Land hefur risið við Hornafjörð

Í dag eru 100 ár frá fæðingu Sigurðar Þórarinssonar, jarðfræðings. Ekki þekkti ég manninn neitt persónulega en átti þó í stuttum samskiptum við hann 1979, þegar ég var ungur og óreyndur blaðamaður á síðdegisblaðinu Vísi, og einnig síðar þegar ég stofnaði tímart sem fékk nafnið Áfangar.

Vísir

Ég hafði á þessum árum ákafan áhuga fyrir jarðfræði. Mér gekk vel með hana í MR og hugleiddi að fara í jarðfræði í Háskólanum. Hætti þó við það vegna þess að stór hluti af jarðfræðinni er eðlisfræði og efnafræði og ég hafði talið mér trú um að það væru hundleiðinlegar fræðigreinar sem ég gæti engan veginn lært.

Svo gerist það að skipið Álafoss strandar í Hornarfjarðarósi og á ritstjórnarfundi var ákveðið að ég fyndi eitthvað út um ástæður þess. Talaðu bara við Sigurð Þórarinsson, sagði Elías Snæland, ristjórnarfulltrúi, hann nafni þinn veit allt.

Ég tók andköf. Fannst það eiginlega miklu meira mál að ræða við þann andans mann,, Sigurð Þórarinsson en að tala við ráðherra og viðskiptafursta. Jæja, ég hringdi í Sigurð. Auðvitað tók hann mér vel og sýndi mér, þessum aula í blaðamannastétt, mikinn skilning þrátt fyrir óskaplega vanþekkingu. Móttökurnar urðu til þess að styrkja sjálfsálitið og ég þorði síðar að hafa samband við Sigurð um annað mál.

Meðfylgjandi er mynd af forsíðufréttinni sem ég fékk birta á Vísi. Líklega eina fréttin frá mér sem rataði á þá síðu. Hægt er að smella nokkrum sinnum á hana og lesa.

Fréttin fjallaði auðvitað um landris við Hornafjörð þar sem farg jökla hafði minnkað á síðustu áratugum og það gat verið ástæðan fyrir því að skipið strandaði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband