Eldsumbrot á Reykjanesi og tómarúm Ómars Ragnarssonar

Ómar Ragnarsson segir frá því í pistli á bloggsíðu sinni að hann hafi á síðustu öld gert frétt um hugsanleg eldsumbrot á Reykjanesskaga. Stjórnvöld höfðu þá beðið Axel Einarsson, jarðfræðing, að segja fyrir hvernig þetta gæti gerst.

Axel setti upp módel sem sýndi upphaf syðst á skaganum og teygðist síðan allt upp á Hellisheiði.

Þegar þetta verk var komið vel á veg virtist mönnum ekkert lítast á blikuna varðandi þau áhrif sem umbrot á nyrðri hluta svæðisins gæti haft og var Axel beðinn um að sleppa því en klára syðri hlutann. 

Ómar tekur það fram að „aldrei var síðan gert neitt meira með nyrðri hlutann, líklega vegna þess að þar gætu afleiðingarnar orðið mun verri.“ Og Ómar heldur áfram um afleiðingarnar:

Þær gætu meðal annars falist í því að vegna misgengis rofnuðu bæði hitavatnsleiðslur, vatnsleiðslur, háspennulínur og vegir sem liggja til höfuðborgarsvæðisins og hraun rynnu úr Bláfjöllum niður yfir bæði vatnsöflunarsvæðin, Gvendarbrunna og Kaldárbotna auk hraunstrauma, sem færi niður Elliðaárdal út í sjó í Elliðavogi og niður í sjó í Hafnarfirði og á Álftanesi, en þar með myndu landsamgöngur frá Reykjavík rofna í báðar áttir og einungis Reykjavíkurflugvöllur og hafnirnar í Reykjavík og Kópavogi verða nothæf samgöngumannvirki.

Það var sem sagt haldin æfing vegna hins vægari hluta afleiðinga af eldvirknitímabili en það þaggað niður sem gerst gæti á höfuðborgarsvæðinu og skipti í raun og veru aðalmáli! 

Málið er afskaplega áhugavert að mínu mati. ég skil þó ekki hvers vegna Ómar segir ekki nánar frá þessu mati jarðfræðingsins. Þess í stað stoppar hann í miðjum klíðum og skilur lesandann eftir í algjöru tómarúmi. Hann ræði ekki frekar um jarðfræðinginn, getur þess ekki hvort sá sé enn starfandi eða hættur.

Svo er það þetta með „þöggunina“. Hér stoppar Ómar líka í miðjum klíðum og skilur lesandann eftir í sama fúla tómarúminu. Hann ætti þó að vita meira, til dæmis hverjir stóðu að þögguninni. Voru það sömu aðilar og pöntuðu ráðgjöf jarðfræðingsins?

Eða var þetta bara eitt af þessum málum féllu bara milli stafs og hurðar, vegna þess að enginn bar ábyrgð á því.

Draumspakur maður hefur tjáð mér í þessu sambandi að hann hafi undanfarna áratugi  dreymt sama drauminn af og til. Í honum er eldgos í sunnan eða austan við höfuðborgarsvæðið, í nánd við skíðasvæði, snertir það þó ekki. Draumurinn hefur ekki verið borinn undir jarðfræðinga Jarðvísindastofnunar HÍ sem þó eru afskaplega liprir og tjá sig auðveldlega um öll brigð af jarðfræðilegum tilvikum sem hugsast getur. Ekki heldur hefur draumurinn verið borinn undir borgaryfirvöld né ríkisstjórn. Að öllum líkindum yrði hann alls staðar þaggaður niður og hvergi þakkaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband