Innantóm slagorð ríkisstjórnarinnar

Skelegg grein Ragnhildar Kolka, lífeindafræðings, vakti athygli mína í Morgunblaðinu í morgun, föstudag. Henni er mikið niðri fyrir og rekur stærstu vitleysur núverandi ríkisstjórnar, ESB aðlögunarviðræðurnar, Icesave samninganna og fiskveiðilagafrumvarpið.

Greinin er harðorð en góð og með vel völdum orðum afhjúpar hún aumingjaskap ríkisstjórnarinnar sem klúðrar hverju málinu á fætur öðru. 

Ragnhildur ræðir málið sem klýfur stjórnmálaflokka og af skemmtilegri orðgnótt og ritsnilld segir hún: 

Hér er auðvitað átt við hin öfgafullu trúarbrögð Samfylkingarinnar og tilbeiðslu hennar á hinu nýsovéska skrifræði Evrópusambandsins. Trú þessara sjálfumglöðu helioprocti, sem ólmir vilja afhenda auðlindir Íslands og fullveldi til Sovét-Brussel, er órjúfanlega tengd kjötkötlunum sem ekki munu tæmast meðan kreista má blóð úr varnarlausum skattborgurum aðildarlandanna. »Réttlát« skipting auðsins var þetta einu sinni kallað sem keyrði þá annað stórveldi í þrot. Nú er Grikkland í öndunarvél en Ítalía, Portúgal og Spánn draga sæng yfir höfuð. 

Og af sömu ákefð ræðir Ragnhildur um Icesave samninganna:

En varla var búið að troða kosningaloforðum Vinstri grænna ofan í kok á þeim þegar næsta rimma tók við; átökin um hinn »glæsilega« samning Svavarsnefndarinnar. Icesave I endaði sem sigur stjórnarandstöðunnar. Icesave II og III voru sigur þjóðarinnar sem aldrei hefði unnist ef stjórnarandstaðan hefði ekki staðið í stykkinu. Andæft og þæft þar til þjóðin, forsetinn og að endingu lýðræðið fór með sigur af hólmi.

Loks nefnir hún frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðilögum:

Og var ekki sagt að virðing Alþingis hefði aldrei lotið lægra en þegar stjórnarandstaðan barðist gegn frumvarpi um fiskveiðistjórnun? Þetta frumvarp sem lagt hefði undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar í rúst átti að keyra í gegn án umræðu og án athugasemda umsagnaraðila. Þegar þær svo komu staðfestu þær allar álit stjórnarandstöðunnar. Ekki einu sinni ASÍ sem að jafnaði situr þögult í vasa forsætisráðherrans gat samþykkt frumvarpið. Og fyrir að hindra þetta hryðjuverk uppskar stjórnarandstaðan öll helstu fúkyrði íslenskrar tungu frá spunavélinni. 

Full ástæða er til að taka undir með Ragnhildi er hún hvetur almenning til dáða:

Það er skylda fólks í lýðræðisríkjum að fylgjast með og láta ekki draga sig eins og dilka til slátrunar þegar óprúttnir valdafíklar reyna að breiða yfir vandræðagang sinn. Að leggja eyrun við innantómum slagorðum eins og »Það er engin önnur stjórn í sjónmáli« er uppgjöf af aumustu gerð, því þunginn í aðförinni að stjórnarandstöðunni sýnir hve vel hún stendur sig. Hins vegar eru það spunameistararnir sem skjóta sjálfa sig í fótinn í hvert sinn sem þeir grafa undan virðingu og trausti til Alþingis. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband