Leikreglur í samkeppni ekki virtar
25.10.2011 | 09:58
Í dag birta tólf fyrirtæki opnuauglýsingu í Morgunblaðinu. Þau krefjast réttlætis. Hin sláandi fyrirsögn á auglýsingunni er þessi: Við krefjumst þess að leikreglur á samkeppnismarkaði séu virtar!.
Almenningur og fyrirtæki í landinu er búinn að fá nóg af ástandinu. Fyrir tveimur dögum sendi hópur fólks bréf til þátttakenda í alþjóðlegri grobbráðstefnu ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann hefur áhyggjur af því að ráðstefnan verði einhliða. Ég birti þetta bréf hér á bloggsíðunni í gærkvöldi.
Áðurnefnd tólf fyrirtæki eru í beinni samkeppni við Pennann, Nýjapennann, framleiða eða flytja inn húsgögn. Öll eru þau í einkaeign og eigendur þess eiga ábyggilega ekki eins auðvelt með að auka hlutfé eins og Arion banki getur.
Í texta auglýsingarinnar segir:
- Skilanefnd Kaupþings tapaði um átta milljörðum króna á gjaldþroti gamla Pennans.
- Félag í eigu Arion banka hefur á tveimur árum tapað ríflega einum milljarði króna á rekstrinum.
- Arion banki jók hlutafé Pennans um 200 milljónir króna til viðbótar núna í september sl. - ofan á allt annað!
Penninn keppir við okkur á almennum samkeppnismarkaði, mikið tap er á rekstrinum en Arion banki heldur fyrirtækinu endalaust gangandi með fjármagni sem ekki sér fyrir endann á.
Við sættum okkur ekki við að leikreglur á samkeppnismarkaði séu þverbrotnar á þennan hátt!
Rekstur fyrirtækja er sífellt kapphlaup, endalaus samkeppni, og þannig á það að vera. Í kapphlaupi eru allri keppendur ræstir á sama tíma, ekki gengur að sumir fái forskot á aðra.
Arion banki lifir í þeim veruleika að hann getur þjófstartað þeim fyrirtækjum sem hann kemur höndum sínum yfir. Tilgangurinn er eflaust góður og gegn, að halda þeim í rekstri, sýna fram á að hann er lífvænlegur og selja síðan.
Vandinn er hins vegar sá að Penninn varð gjaldþrota. Hann hætti ekki rekstri, bankinn tók hann yfir, stofnaði nýtt hlutafélag, skildi eftir skuldirnar í því gamla og hélt áfram með Nýjapenna eins og ekkert hefði í skortist.
Samkeppnisaðilar Nýjapennans eiga ekki kost á þessu. Þeir sitja uppi með skuldir og takmarkað hlutafé, geta barist innbyrðis en eiga ekki sjéns í samkeppni við Nýjapenna. Þetta er raunveruleiki dagsins í dag. Fyirtækjum landsins svíður undan fjármálafyrirtækjunum rétt eins og almenningi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.