Steve Jobs var stórundarlegur maður

Steve Jobs, stofnandi Apple fyrirtækisins í Bandaríkjunum, var furðulegur náungi, eiginlega nálægt því að vera geðbilaður. Ég er að lesa ævisögu Jobs sem kom úr fyrir nokkrum vikum og er eftir Walter Isaakson. Frábær bók, afskaplega vel skrifuð og fróðleg þó ekki sé hún gallalaus.

Ég er nú ekki búinn með nema tæplega helminginn af um sex hundruð blaðsíðum. Líklega er það góð regla að tjá sig ekki um bækur fyrr en að lestri loknum. Mér er þó dálítið niðri fyrir enda upplýsir bókin margt um Apple fyrirtækið og Steve Jobs sem mér var að minnsta kosti hulið. Eiginlega er ég furðu lostinn yfir manninum.

Jobs óskaði eftir því að Isaakson skrifaði ævisögu sína. Hann fékk til þess frjálsar hendur, var ekki bundinn af neinni ritskoðun, skrifaði söguna eftir því sem honum sýndist réttast. Bókin byggist á viðtölum við fjölda fólks. Farið er í ofan í fjölmörg álitamál og sitt sýnist hverjum eins og gengur.

Eftir því sem liðið hefur á lesturinn hefur andúð mín á Steve Jobs farið vaxandi. Þetta á fyrst og fremst við árin fram að  brottrekstri hans úr Apple árið 1985. Lengra er ég nú ekki kominn.

Steve Jobs er afskaplega snjall, er alinn upp í þeirri trú að hann sé einstakur. Hann var ættleiddur, vissi snemma af því, en uppeldisforeldrar hans veittu honum mikla umhyggju og reyndust honum afskaplega vel. Alla tíð bjó hann að sýn föður síns, sem hafði auga fyrir því listræna, gera hlutina vel og helst fullkomna.

Ásamt vini sínum, hinum feimna og hlédræga Stephen Wozniak stofnaði hann Apple fyrirtækið. Strax náði það flugi og var það ekki síst að þakka Wozniak sem var snillingur í raftækjum. Allt gengur svo vel. Þeir framleiða Apple I, Apple II, Apple Lisa og svo loks kom Macintosh. Þetta er allt kunnugt en hitt vita ekki allir hvernig stjórnandi Steve Jobs var.

Hann skipti fólki í tvo hópa, A fólk og B fólk. Hinir fyrrnefndu voru í lagi en hinir áttu ekkert gott skilið og hann sagði það fullum fetum. Kallaði þá sem hann líkaði ekki við ónefnum, átti það til að segja hugmyndir annara vera lélegar („shit“). Gerði góðar hugmyndir að sínum og skipti engu máli þó starfsmenn hans hefðu átt þær upphaflega. Svo átti hann það til að flytja menn úr A flokki í B flokk og öfugt, allt eftir skaplyndi hans hverju sinni.

Svo var komið á árinu 1985 að vegna Steve Jobs var orðið óvinnandi í fyrirtækinu. Framkoma mannsins var slík að hún braut niður móral, hrakti gott fólk í burtu og salan datt niður úr öllu valdi.

Og þar er ég kominn í sögunni að 17. september 1985 sendir Steve Jobs kveðjubréf til stjórnar Apple og er í þann mund að stofna sitt eigi fyrirtæki. Þetta gerist eftir gríðarlegt uppgjör milli manna þar sem allir sem einn í stjórninni vísa honum á brott og taka afstöðu með John Scully, sem forstjóra.

Á þessum tíma var ég í markaðsnámi í Noregi. Þar, eins og í öllum háskólum í viðskiptafræðum, var lögð afskaplega mikil áhersla á uppbyggilega stjórnun. Stefan var og er raunar enn að flytja ábyrgð til starfsmanna í stað þess að skipa fyrir frá toppi og niður pýramítann. Raunar er gengið svo langt að þessi alþekkti pýramíti er flattur út, skipulagið gert lárétt og boðleiðir styttar.

Um þetta vissi Steve Jobs ekkert á þessum tíma heldur ógnaði fólk, kallaði það vitleysinga, niðurlægði það fyrir framan fjölda fólks, skipti sífellt um skoðun, hljóp úr einu í annað og olli ringulreið innan Apple. Líklegast á Steve Jobs stóran hluta í því hversu markaðshlutdeild Apple varð lítil og Microsoft tók yfir tölvumarkaðinn. Snilli mannsins fór fyrir lítið miðað við hegðun hans. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband