Spámenn, sérfræðingar eða sjimpansar
22.11.2011 | 10:01
Hver gat spáð fyrir gosinu á Fimmvörðuhálsi? Hver spáði fyrir brunann í Lækjargötu? Hverir eru svo spámannlega vaxnir að þeir geti spáð fyrir um ókomna tíð fyrst þeir sáu ekki hrunið fyrir?
Fjöldi manns segist núna hafa spáð fyrir um hrunið. Hver stjórnmálamaðurinn á fætur öðrum hefur ruðst fram í fjölmiðlum og sagt si svona: Tja, ég skrifaði nú fjölmargar greinar þar sem ég varaði við að allt kynni nú að fara á versta veg en á mig var ekki hlustað. Um að gera að segja það svona óljóst og vona bara að enginn nenni að leita að þessum greinum.
En það eru eiginlega hinir, þessir draumspöku, sjáendurnir, þeir sem leika sér að beinum, innyflum, spilum og góna á himintungl. Enginn þeirra sá þann merkilegasta atburð sem riðið hefur yfir þessa þjóð á síðustu áratugum. Enginn ... Ekki nokkur maður stóð upp ári fyrr eða þar um bil og sagði að allt væri við það að fara til andsk...
Árni Matthíasson, blaðamaður í Mogganum, er afar ritfær og stundum skemmtilega áhugaverður. Hann er það í dag. Grein hans í blaðinu í dag nefnist Varúð: Sérfræðingur!. Hann ræðir um þessa spámenn:
Ytra hafa menn þó gert slíkar skipulegar rannsóknir. Ég nefni sem dæmi rannsókn sem gerð var á vegum vísindaráðs Bandaríkjanna á níunda áratugnum þar sem um þrjú hundruð sérfræðingar voru fengnir til að spá reglulega fyrir um framtíðina; stjórnmálafræðingar, hagfræðingar og blaðamenn. Rannsóknin stóð í nokkur ár og alls náðu rannsakendur að smala saman tæplega 30.000 spádómum sem voru síðan metnir eftir því hversu vel þeir rættust. Í ljós kom, en ekki á óvart, að spádómar sérfræðinganna voru ekki betri en handahófsval sjimpansa.
Það kemur ekki á óvart þegar rýnt er í niðurstöður rannsóknarinnar að þeim gekk best í tilrauninni sem höfðu ekki trú á framtíðarspám, þar með talið sínum eigin spám. Þeim, sem voru með allt á hreinu og vissu nákvæmlega hvað væri framundan, gekk verst allra, enda byggðu þeir spádóma sína á nánast trúarlegri vissu um réttmæti skoðana sinna og þekkingar. Það er svo kaldhæðnislegt að þeir spámannanna sem mest bar á í fjölmiðlum, sem oftast var leitað til af því að þeir voru svo afdráttarlausir, stóðu sig verst allra. Það breytir því ekki að slíkir spámenn eru alltaf jafn sælir með sig og sannfærðir um að þeir hafi í raun haft rétt fyrir sér ef niðurstöðurnar eru túlkaðar rétt, þeir kunna nefnilega að spá um fortíðina.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.