Konur gefa ekki séns ...

Í tíu ár, held ég, hefur Óli Þór Hilmarsson, vinur minn, hjólað í vinnuna sína. Hann býr í miðbænum og starfaði í húsi Iðntæknistofnunar austan við Keldnaholt í Reykjavík. Veður skipti ekki mál, hann hjólaði dag hvern. Gat farið í sturtu eftir komuna í vinnu en það segir hann grundvallaratriði.

Smám saman eignaðist hann afar gott, létt og sterkt hjól eftir að hafa slitið önnur út. Á veturna voru sett nagladekk undir hjólið. Þau skipti sem hann gat ekki hjólað vegna veðurs eða ófærðar eru teljandi á fingrum annarrar handar. Svo fluttist vinnustaðurinn hans niður í miðbæ og allt fúttið fór úr hjólreiðum á morgnanna og kvöldin.

Þetta nefni ég hér því ég las skemmtilega grein í Morgunblaðinu í morgun eftir Árna Matthíasson, blaðamann. Hann segist hafa tekið upp á því fyrir stuttu að hjóla í vinnuna sér til skemmtunar, frá Hafnarfirði og upp að Rauðarárvatni þar sem Morgunblaðið er til húsa.

Árni nefnir margt af því sem Óli vinur minn hefur fullyrt í mín eyru. Báðir halda því fram að hjólreiðar séu skemmtilegar. Þeir segja að vegalengdir séu afstæðar, því meiri vilji því minna máli skiptir vegalengdin.

Ég heyrði einhvern tímann á fjallaferðum mínum að veður væri aldrei slæmt. Það væri einfaldlega hugarástand. Þetta rímar ágætlega við það sem Árni blaðamaður segir. Hann lærði það í gamla dagá sjónum í gamla daga að best sé að vinna sér til hita, fara kappklæddur af stað „og svo sér innbyggða miðstöðin um restina.“. Og Árni segir:

Eins og ég nefndi er eiginlega aldrei vont veður á Íslandi og brekkurnar eru eitt það besta við hjólamennskuna, þær eru persónuleg áskorun sem gaman er að sigrast á og síðan gefa þær innspýtingu af endorfíni sem eykur enn ánægjuna.

Og á síðustu og bestu/verstu kvenréttindatímum sýnir Árni ákveðið hugrekki þegar hann segir, í gamni eða alvöru:

Konur gefa ekki séns. Frá því ég fór að hjóla í vinnuna hef ég farið 700 sinnum yfir gatnamót og þar af 385 sinnum yfir gatnamót sem eru ekki ljósastýrð. Ekki er alltaf bíll á leið um viðkomandi gatnamót, en mér telst svo til að það hafi þó gerst ríflega 200 sinnum. Af þeim skiptum hafa konur stoppað tvisvar, en karlar 146 sinnum.

Svo er Árni nokkuð pólitískt þenkjandi á leið sinni í og úr vinnu enda þótt ég haldi að hann sé í eðli sínu óflokkspólitískur: 

Garðabær rokkar. Á leið minni hjóla ég í gegnum fjögur sveitarfélög. Af þeim er langbest að hjóla í Garðabæ og mjög gott að hjóla í Kópavogi og Reykjavík. Í Hafnarfirði, þar sem félagshyggjuflokkur (hrunflokkurinn) hefur stjórnað í 26 ár af síðustu 30 er ömurlegt að hjóla og hættulegt. 

Og í lokin er hægt að taka undir með Árna þegar hann fullyrðir: „Það er trúa mín að ef góðar og öruggar hjólabrautir væru í boði yrðu hjólreiðamenn legíó á Íslandi.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband