Er Norræna húsið við Tjörnina?

Af hverju í ósköpunum þarf Mogginn minn alltaf að fara rangt með í landafræði? Ég hrökk dálítið við og fór að pæla í því hvar þetta Blautalón sé. Man ekki eftir því á Fjallabaksvegi nyrðra. Munum að ekkert er til sem heitir FjallabaksLEIÐ. Þetta er vegur sem heitir Fjallabaksvegur nyrðri. Höfum það líka hugfast.

Í stuttu máli sagt er Blautalón ekki til á Fjallabakvegi nyrðri. Skiptir engu hversu mikill viljinn er, það er barasta ekki til þar. Blautulón (takið eftir muninum á örnefnunum) eru hins vegar til sunnan við fjall sem nefnist Grettir og erum um tíu kílómetra norðan við Fjallabaksveg nyrðri, í áttina að Langasjó. 

Þessi fína mynd sem Ragnar Axelsson tók er hins vegar frá nágrenni Eldgjár. Nánar tiltekið norðan við hana. Hafi ég rangt fyrir mér þá munu einhverjir velviljaði sem leiðrétta mig.

Svo er ekki úr vegi, að minnsta kosti ekki 10 km, að beina því til tveggja ágætra ritstjóra Morgunblaðsins að hvetja blaðamennina til að leggja áherslu á landafræðina. Þetta með Blautulón er eins og að segja að Norræna húsið sé við Tjörnina í Reykjavík. Hvort tveggja er fjarri lagi.

Miklu skiptir að fréttir séu á lýtalausri íslensku. Sama á við landafræðina. Hið síðarnefnda er ég tilbúinn til aðstoða Moggann með.


mbl.is Rúta valt ofan í Blautulón
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki ætla ég að tjá mig um Blautulón. Tel mig ekki svo lærða í örnefnum á hálendinu.

En Fjallbaksleið nyðri var talað á heimili foreldra og skyldfólks míns og er ég vön því nafni frá æsku. Foreldrar mínir eru ættaðir úr Landsveit og Skaftafellssýslum.

Og föðurbróður ók um árabil rútum í Landsveitina. Og svo á sumrin í Þórsmörkina, og þegar Fjallabaksleið var orðin fær þá hana líka.

Kannski voru þau alin upp við rangt nafn á þessum erfiða fjallavegi, en ætli það séu þá ekki komin hefð á þetta, eins og sagt er um þágufallssýkina sem mitt heimili hefur alveg verið laust við.

En ég verð samt að bíta í það súra epli að íslenskukennarar eru búnir að gefast upp á að kenna nemendum sínum að greina rangt frá réttu. Og er þetta talið rétt íslenska núna..

Mér finnst það alvarlegra mál en hvort Fjallabaksleið er notað eða Fjallabaksvegur

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 6.8.2011 kl. 20:40

2 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Fjallabaksleið nyrðri er alveg gilt og fjallabak nyrðra líka.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.8.2011 kl. 21:02

3 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Bestu þakki fyrir innlitið, Sigrún og Högn. Vil endilega benda á eldri pistil sem ég skrifaði og má hann finna á þessari slóð: http://sigsig.blog.is/blog/sigsig/entry/1180013/.

Aðalatriðið er að við skiljum hvert annað. Það gerum við með því að tala rétta íslensku. Svo er ekki verra að við getum staðsett okkur á landinu. Fari annað af þessu eða hvort tveggja í rugl þá er lendum við fyrr eða síðar í tómri vitleysu.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 6.8.2011 kl. 21:31

4 identicon

Við hverju er að búast við blaði sem rak ekki alls fyrir löngu fjölda blaðamanna sem höfðu víðtæka reynslu? 

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 6.8.2011 kl. 21:54

5 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Takk fyrir það Sigurður, en þú veist jafnvel og ég að við sem höfum í gegnum árin farið þarna um segjum fjallabak nyrðra nú eða syðra og við segjum líka fjallabaksleiðirnar nyrðri nú eða syðri, en ég veit hvað þú ert að fara og kannski er aðalmálið í svona tilfellum að einmitt fólk sem er eins frótt og þú um landið og örnefni ýmis leiðréttir okkur hin þó við látum ekki segjast í öllu, en mér finnst í þessari frétt annað sem ég beið eftir að sjá leiðrétt og átti eftir að athuga betur ég man ekki eftir Blöndulóni þarna innfrá og hafi hluti fólksins farið að Blöndulóni þá hefur það farið hratt yfir nú eða að það er Blöndulón þarna.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 6.8.2011 kl. 23:04

6 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Síðan ég skrifaði pistilinn er búið að auka við fréttina. Flýtirinn er svo mikill að skyldilega er Fjallabaksvegur og Blöndulón komin á sömu slóðir. Ekki furða þótt þú sért dálítið áttavilltur, Högni. Auðvitað á blaðamaðurinn við Blautulón.

Best væri að endurskrifað fréttina. Hún er ekki góð.

Málið snýst ekki um hvort blaðamenn hafi verið reknir, minn kæri Bjarnason. Blaðamaður leitast við að skrifa rétt, leitar upplýsinga og heimilda og breytir auðmjúklega frétt reynist eitthvað ekki alveg eins og réttast er.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 6.8.2011 kl. 23:14

7 Smámynd: Ívar Pálsson

Sæll Sigurður, góðar ábendingar. Líka mætti nefna að við mynd RAX ætti að standa: „Mynd úr safni. Myndin tengist fréttinni ekki á beinan hátt“. Fólk heldur ella að rútan sé frá fyrirtækinu sem rútan á myndinni bendir til. Síðan er erfitt að losna við þann draug.

Ívar Pálsson, 7.8.2011 kl. 09:27

8 identicon

Málið er að alvöru fréttamennska sem einkennist af metnaði er ekki lengur stundaður hjá Morgunblaðinu. 

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 7.8.2011 kl. 21:17

9 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Myndir úr safni geta oft verið ágætar til uppfyllingar, Ívar, en auðvitað verður að geta þess.

Jú, minn kæri Bjarnason. Alvöru fréttamennska er stunduð á Morgunblaðinu. Nú get ég ekkk verið sammála þér. Jafnvel mjög góð fréttamennska.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.8.2011 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband