Vinstri grænir klofnir í herðar niður ...
2.6.2011 | 09:16
Fyrir síðustu Alþingiskosningar heyrðist oft sagt að Vinstri grænir væru heiðarlegir og málefnalegir. Þeir stæðu fastir á málefnum og þrátt fyrir að tíminn liði breyttu þeir ekki um skoðun. Þetta átti við um utanríkismál, umhverfismál, fjármál og margt fleira. Þetta var meðal annars ástæðan fyrir góðri útkomu þeirra í kosningunum.
Nú heyrast þessar raddir ekki lengur. Vinstri grænir eru klofnir í herðar niður. Ásmundur Daði kominn í Framsóknarflokkinn og Atli og Lilja hafa sagt sig út þingflokki VG. Meira að segja innan ríkisstjórnarliðs VG er óeining. Þar er Jón Bjarnason, sjávarútvegsö og landbúnaðarráðherra, einn í ólgusjó Samfylkingarinnar, og líkur benda til að hann eigi eins og Ásmundur Daði miklu meiri samleið með Framsóknarflokknum.
Þeir sem hrökklast hafa úr VG bera þingflokkinn ekki góða söguna. Þar hefur síst af öllu ríkt heiðarleiki og málefnaleg vinna. Þar hefur allt verið svikið í utanríkismálum, umhverfismálum, fjármálum og margt fleira.
Svo stendur fjármálaráðherra einn upp og með veikum rómi reynir hann að sannfæra landsmenn um að eignabruninn vegna hrunsins hafi ekki bitnað neitt sérstaklega á almenningi. Þeir trúa honum sem enn standa keikir eftir hrunið, sérstaklega erlendir kröfuhafar bankanna, þeir soga til sín hagvöxtinn þessi misserin.
Það er segin saga að erfitt er að losa sig úr lygavef. Þess vegna megum við búast við því að VG reyni að leiða umræðuna á einhverjar allt aðrar götur, villigötur. Þeir hafa lagt fram frumvarp um úrsögn úr Nató, þeir eiga eftir að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um kvótakerfið, þeir eiga eftir að krefjast þess að tóbak verði selt í apótekum, þeir eiga eftir að krefjast friðlýsingar landssvæða, þeir eiga ótalsinnum eftir að benda á frjálshyggju og kapítalisma sem ástæðuna fyrir hruninu og þeir eiga eftir að krefjast rannsóknar á þátttöku Íslands í stríðinu í Íran (... nei, auðvitað gera þeir það ekki, það beinir augum almennings á þátt VG í stríðinu í Líbíu).
Aldrei nokkurn tímann hefur einn stjórnmálaflokkur gert jafnmikið á sig á jafn stuttum tíma eins og Vinstri grænir. Þeir eru ekki stjórntækir, þeir eru í eðli sínu stjórnarandstöðuflokkur.
„Má segja að ég sé kominn heim“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.