Frekar vafasöm ferðasaga ...
23.3.2011 | 09:44
Margt vantar í þesssa frétt til að glögg mynd fáist af ferðalagi mannsins. Hvar hóf hann ferðina og hvar endaði hann hana? Þeir vita sem þekkja til, gönguskíðamenn, jeppamenn og vélsleðamenn, að það er fífldirfska að keyra áfram í blindu færi.
Þeir sem hafa fyrir sér trausta gps leið geta svo sem lullað áfram á vélsleða eða í jeppa en maður hangandi í segli er berskjaldaður fyrir óhöppum. Ég trúi því einfaldlega ekki að maðurinn hafi siglt áfram á skíðum í eins metra skyggni á 50 km hraða. Það er bara eins og að loka augunum og renna sér niður fjallshlíð, taka sjensinn á að lenda ekki á grjóti eða ofan í gili eða gljúfri.
Líklegast hefur hann hætt ferðinni einhvers staðar fyrir norðan Nýjadal þegar skafrenningurinn varð honum ofviða.
Hins vegar kemur það heim og saman við mína reynslu að maðurinn skuli hafa orðið svona afskaplega þreyttur í fótunum. Það reynir gríðarlega á fætur að standa og stýra sér á 50 km hraða og enn verra er þegar ferðast er um á skara.
Svona apparat eins og Frakkinn brúkaði hafa lengi verið í notkun. Þetta eru einfaldlega segl. Fyrstu útgáfurnar voru eins og fallhlífar og þegar Tjaldborg fór að framleiða slík tæki voru þau nefnd orðskrípinu fjallhífar ekki vegna þess að þau hífðu upp fjöll heldur áttu þau að hífa notandann upp fjallshlíðar.
Við félagarnir ákváðum að einfaldlega orðið segl og til hátíðarbrigða orðið vindgreip enda tækið miðað við að grípa vindinn og ferðast með honum. Þegar í harðbakkan sló var nú tækið oftast kallað golugreip, vegna þess að þegar það var dregið upp skall oftast á blankalogn og skíðamenn stóðu eins og illa gerðir hlutir og biðu vindsins.
Við notuðum vindgreipina oft. Sigldum einhverja metra á Vatnajökli, upp á Eyjafjallajökul, fórum milli Landmannalauga og Þórsmerkur að hluta með aðstoð vindgreipar og svo framvegis. Í mestri hættu lentum við hins vegar í upphafi er við vorum að prófa vindgreiparnar á ísilögu Rauðavatni. Þá hvessi svo hressilega að einn félagi okkar þaut yfir vatnið á örskotsstundu og var nærri því orðinn fyrir bíl á Suðurlandsvegi.
Við annað tækifæri komst góður vinur minn á gott skrið á vindgreip en lenti á girðingu, gat ekki losað sig vegna þess að hann þurfti að bakka en hvass vindurinn togaði hann með afli í öfuga átt. Þar lá hann fastur með kvölum uns hlátri nærstaddra linnti og þeir losuðu hann úr klípunni.
Meðfylgjandi mynd er tekin á Vatnajökli fyrir um tuttugu árum og þar er á ferð skíðamaður með vindgreip en athygli vakir afturhlaðinn bakpoki.
Hræddist á miðri leið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:01 | Facebook
Athugasemdir
Sæll svona ofurhugar eru ávísun á vandræði og ekkert annað!
Sigurður Haraldsson, 23.3.2011 kl. 11:45
Nei, nei. Held að maðurinn sé ekki ofurhugi og hann hætti. Spurning er bara sú hvað fór hann langt. Skreytni virðist einkenna lýsinguna, þversagnir virðast margar en nánari upplýsingar vantar. Við höfum fengið margar svona heimsóknir manna sem þykjast hafa sett met og farið hitt og þetta sem enginn hefur gert áður. Man eftir einum sem gerði heimildarmynd um kajakferð sína niður Jökulsá á Fjöllum. Sú mynd var tómt skrök.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 23.3.2011 kl. 11:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.