Veruleg hætta á að heilbrigðiskerfið hrynji
29.11.2011 | 09:47
Nú er svo komið og hefur verið í nokkur ár, að það er hærra hlutfall af læknum í Flugleiðavélunum en í matsal LSH í hádeginu. Allir á leið utan eða út í aukavinnu til þess að vinna fyrir salti í grautinn. Menn fá auðveldlega íhlaupavinnu, gjarnan 2-3 vikur í senn og fá vel borgað fyrir. Í smábæ þar sem ég þekki til hafa íslenskir læknar mannað heila stöðu á heilsugæslunni í mörg ár með því að koma nokkrar vikur í senn hver og einn. Ég hef það frá fyrstu hendi að þeir eru mjög vinsælir og vel liðnir.
Góður vinur minn skrifaði mér um daginn og ofangreind tilvitnun er frá honum komin. Hann er læknir eins og auðvelt er að giska á.
Mér brá mikið við lesturinn. Ég veit að atgervisflótti til útlanda mun eftir örskamman tíma verða mikið vandamál hér á landi. Hins vegar gerði ég mér ekki grein fyrir því hversu margir læknar hafa flust út landi eða eru á þeim buxunum. Þetta er þó staðreynd.
Morgunblaðið fjallaði vel um þessi mál í gær. Þar er bent á að 227 íslenskir læknar hafi fengið lækningaleyfi í Svíþjóð, Noregi og Danmörku á árunum 2008-10, langflestir í Svíþjóð. Í Noregi fengu yfir 100 íslenskir hjúkrunarfræðingar leyfi á árunum 2009-10. Þessar tölur segja okkur hrikalega sögu um stöðu heilbrigðiskerfisins hér á landi.
Að sjálfsögðu eru þetta afleiðingar hrunsins. Hins vegar eru nú þrjú ár frá þeim atburði og enn er ekkert lát á atgervisflótta. Ábyrgðina á bera auðvitað þeir sem bregðast ekki við vandamálum. Ríkisstjórnin hefur ekki haft getu, þekkingu eða vilja til að bregðast við afleiðingum hrunsins. Hún skilur ekki hvers vegna vel menntað fólk hrekst úr landi. Getur það eft til vill verið að hin norræna velferð felist í því atgervisflótta til Norðurlandanna?
Aðstæður íslenskrar heilbrigðisþjónustu eru sláanda samkvæmt bréfi læknisins. Ég bendi á að lestur þess er ekki fyrir viðkvæma og með þessum orðum er ég ekki að spauga.
Vinur minn leyfði mér að birta hluta þess með miklum semingi en biður mig að greina ekki frá nafni sínu. En hér er sá hluti bréfsins sem hann heimilaði mér að birta eftir mikla eftirgangsmuni:
Það er mikil eftirspurn eftir læknum í flestum nágrannalöndunum, sérstaklega reyndum og sérhæfðum. Íslendingar eru satt að segja mjög vinsæll vinnukraftur. Sjálfur gæti ég flutt út þegar á morgun en við bíðum væntanlega um sinn, af fjölskylduástæðum aðallega.Ekki veit ég um einn einasta lækni í sérnámi eða starfandi erlendis sem vill eða getur flutt heim næstu árin. Mér þætti fróðlegt að vita hvort það sé yfir höfuð einhver slíkur til? Það er bara della að koma heim úr góðum aðstæðum í erfiðið heima til þess eins að snarlækka í launum og geta jafnvel ekki einu sinni borgað námslánin og eignast húsnæði. Þetta leiðir í flestum tilfellum til þess að fólk festist endanlega í starfi. Það er heldur ekki gott að flytja heim seinna, kannski með stálpaða unglinga og þegar menn eru orðnir fastir í starfi, vel borgaðir og virtir þá þarf ekki stúdentspróf til að skilja hversu erfitt er að taka sig og fjölskylduna upp og flytja til Íslands.