Maðurinn verður að finnast fyrir myrkur
10.11.2011 | 11:48
Hann er lagstur í suðaustanátt á Fimmvörðuhálsi með rigningu. Líklegast er komið slagveður þarna uppi meira en 15 m/s. Því miður er þetta ein versta áttin á Hálsinum.
Eiginlega er allt í óvissu með manninn sem þarna á að vera. Hann er villtur og ekki í símasambandi. Ekki er ljóst hvenær hann lagði af stað á Hálsinn en gera verður þó ráð fyrir að það hafi verið fyrir hádegi í gær. Hugsanlega hefur verið farið að rökkva þegar hann kemur að vaðinu yfir Skógá. Hann hefur engu að síður gengið áfram, líklega getað fylgt stikum en síðan misst af þeim. Hversu lengi hann hefur gengið eftir að þeim sleppti er óvíst. Kannski hefur hann haft einhverja skímu og því stefnt upp að Fúkka. Þegar myrkrið skellur á verður hann óttasleginn og reynir að hringja.
Mér finnst líklegast að maðurinn hafi smám saman haldið í vestur þar sem stórt gljúfur er honum á hægri hönd upp frá vaði. Geri því ráð fyrir að hann sé einhvers staðar í kringum Fimmvörðuhnúk, en hann er vestast á hryggnum sem Fimmvörðuskáli stendur á. Vandinn er sá að sunnan fyrir hrygginn var jökull en hann hefur minnkað mikið, skaflar sem brúuðu fyrir nokkrum árum stór gil og gljúfur eru horfnir. Í myrkri kann þetta landslag að vera endalausar torfærur.
Allt eru þó þetta getgátur og er skemmst að minnast mannsins sem týndist þarna í fyrra og fannst við Steinsholtsá en var miðaður út fyrir ofan Steinsholtsjökul. Hvernig sá hefur komist niður er óútskýrt.
Nú er hins vegar lífsspursmál að fá sem flesta björgunarsveitarmenn á Hálsinn og leita í breiðfylkingu. Tíminn vinnur gegn leitarmönnum og veðrið fer versnandi. Maðurinn verður að finnast fyrir myrkur.
Versnandi veður á leitarsvæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.11.2011 kl. 00:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.