Þingmaður til lífstíðar, a.m.k. til að byrja með

Leiðarar Morgunblaðsins eru oft stórkostleg lesning, málefnalega góðir og meinlegir oft á tíðum. Í dag er fjallað um Berlusconi, þann undarlega náunga sem var lengur í stöðu forsætisráðherra á Ítalíu en nokkur annar.

Skuldastaða ríkissjóðs Ítala er erfið og ESB gerir kröfur sem Berlusconi varð við með frumvarpi til laga á ítalska þinginu. Hann lofaði að hætta sem forsætisráðherra yrði það samþykkt. Þetta var tilboð sem þingmenn gátu ekki hafnað. Nýr forsætisráðherra hefur nú tekið við völdum en sá var áður háttsettur í ESB. Og leiðarahöfundur Moggans segir:

Og nú fagna menn því mjög að fyrrum kommissar Monti komist til valda bakdyramegin á Ítalíu. Hann er reyndar allt í einu orðinn kjörinn fulltrúi fólksins á þinginu, sem hann hefur aldrei verið áður. Hann hlaut óvænt kjör til Öldungadeildar Ítalíu fyrir fáeinum dögum. Sigraði með yfirburðum. Hann fékk 2 atkvæði. Annað frá Berlusconi sem lét skipa Monti sem kommissar árið 1994 og hitt frá forseta Ítalíu. Til að hafa vaðið fyrir neðan sig ákváðu þessir tveir almennu ítölsku kjósendur að Monti skyldi kosinn öldungadeildarþingmaður til lífstíðar, a.m.k til að byrja með. 

Leiðarahöfundur segir frá viðbrögðum vegna afsagnar Berlusconi:

Og í öllum fréttum var einnig sagt að „markaðurinn“ myndi fagna brottför Berlusconis og öllu hans Bunga bunga með hækkun hlutabréfa og lækkun refsiálags á ítölsk skuldabréf. Og fréttaskýrendurnir margreyndu höfðu rétt fyrir sér. Markaðir hækkuðu í þrjá klukkutíma tæpa til heiðurs Monti kommissar, en síðan ekki söguna meir.

Og svo kemur þetta sem er alveg óborganlegt:

Því nú fóru að berast fréttir um að Spánn væri næstur í röðinni. Hann væri þegar kominn með sjáanleg útbrot og Belgía, sem er hérað í kringum Brussel, þar sem ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn í hálft annað ár, væri orðin rauðeyg og farin að svitna. Hvort tveggja dæmigerð evrueinkenni að breiðast út um þjóðarlíkama á óviðráðanlegum hraða. Það er nefnilega svo komið að evran minnir sífellt meira á plágu og minna á peninga. 

Þó svo að leiðarahöfundur bregði fyrir sig skopi og meinlegri ádeilu fer ekki hjá því að lesandinn átti sig því efnahagslega svartholi sem Evrópa hefur vitandi eða óafvitandi stefnt í undir forystu ESB. Þar eru ákvarðanirnar teknar, lýðræðislegar stofnanir eru valdalitlar og fréttaflutningurinn allur í skötulíki. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband