Langar málsgreinar eyðileggja greinar
23.10.2011 | 16:55
Langhundar eru leiðinlegir. Sérstaklega eru þeir vondir í fréttum og greinaskrifum. Verst af öllu eru langar og flóknar málsgreinar. Þær lifa vegna þess að sá sem skrifar les ekki yfir.
Fréttamenn eru margir góðir og vel skrifandi. Þetta tvennt fer þó ekki alltaf saman sem er eiginlega allt í lagi. Oftast er blaðamennska samvinna og leggur þá hver til það sem hann gerir best.
Fyrr í dag skrifaði ég pistil um langar og metnaðarlausar greinar sem ég fann í helgarblaði Fréttablaðsins. Þegar ég las fleiri greinar og fréttir á vefsíðunum uppgötvaði ég mér til skelfingar hversu margir eru hugsunarlausir í skrifum sínum og jafnvel hroðvirknislegir.
Málsgrein er ein eða fleiri setningar. Sá sem ætlar að veita upplýsingar eða hafa áhrif á aðra skrifar stuttar málsgreinar. Það er farsælast. Stundum hefur verið sagt að 30 til 35 orð séu hámark í málsgrein. Þetta átta margir sig ekki á eða gleyma í dagsins önn.
Ég valdi málsgreinar úr fréttum sem greinilega hefði þurft að laga. Það er einfaldlega ekki nóg að setja mann fyrir framan tölvu og segja honum að skrifa frétt. Hann þarf fyrst og fremst að læra að hugsa eins og almennur lesandi. Verkefni blaðamannsins er öðru þræði að miðla þeim upplýsingum sem hann hefur aflað og koma þeim í leshæft horf.
64 orð málsgrein
Ennfremur segir Kristján það vonbrigði að Samkeppniseftirlitið hafi ekki tekið tillit til boðaðra aðgerða í tengslum við kaupin sem áttu að draga úr mögulegum neikvæðum áhrifum á samkeppnismarkaði, til að mynda kvað viljayfirlýsing sem gefin var út í tengslum við kaupin á um að stefnt væri að því að sameiginlegur eignarhlutur Landsbankans og Arion í Verdis yrði kominn niður fyrir 50% innan þriggja ára.
Morgunblaðið, Skorður settar á svigrúm fjármálafyrirtækja til hagræðingar, 20. Október 2011.
53 orða málsgrein
Íslandsbanki segist vera vel í stakk búinn til að takast á við hugsanleg áhrif dóms Hæstaréttar sem hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, um að samningur banka um fjármögnunarleigu vegna vinnuvélar væri í raun lánssamningur en ekki leigusamningur Íslandsbanki telur að varúðarreikningur bankans standi undir þeirri niðurstöðu sem í dag var staðfest í Hæstarétti.
Morgunblaðið, viðskiptablað
46 orða málsgrein
Sjóðurinn Vildarbörn er fjármagnaður með eftirtöldum hætti: Með beinu fjárframlagi Icelandair, frjálsum framlögum félaga í Vildarklúbbi Icelandair sem geta gefið af Vildarpunktum sínum, með söfnun myntar um borð í flugvélum Icelandair, sölu á Vildarenglinum um borð í vélum Icelandair og söfnunarbaukum á Keflarvíkurflugvelli og söluskrifstofu Icelandair.
Pressan
Tveir þrír punktar í ofangreindum tilvitnunum og stundum smávægilegar orðalagsbreytingar hefðu verið til bóta.
Margt hefur breyst í fjölmiðlum frá því ég byrjaði sem blaðamaður á Vísi í gamla daga þar sem Elías Snæland Jónsson, fréttastjóri, reyndi að skóla mig til. Hann vildi að ég skrifaði stuttar málsgreinar, gerði mér grein fyrir að upphaf greinar skiptir öllu og fyrirsögnin væri mikilvægust. Þetta hefur staðist tímans tönn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.