Skip standast ekki flutningabílum snúning

Hvers vegna hafa strandsiglingar lagst að mestu af hér á landi? Með betri vegum er fljótlegra að koma vörum á þann leiðarenda sem hver og einn kýs. Hraði skiptir máli. Ekki aðeins vegna verslunarvöru sem þarf að komast fersk sem allra fyrst í sína hillu í matvörubúðinni heldur einnig þarf fiskur að komast til vinnslu nokkrum klukkustundum eftir að aflanum var landað. Og þetta eru bara örfá dæmi.

Þeir eru til sem vilja greiða niður strandsiglingar til að losna við stóru bílanna af þjóðvegunum. Þeim verður ekki að ósk sinni. Ástæðan er hraðinn. Skip keppir ekki við bíl. Önnur ástæða er að þjóðin á ekki fjármagn til niðurgreiðslu á flutningum og það væri heimskuleg ráðstöfun á peningum.

Þeir eru til sem vilja þvinga stóru bílana af þjóðvegunum vegna þess að þeir slíta þeim. Sparnaðurinn verður t.d. á kostnað landsbyggðarinnar og fiskvinnslunnar. Er ekki skynsamlegra að gera vegina svo vel að þeir þoli stóru bílanna. Út um alla Evrópu aka stóri flutningabílar með þungavöru, raunar allt milli himins og jarðar. Eru vegirnir betri t.d. í Evrópu en hér á landi? Sé svo, hvernig skyldi á því standa?

Það er dálítið óþægilegt þegar íbúar í 101 Reykjavík halda að landsbyggðin gangi aðeins fyrir sjálfri sér. Þannig mætti það vera en slíkur er ekki raunveruleikinn. Landsbyggðin þarf að sækja svo ákaflega margt til Reykjavíkur. Hraði og tími skipta miklu meira máli nú en fyrir t.d. 20 árum eða fyrr. Sættum okkur við það og gerum betri vegi sem standa undir þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra. 


mbl.is Helmingur viðhaldskostnaðar vegna vöruflutningabifreiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Getur ekki hugsast að það sé einhver villa í þessum útreikningi, það er t.d. aldrei tekinn með í reikninginn óhóflegt slit á þjóðvegum sem bæði kosta óhemju fé í viðhaldi og ekki síður í slysahættu.  Það eru allar beygjur orðnar niður þjappaðar vegna þungra vagna sem flutningabílarnir eru með í eftirdragi sem gerir þjóðvegi landsins stórhættulega í hálku, og í raun einkennilegt að ekki hafi hlotist fleiri slys þar af. Einhverra hluta vegna virðast vegir hér á landi ekki þola þungaflutninga eins vel og vegir í öðrum löndum, ef til vill er þar um að kenna lélegri undirburði, hlykkjóttari vegum, þannig að hjól vagnanna lenda út í kantinum þar sem vegurinn er veikastur fyrir eða því að við vöndum ekki undirbyggingu veganna eins vel og gert er í öðrum löndum.Það þarf heldur enginn að segja mér það að ekki sé hægt að hagræða flutningum á vörum um landið, þannig að stærsti hluti flutninganna sé á sjó, það sem meira liggur á að flytja verði t.d. sent með flugi eða smærri bílum.Eins er alveg fáránlegt að nota það sem rök að flytja þurfi fisk frá Þórshöfn fyrst suður á Keflavíkurflugvöll til að fljúga svo með hann til Evrópu, það er held ég styttra að fljúga með hann frá alþjóðaflugvellinum á Egilsstöðum.Ég held að það megi mikið hagræða í flutningi um landið og væri alveg til í að hætta að borga með bensínskattinum sem lagður er á mig niður óhóflegt slit á vegum landsins, sagt er að einn fullhlaðin flutningabíll slíti vegi til jafns á við 27.000 smábíla.  Hver skyldi greiða niður verðið á vöru í Bónus á Akureyri Egilsstöðum eða hvar sem er á landinu aðrir en viðskiptavinir Bónus í 101 Reykjavík svo og íbúar höfuðborgarsvæðisins sem þurfa að borga allt að 40 til 50 þúsund á mánuði fyrir það eitt að aka til vinnu og heim aftur og þar af rennur sennilega helmingur til vegagerðar(skattlagning ríkisins)Það er komið alveg nóg af þessu sjónarmiði að íbúar höfuðborgarsvæðisins séu einhverskonar þurfalingar á framfæri landsbyggðar.

Kjartan Sigurgeirsson, 23.2.2011 kl. 14:33

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Sæll, Kjartan. Bestu þakkir fyrir innlitið. Þú hleypur hratt yfir, tekur undir sumt af því sem ég segi og annað ekki og bætir svo við.

Niðurstaðan er að auðvitað má hagræða. Sá tekur ákvörðun um það sem sendir vöru, hvernig hann vill senda hana. Hann verður aldrei þvingaður til einhvers sem hann ekki vill.

Þessu með flutningabílanna sem slíta þjóðvegunum varstu nú búinn að svara. Vegirnir virðast bara miklu lélegri hér á landi en t.d. í Evrópu bæði hvað varaðar undirlag, breidd og annað.

Verslunum er í lófa lagið að haga verðlagningu sinni þannig að fólk á landsbyggðinni greiði hærra verð.

Við erum hins vegar eitt stórt samfélag og sú skoðun ráðandi að eitt verð skuli vera að mestu ráðandi í smálsölu, óháð staðsetningu.

Kannastu við brandarann um það þegar líkamshlutarnir fóru að rífast um hver þeirra væri mikilvægastur. Held að mjög erfitt sé að ákveða hvaða landshluti eða staður skipti mestu fyrir þjóðfélagið. Tilgangslaus deila enda erum við eitt samfélag eins og ég nefndi áðan og þurfum að haga okkur á þannig að sem allir njóti hagsældar.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 23.2.2011 kl. 14:51

3 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Hafi ég farið of geyst Sigurður, bið ég forláts á því, það hefur bara verið mér svo mikill þyrnir í augum hvernig vegirnir eru eyðilagðir af flutningabílum og það aldrei tekið inn í dæmið þegar vegið er hvort sé dýrara land- eða sjóflutningur.   Ég hef enga trú á að lífið á landsbyggðinni yrði erfiðara þó vörurnar þangað yrðu fluttar á sjó.  Það mætti til dæmis líta til þess að stór hluti þeirrar vöru sem keypt er til landsins, kemur frá Evrópu, það held ég að yrði ekki mikill krókur á siglingaleiðinni að fara norður fyrir land í bakaleiðinni og skila vörum á t.d. Ísafirði, Siglufirði og svo einhverjum austfjarðanna Seyðisfirði, Eskifirði eða Reyðarfirði, þannig mætti losa vegina undan miklum þungaflutningum og dreyfa með minni bílum innan landsfjórðunganna.  En eins og ég sagði áður með fiskinn, finnst mér eitthvað bogið við að flytja fisk af norðaustur horninu til að fljúga með hann í austur.  Sennilega kæmi það líka landsbyggðinni betur ef vöruflutningaflug væri meira á flugvelli utan suðvestur hornsins þ.e. Akureyri, Egilsstaðir og Höfn.

Það er engan vegin svo að ég hafi á móti því að örlítill kostnaður leggist á vöru vegna deyfingar um landið, ég styð bara ekki að við á höfuðborgarsvæði þurfum að greiða niður flutninginn með vegasköttum þegar ég er sannfærður um að deyfing matvöru yrði síst dýrari ef ekki væri dulin niðurgreiðsla á flutningnum.

Kjartan Sigurgeirsson, 23.2.2011 kl. 15:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband