Undratækið iPad
29.11.2011 | 10:35
Mér dettur þetta í hug eftir að hafa kynnst iPad. Það er ótrúlegt undratæki, að minnsta kosti fyrir fréttafíkil. Að geta lesið blöð hvaðanæva úr heiminum á jafneinfaldan hátt og í iPad er með ólíkindum. Vegna þess hve ég skrifa mikið kemur tækið þó ekki í stað tölvunnar hjá mér.
Þannig skrifar Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra og alþingismaður. Ég gekk inn í búð hjá söluaðila Apple um daginn og keypti einn iPad. Sá fram á að enginn myndi vilja gefa mér slíkan í jólagjöf. Hrifning mín á tækinu er nú síst minni en Björns.
Raunar hef ég verið forfallinn Makkavinur allt frá því ég sá fyrsta Makkann en það var líklega árið 1984 eða 85. Áður hafði ég farið á námskeið og lært flóknar skipanir í DOS en skildi hreinlega ekki hvers vegna tölvur gætu verið fyrir aðra en hámenntaða tölvunarfræðinga.
Makkinn breytti tilveru minni og síðan hef ég notað hann. Nú sit ég við MacBook Pro fartölvu, hef tengt hana við 23" skjá og í dokk er iPhone tæki. Ég segi tæki vegna þess að sími er aðeins einn af mörgum eiginleikum þess. Og inni á stofuborði er iPad en í honum var ég að lesa skáldsögu sem ég keypti á rafrænu formi. Ég á stórt og mikið bókasafn en við liggur að manni sundli við þá tilhugsun að allar bækurnar gætu geymst inni í iPad-inum og raunar þúsundir til viðbótar. Og að geta ferðast um allan heim með stórt bókasafn, nærri því í rassvasanum, það er ótrúlegt. Þó er makalaust hvað maður venst þessari tækni fljótt. allar bækur, öll skjöl getur maður haft handbær í iPad. Pappírslausa tilveran nálgast óðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.