Hávaði og læti í óróamælingum við Mýrdalsjökul
8.11.2011 | 11:22
Þó smáhögg verði í Kötluöskjunni telst það ekki til tíðinda - og þó. Til lengri tíma litið er þessi jarðskjálfti hluti af einhverju ferli sem jarðfræðingar skilja ekki enn til hlítar.
Í bloggi sínu bendir Ómar Ragnarsson á að óróamælingar á mæli Við Álftagróf, sunnan við Mýrdalsjökul, hafi verið stöðugri en oft áður og ekkert fallið niður úr efstu mörkum, eins og hann hefur verið gert líkt og í ölduhreyfingu síðan í sumar..
En Ómar segist ekki vera sérfræðingur og ég er það ekki heldur. En sá þarf ekki að vera sérfræðingur í bílaviðgerðum sem getur með því að hlusta á bílvélina ganga bent á að eitthvað sé að.
Jarðskjálftinn sem varð Kötlu í morgun rétt fyrir klukkan tíu var 3 á Richter og mældist skv. töflu Veðurstofunnar á 0,1 km dýpi. Sé mælingin rétt verða upptök skjálfta varla mikið grynnri.
Álftargrófarmælinguna má sjá hérna á annarri myndinni. Vandamálið er að kunna að lesa úr þessum hávaða. Best er að vísa á blogg Haraldar Sigurðssonar, jarðfræðings, sem óhikað tjáir sig á mannamáli um það sem almenningi er hulið í jarðfræði.
Allt í kringum Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul eru margvísleg mælitæki og sum þeirra mæla óróann.
Skammt vestan við Goðabungu í Mýrdalsjökli er mæling á óróanum og hér er mynd af henni.
Mælingin er eflaust talsvert nær Kötlu og þarna er gríðarlegu hávaði.
Sé farið norðan við Mýrdalsjökul verður fyrir okkur græjur á Slysaöldu, á norðanverðum Mýrdalssandi.
Þar er annað hljóð í strokknum en ýmislegt bendir þó til að hún mæli sömu óhljóð þó lengra sé í Kötluöskjuna.
Berum nú saman mælingu þar sem augljóst er að lítið er að gerast neðanjarðar. Neðst er mælingin frá Fagurhólsmýri. Þar virðist allt vera með ró og spekt. Það er hins vegar ekki raunin nokkru norðar því hávaðinn í Grímsvötnum er líkastur því sem er við Goðabungu.
Í sannleika sagt held ég að fólk geti verið rólegt. Ekki mun gjósa á næstunni í Kötlu, örugglega ekki fyrr en 18. nóvember. Eða eins og jarðfræðingarnir segja. Við skulum búa okkur undir tíðindi þegar ítrekað verða jarðskjálftar af stærðinni 3,5 til 4,5.
Harður jarðskjálfti í Kötlu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.