Gistináttagjald fyrir svefninn langa ...?

Það væru um 1.500 aðilar á fyrstu drögum að þessum lista, en Skúli Eggert segir að það eigi eftir að fækka á honum og líklegra sé að um þúsund aðilar í ferðaþjónustu innheimti skattinn. Reynt verði að fylgjast með innheimtu eins og þurfa þykir.

Þetta hefur Moggin eftir eftir Skúla Eggerti Þórðarsyni, ríkisskattstjóra, þurrpumpulegum að vanda að hætti þreyttra embættismanna. 

RSK er umsvifamikil stofnun og stendur undir stórum hluta hagvaxtar í landinu. Hún sinni öllu, allt frá skattamálum í beina sýslu með fyrirtækjaskrá, ársreikningaskrá og núna hýsir hún „Eftirlitsstofnun með skammtímaleigu á rúmum, fletum eða torfum“, skammstafað ESRFT. Sér um innheimtu, viðurlög og dæmir í vafamálum.

Ekki nóg með það, hún sendir út menn í dulargervi til að kanna hvort einhverjir séu að vinna svart. Þetta er „Eftirlitsstofnun með vonda fólkinu sem borgar ekki skattinn sinn í kreppunni“, EMVFSBESSK. Sér um innheimtu, viðurlög og dæmir í vafamálum.

Þegar'ann Indriði réði ríkjum hjá RSK var ekkert ESRFT eða EMVFSBESSK. Þá var ekki heldur neinn sem sveik að ráði undan skatti. Að vísu var eitthvað um skiptivinnu. Múrarinn fékk smiðinn til að slá upp fyrir sig og borgaði honum með því að skreppa heim til hans og sletta nokkrum múrskeiðum á vegg. Sama háttinn á höfðu píparinn og bifvélavirkinn. Engum datt í hug að þetta gæti verið ólöglegt enda allir vinir - ólíkt því sem nú er, smiðir og bakarar hengdir á víxl.

Nú má maður ekki einu sinni eiga pening inni á bankareikning um áramót, þá kemur Skúli Eggert, Steingrímur Joð og aðrir ofaníannarramannakopp-skoðendur og sekta mann.

Hef heyrt að Steingrímur þessi Joð, en hann ræður yfir Skúla Eggerti, ætli að stofna Víkingasveit skattskoðunar-, eftirlits-, njósna- og forvitnismanna, skammstafað VSENF sem verði vistuð hjá RSK, a.m.k. um tíma, þ.e.a.s. kannski. Þetta lið verður gert út eins og eftirlitsmenn með stöðumælum. Þeir þjóti um og spotti þeir einhvern sem þeir gruna um skattsvik af einhverju tagi, er viðkomandi dæmdur og sektaður á staðnum. Geti hann það ekki er sent eftir víkingasveit löggunnar.

Slagorð VSENF verður: Sultur er betri en svik við Steingrím Joð. Að sjálfsögðu er grunnhugsunin rétt, dauður maður svíkur ekki undan skatti, né heldur vinnur hann svart og síst af öllu getur hann svikist um að greiða gistináttagjald.

Dettur kannski einhverjum í hug að hægt sé að sofa svefninum langa án þess að greiða gistináttagjald?


mbl.is Gistináttagjald á svefnpoka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband