Klekkt á Jóni vegna sjávarútvegsmála
29.11.2011 | 13:31
Fyrirfram hefði mátt halda að fjölmiðlar, flokkar og þingmenn fögnuðu vinnubrögðum af þessu tagi enda eru þau tvímælalaust í góðu samræmi við nútímalegar hugmyndir um gegnsæja stjórnsýslu. En þess í stað er nú reynt að refsa Jóni fyrir þessa upplýsingagjöf með því að reka hann úr embætti! Er einhver sem ekki sér í gegnum þetta sjónarspil? Tylliástæðan er svo fáránleg og smávaxin að það getur enginn tekið mark á henni. Í henni felst það eitt af hálfu Samfylkingarmanna að koma höggi á pólitískan andstæðing og fá einhvern annan í hans stað sem gæti orðið leiðitamari í ESB-málinu.
Þetta rita Ragnar Arnalds, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, á vefsíðu Vinstrivaktarinnar gegn ESB. Vart þarf að taka það fram að hann er flokksbundinn í VG.
Ragnar fjallar þarna um hvað Jón Bjarnason var í raun og veru að gera þegar hann birti á vefsíðu ráðuneytisins hugmyndir um breytingar á lögum um fiskveiðar. Ragnar heldur því blákalt fram og hefur fyrir því ágæt rök að ástæðan fyrir árásum á Jón séu fyrst og fremst afstaða hans gegn ESB. Hún hugnist Samfylkingunni ekki og hefur hún lengi reynt að losna við Jón úr ríkisstjórninni.
Ragnar orðar þetta ágætlega og veit eflaust manna best hvað gerst hefur bakvið tjöldin:
Jóhanna þrýstir nú mjög á VG að skipta út Jóni Bjarnasyni fyrir einhvern sem sé leiðitamari í ESB-málinu og notar að yfirvarpi meintan ágreining um málsmeðferð kvótafrumvarpa. Sök Jóns er þó sú ein að reyna að sætta stríðandi fylkingar í stjórnarflokkunum en þar er hver höndin uppi á móti annarri í þessu máli.
Forysta Samfylkingarinnar hefur lengi rætt það í sinn hóp hvernig losna megi við Jón Bjarnason úr ríkisstjórninni. Ástæðuna þekkja allir: hann er andvígur aðild að ESB, eins og raunar flestir sem starfa í atvinnugreinum sem heyra undir ráðuneyti Jóns, landbúnaði og sjávarútvegi, enda alþekkt að einmitt í þeim greinum yrði mestu fórnað við ESB-aðild.
Lengi var unnið að því að hrekja Jón út úr ríkisstjórninni í tengslum við endurskipulagningu stjórnarráðsins. En það mál hefur dregist á langinn og nú er þolinmæði Samfylkingarmanna gagnvart Jóni á þrotum og þeir hafa ákveðið að ráðast að honum með því að finna eitthvað það sem unnt væri að gagnrýna hann fyrir
Og hvað dró Jóhanna og lið hennar upp úr skúffunni? Ákveðið var að klekkja á Jóni með því að vísa til vandræðagangs stjórnarflokkanna í kringum kvótamál sjávarútvegsins. Jóhanna réðist síðan hvað eftir annað opinberlega á Jón Bjarnason í fjölmiðlum, sem er afar fátítt að forsætisráðherra leyfi sér gagnvart ráðherrum sínum. Glæpur Jóns átti að vera fólgin í því að hafa birt á netinu ýmsa punkta starfshóps um hugsanlega lausn kvótamálsins.
Jafnframt var sterklega gefið í skyn að Jón hefði með þessum upplýsingum sett fram einhvers konar úrslitakosti. Og ríkissjónvarpið og Fréttablaðið tóku óspart þátt í þessu leikriti Samfylkingarinnar eins og vænta mátti. Þannig var sagt af þáttastjórnenda Kastljóss í gærkvöldi að Jón hefði varpað sprengju" þegar ráðherrann var einfaldlega að gefa hagsmunaaðilum og þjóðinni allri tækifæri til að kynna sér hvaða hugmyndir voru uppi um lausn málsins í starfshópi sem vann að málinu fyrir ráðuneytið.
Sjávarútvegsmálin einungis yfirskin? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Já þetta er hrikalega ljótt mál af hendi Jóhönnu og hafi hún skömm fyrir, ásamt Steingrími.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.11.2011 kl. 13:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.