því ekki hægt að rekja til iðnaðarsaltsins heldur til bjúgugerðarmannsins sem líklega hefur kastað til höndunum við framleiðsluna.
Í biblíunni er haft eftir Jésú: Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar með hverju á að selta það? Það er þá til enskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum.
Líklega má halda því fram að rangt sé hér haft eftir frelsaranum eða þá að hann noti þessi orð í yfirfærðri merkingu og eigi við mannfólkið. Ég ætla ekki að hætta mér út í túlkunina, nóg er þó sagt.
En ekki misskilja mig. Hér hef ég ekki kallað Margréti þingmann kjána. Heiður hennar er hins vegar sá að vera með sjálfum Jésú umræðuefni í litlum pistli.
Hins vegar má deila um þetta með falska eftirlitið sem Margrét þessi gerir að umtalsefni. Dreg stórlega í efa að falskt eftirlit sé verra en ekkert ... Þetta er svona leiðinda frasi sem gengur um í ræðum og ritmáli eins og afturganga en er gjörsamlega merkingarlaust nema einhver rökstuðningur fylgi.
En mikið óskaplega öfunda ég fólk eins og Margréti fyrir að vera í áhrifastöðu og vita þar af leiðandi allt ...
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.