Delluskrif Guðna Ágústssonar

Guðna Ágústsyni er mikið hampað, stundum af nauðsynjalausu. Hann ritar grein í Moggann í dag sem fær heiðursess í opnu blaðins, á móti forystugrein. Og fyrir hvað, grein sem er hrikalega ómarkviss langloka en alls ekki dæmalaus eins og ég mun rekja.

Kallinn skrifar alltaf of langt mál, setningar eru langar og oft ærið flóknar. Að auki virðist hann ekki alltaf viss hvernig hann ætlar að takast á við umræðuefni sitt. Hann fer út um víðan völl og innihaldið sömuleiðis. Hann kann alls ekki að skipuleggja hugsanir sínar og setja þær markviss í greinarform.

Núna ritar hann um Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem hann segir vera miskunarlausan gagnvart Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landsbúnaðarráðherra. Dellan í Guðna er alveg hrikaleg, en kannski er það bara vegna þess að hann kann ekki að nýta sér dæmisögur sínar. Hann segir til dæmis:

Við sem sátum á Þingvelli á afmælishátíð lýðveldisins 1994 minnumst enn fyrirboðans um að Jóhanna hyrfi úr ríkisstjórninni. Þá flugu tíu hvítir svanir yfir þingstaðinn og komu að vörmu spori níu til baka en ráðherrarnir voru þá tíu talsins. Þá spáði sá glöggi maður Ólafur Þ. Þórðarson því að Jóhanna gengi út strax að hátíð lokinni sem varð niðurstaðan.

Óskiljanlegt að maðurinn skuli bera svona á borð við lesendur sína. Kannski er ég svo illa innrættur en ég veit ekki hvort ég á að hlægja eða gráta við lesturinn. Ónotalegur bjálfahrollur fer þó um mann - og ég er líklegast bjálfinn. Og Guðni heldur áfram:

Þetta minnir á annan Hóla-Jón Arason sem galt skoðana sinna sem píslarvottur einn haustdag í Skálholti og dó fyrir kóngsins mekt. Ég verð að segja fyrir mig að pólitísk sannfæring er heilagt mál, hún á ekki að vera föl fyrir völd eða gull.

Er nú ekki fulllangt gengið að líkja þessum tveimur Jónum saman? Þeir eiga ekkert annað sameiginlegt en nafnið - jú og þeir hafa báðir starfað á Hólum. En Guðni lætur ekki staðar numið í dæmisögunum og ávarpar formann Vinstri grænna, sjálfan Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, og brýnir hann að koma til liðs við Jón. Svo bankar hann uppá hjá Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra, og segir:

... ber er hver að baki nema sér bróður eigi, vona að þið Jón fylgist að í brennunni, það gerðu þeir Skarphéðinn og Kári forðum. Samfylkingin er þér reið vegna Grímsstaðamálsins og staðfestu þinnar þar. Nú er Jón barinn og bannfærður í svita þess máls. Þess vegna ekki síst hriktir í vængjunum á milli vinstri og grænna. 

Ekki minnkar bjálfahrollurinn við þessa lesningu. Raunar skortir sárlega á í þessari grein að höfundur líki saman þeim Jesú Kristi og Jóni Bjarnasyni, það hefði fullkomnað greinina.

Væri ég stuðningsmaður Vinstri grænna eða Samfylkingar myndi ég áreiðanlega snarsnúast og taka afstöðu með andskotum Jóns Bjarnasonar. Það getur einfaldlega ekki verið að maður sem skrifar eins og Guðni hafi rétt fyrir sér því engin rök fylgja, ekkert annað en væmnar dæmisögur og tilraun til föðurlegrar áminningar. Sú tilraun mistekst gjörsamlega.

Ég er þó jafnundrandi og Guðni Ágústsson á eineltinu gagnvart Jóni Bjarnasyni. Sá meira að segja gæsir fljúga suður á land. Þær voru 32 en fjórar snéru aftur. Held að þetta sé fyrir snjóþungum vetri ... eða að ríkisstjórnin falli ... eða að fjórar vikur séu til jóla (þ.e.a.s. frá sýninni) ... eða að þetta hafi verið hrafnar en ekki gæsir og það leiðir hugan að hrafnaþingi ... eða ég er bjálfi ...

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: K.H.S.

Guðna er tamt að stílfæra en meiningin er alltaf hrein og góð.

Hann fer aldrei með dellu. Það gerir þú hér og er ekkert nýtt í þínum skrifum.

K.H.S., 2.12.2011 kl. 11:30

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Ansi var nú gott að þú minnist á delluna í skrifum mínum. Grein Guðna snarbatnar fyrir vikið.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 2.12.2011 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband