Ráherrar sem skrökva og fara rangt með
4.10.2011 | 09:59
Þingmenn sem tóku þátt í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra áttu ekki allir góða stund fyrir framan alþjóð. Sumum mæltist vel en öðrum illa. Einstaka fóru rangt með staðreyndir og einn ráðherra reyndi beinlínis að skrökva að þjóðinni með villandi málflutningi.
Jafnlélegasta ræðan sem flutt var í gær var Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. Ég velt fyrir mér meðan á flutningi hennar stóð hvað konan væri eiginlega að gera upp í pontu. Hún sagði ekki neitt sem var líklega jákvætt því á meðan var hún ekki að lofa upp í ermarnar á sér eins og hennar er ofast von og vísa.
Formaður Framsóknarflokksins
Af öllum ólöstuðum flutti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins bestu ræðuna. Hann var afar málefnalegur, pólítískt beittur og fór rétt með staðreyndir. Hann sagði meðal annars:
Skýrsla fjármálaráðuneytisins um endurreisn bankanna sýnir að tekin var meðvituð ákvörðun um að afskrifa minna en tilefni var til og það voru ekki heimilin heldur erlendir kröfuhafar sem nutu ávaxtanna. Það svigrúm sem hefði átt að nýta til að færa niður skuldir heimilanna er nú þess í stað fært sem milljarða hagnaður í bókum bankanna og fer að lokum út úr þeim sem arður til erlendra vogunarsjóða.
Í stað almennrar skuldaleiðréttingar kaus ríkisstjórnin að búa til flókin sértæk úrræði sem hafa einfaldlega ekki virkað. Aðeins lítill hluti þeirra sem sótt hafa aðstoð til umboðsmanns skuldara hefur fengið lausn sinna mála. 110% leiðin er strax orðin að að minnsta kosti 130% leið vegna verðbólgu og vaxtahækkana og fjármálafyrirtæki forðast að beita sértækri skuldaaðlögun því að hún er of flókin í framkvæmd.
Fólkið sem stendur hér fyrir utan Alþingishúsið þarf almenna skuldaleiðréttingu, ekki sértækar bankaflækjur og tilsjónarmenn. Það verður að gefa fólki tækifæri á að vinna sig út úr skuldavandanum. Sé það ekki gert tapa allir.
Það verður líka að snúa við þeirri neikvæðu keðjuverkun sem heldur atvinnulífi á Íslandi í frosti.
Forsætisráðherra segist nú enn einu sinni ætla að búa til sjöþúsund störf. Í kosningaauglýsingum vorið 2009 sagðist Samfylkingin þegar vera búin að leggja grunn að 6000 nýjum störfum á næstu mánuðum. Hvenær koma næstu mánuðir á eftir apríl 2009? Enn hefur ekkert til þessara starfa spurst annað en endurteknar yfirlýsingar forsætisráðherra. Stundum eru störfin 2000, stundum 4000 en oftast 7000 og nú er bætt um betur því lofað er og öðru eins til viðbótar. 14.000 störf, væntanlega á næstu mánuðum, hvenær sem þeir koma.
En í stað þess að störfum fjölgi heldur fólk áfram að yfirgefa landið í leit að vinnu.
Iðnaðarráðherra fór rangt með
Katrín Júlíusdóttir flutti litlausa og ómerkilega ræðu sem gæti hafa verið samin af manni sem er gjörsamlega út á þekju um stöðu mála í þjóðfélaginu. Hún staðhæfði að atvinnuleysi sé meðal þess minnsta sem þekkist á vesturlöndum. Auðvitað er þetta rétt hjá henni en hún er víðsfjarri sannleikanum.
Hún lýgur engu með tölum. Nærri 12.000 manns eru atvinnulausir á Íslandi en á síðustu þremur árum hafa jafnmargir flutt af landi brott, flestir þeirra hafa flúið atvinnuleysið. Þetta eru líklega meira en þrjú þúsund fjölskyldur eða um 6.000 fyrirvinnur.
Svo ómerkilegur er iðnaðarráðherra að hún fullyrðir að vegna verka ríkisstjórnarinnar sé atvinnuleysið í landinu aðeins 7%.
Ríkisstjórnin hefur ekki náð að gera neitt til að draga úr atvinnuleysi. Hið eina sem forsætisráðherra segir er að ýmislegt sé í pípunum ... Og svo er okkur sem gagnrýnum ríkisstjórnina legið á hálsi fyrir að vera neikvæðir. Hvernig má annað vera þegar ríkisstjórnin er svo ómerkileg að ljúga til um árangur sinn.
Úti á þekju
Ég heyrði ekki betur en að margir ræðumenn væru úti á þekju. Meðal þeirra var sá undarlegi maður Guðmundur Steingrímsson. Hann skilur ekki hvers vegna fólk er úti á Austurvelli og lemur búsáhöld og í tunnur. Líklega hefur hann aldrei verið blankur, aldrei misst heimili sitt á opinberu uppboði, aldrei þurft að skrá sig atvinnulausan.
Hann hélt langa tölu og giskaði lengi á hvers vegna fólk væri að berja á tunnur. Aldrei komst hann þó að kjarna málsins. Telur líklega að efnahagur heimila sé með miklum ágætum og fólk væri á Austurvelli til að leggja áherslu á að fá kökur með kaffinu.
Annar þekjuraftur var Steingrímur J. Sigfússon, sem heldur því fram að hann hafi bjargað ríkisrekstrinum frá gjaldþroti ...
Maðurinn hefur hins vegar ekkert gert í þeim málum. Verkefni hans hafa hins vegar kostað ríkissjóð gríðarlega fjármuni sem farið hafa í ríkisvæðingu Sparisjóðs Keflavíkur, Byr og Sjóvá. Hvað varðar rekstur ríkisins, þá hafa embættismenn séð um bókhaldið og gerð fjárlaga að langmestu leyti.
Steingrímur er þó hönnuður skattastefnu ríkisstjórnarinnar sem alla er lifandi að drepa. Sú er meðal annars ástæðan fyrir tunnubarsmíðum fólks á Austurvelli en Steingrímur skilur það ekki og hvetur til samstöðu og bjartsýni um stefnu ríkisstjórnarinnar. Enginn árangur er af verkum fjármálaráðherra vegna þess að hann ræður ekki við starf sitt, mótar ekki aðra stjórnmálastefnu en þá sem eyðileggur uppbyggingu atvinnulífsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.