Engin auðmýkt hjá lötum Landsbanka
8.2.2011 | 15:10
Ekkert merkilegt virðist vera í fréttum ef marka má mbl.is. Árni Páll Árnason segist ekki vera að hætta sem ráðherra og einhver sem nefnd er slúðurprinsessa ku hafa neitað að hrista rassinn fræga. Hvort tveggja alveg hræðilega lítt hugaverðar fréttir.
Þá lítur maður á auglýsingarnar og sér á sömu síðu og fréttin er um meinta afsögn Árna og um auglýsingu frá Landsbankanum sem ætlar að halda fundi víða um landið:
Við hvetjum ykkur til að koma og eiga opinská samskipti við okkur. Við ætlum að vera Landsbankinn þinn.
Hafið þið kynnst öðru eins; ...eiga opin samskipti við okkur. Hver skrifar svona bull eða hversu hár er fílabeinsturninn?
Er ekki kominn tími til að Landsbankinn sýni viðskiptavinum sínum dálitla auðmýkt? Væri ekki skynsamlegra að segjast ætla að ræða á hreinskilnislega við viðskiptavini eða almenning. Út frá markaðslegu sjónarhorni er textinn út í hött og raunar ætti að reka höfundinn, jafnvel þó hann væri sjálfur aðalbankastjóri Landsbankans.
Engar sögur fara af því hvort landsbankastjórarnir ætli að vera jafn opinskáir og þeir bjóða almenningi. Og hvaðan í ósköpunum finna menn svona ómerkilega, bjúrokratíska frasa eins og þennan.
Svo má geta þess að ekki stendur öllum viðskiptavinum Landsbankans til boða að ...eiga opin samskipti við elítuna. Á öllu Norðurlandi er t.d. aðeins einn fundur og hann var á Akureyri.
Á meðfylgjandi mynd eru öll útibú Landsbankans merkt en hringur er dreginn um þá staði þar sem fundir verða haldnir. Sem sagt enginn á Skagströnd, Sauðárkróki og Húsavík. Einn fundur á Austurlandi, einn á Vestfjörðum og enginn á Snæfellsnesi.
Þetta er ósköp einfalt. Landsbankinn er latur og segir; þið megið koma til mín og hlusta á okkur. Er ekki kominn tími til að skipta um viðskiptabanka.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Blessaður vertu það er ekki nokkrum banka treystandi!! Mikið var maður fyrir miklum vonbrigðum, að þetta skyldi ekki vera rétt með Árna Pál!!
Eyjólfur G Svavarsson, 9.2.2011 kl. 00:24
Ég biðst velvirðingar á því ef þér finnst ég vera dónalegur en þessi færsla þín er án efa sú glataðasta sem ég hef lesið lengi.
Ekki nóg með að þú byrjir hana á því að gagnrýna tvær vel lesnar fréttir á mbl.is (þú fílar þetta ekki, fínt en það eru fleiri þúsundir annarra sem finnst gaman að lesa þetta) heldur ferðu síðan næst að gagnrýna eitt verðugasta framtak sem viðskiptabanki hérlendis hefur farið út í síðan hrunið dundi yfir og útaf hverju? Útaf orðalagi??!!?
Það er lofsvert að allaveganna einn banki skuli bjóða upp á opinská (ekki opin, það er grundvallarmunur þarna á) samskipti milli sín og Íslendinga á opnum fundi.
Þér væri nær að mæta á fundinn og láta í þér heyra, í staðinn fyrir að belgmóðast á moggablogginu
Magnús V. Skúlason, 9.2.2011 kl. 09:32
Maður eygði vonarglætu, Eyjólfur.
Þú ert alls ekki dónalegur, Magnús. Takk fyrir athugasemdina. Mikið lesin frétt er segir ekkert til um hugarástand lesandans enda veit hann fátt fyrr en eftir lesturinn. Stíllinn er sá að benda á tvær fréttir sem mér finnst ómerkilegar og svo auglýsingu sem stendur fræðilega alls ekki heldur undir kröfum markaðsmannsins. Hvernig á að dæma texta ef ekki út af orðalagi?
„Lofsvert“ segirðu, en ekki njóta allir þess að geta mætt á fundina. Til dæmis hefði ég þurft að leggja á mig að minnsta kosti 300 km ferðalag, fram og til baka,, til að mæta á fund og er þó útibú Landsbankans aðeins 0,5 km frá heimili mínu. Þess í stað læt ég í mér heyra á þeim vettvangi sem ég tel hagkvæmari fyrir mig en að eltast við mennina í fílabeinsturninum sem eru svo latir að þeir nenna ekki að koma á alla þá staði þar sem vinnustaður þeirra er með útibú.
Persónulega finnst mér þetta ekki glataður pistill þó menn hafi mismunandi skoðanir á efni hans. Landsbankinn er því miður með buxurnar á hælunum í þessu máli.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.2.2011 kl. 09:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.