Þeir sem eru enn í vinnu heima sligast fyrr eða seinna og gefast upp á óbærilegu álaginu sem þegar er farið að segja verulega til sín sums staðar.LauninMenn geta alveg kallað svona tal eigingirni og hégóma en staðreyndin er að læknar komu heim allt að 10 -15 árum eftir að flestir skólafélagar voru farnir að vinna vel fyrir sér, oft þá þegar með skuldir ofan á námslánin og bættu svo á sig enn meir skuldum til að "eignast" gott húsnæði í von um að geta unnið af sér skuldirnar. Sjálfur eyddi ég mörgum milljónum í að flytja fjölskylduna milli landa í tvígang til þess að fá góða menntun.Það er útbreiddur misskilningur að læknar séu "kostaðir" í framhaldsnámi erlendis. Svo er alls ekki, þvert á móti. Laun í framhaldsnámi eru ekki neinn lúxus eins og sumir halda. Nægir oftast bara til að hafa það bærilegt. Rafvirkinn sem bjó við hliðina á okkur lengst af meðan ég var í sérnámi var með mun betri innkomu en ég fyrir helmingi færri unna tíma! Hann var meira að segja með meira tímakaup en ég fyrir að sitja heima á tíðindalitlum útkallsvöktum fyrir orkuver en ég hafði fyrir að vera allan slólarhringinn á brjálaðri staðarvakt á spítalanum.Heima á Íslandi er oft vitnað í innkomutölur um einstaka lækna íslenska sem reka sjálfa sig sem fyrirtæki og hafa milljónir á mánuði í skattlagða innkomu. En það eru sko undantekningarnar. Þó læknar hafi getað haft það gott á pappírnum þá fylgir því gríðarleg vinna. Vegna aðstæðna er vinnu- og sérstaklega vaktaálag á sérfræðinga heima mun meira en eðlilegt þykir í öðrum löndum. Það hefur aldrei komið almennilega fram í umræðunni - merkilegt nokk.TækjabúnaðurinnÞað eru ekki bara launakjörin sem eru að gefa sig þarna heima. Tækjakosturinn er gamall, bilaður og úreltur. Um daginn var verið að grafa eftir fornminjum í grasblettinum fyrir utan sérhæfðasta spítala landsins. Ég lagði þá til að fólkið hætti þessu púli og kæmi bara í kaffi inn á skurðstofugang. Þar gætum við sýnt þeim alvöru fornminjar í fullri notkun.Það má ekkert kaupa eða endurnýja. Þegar eitthvað er loks keypt, oftast vegna þess að það gamla datt í sundur í notkun, þá er það verðið sem öllu ræður. Í þessu sem öðru gildir að gæðin eru tengd við það verð sem greitt er. Iðullega eru valin ódýrari tæki, minna hentug og hreinlega lélegri bara til að spara á pappírnum.Nýlega varð til dæmis að henda heilum lager af nálum og lyfjabrunnum sem keypt var ódýrt frá austurlöndum, að mér skilst. Lyfjabrunnar eru aðallega notaðir til að hjálpa krabbameinsveikum en þetta var svo lélegt að það var ekki þorandi að nota það!GóðgerðafélögHið opinbera reiðir sig stöðugt á að líknar- og góðgerðafélög gefi fé til nauðsynlegra tækjakaupa. Fyrir bragðið hallar verulega á ýmsar deildir þar sem ekki þykir eins fínt og hjarta-, barna- eða krabbameinsdeildir. Fást einhverjir til dæmis til að stofna styrktarsjóð botnlanga- og gallblöðrusjúklinga svo hægt sé að safna fyrir almennilegum kviðsjárgræjum á hátæknispítalann?Ráðamenn tala enn um að það sé hægt að spara í heilbrigðisgeiranum án þess að minnka þjónustustigið. Staðreyndin er að þjónustustigið hefur í flestu tilliti minnkað jafnt og þétt í mörg ár og nú fer það að hrynja ef ekki er spyrnt við fótum.HátæknisjúkrahúsAð lokum skulum við hafa það hugfast að hátæknisjúkrahús verður ekki byggt úr steinsteypu heldur úr góðum vinnuaðstæðum fyrir hámenntað, ánægt fólk sem fær að velja sér góð tæki og efni að vinna með. Ef við höfum ekki efni á því höfum við alls ekki efni á steinsteypunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.