Taugaveiklunarræða um Davíð Oddsson
9.12.2010 | 08:57
Kolbrún Bergþórsdóttir segir í Mogganum í morgun um fund Samfylkingarinnar um síðustu helgi:
Þar steig Jóhanna í pontu og horfði ábúðarfull út í sal til flokkssystkina um leið og hún sagði í geðshræringu: »Við erum ekki eins og íhaldið.« Og svo kom nokkuð löng tala um það hversu mjög Samfylkingin tæki Sjálfstæðisflokknum fram hvað varðar heiðarleika og sjálfsgagnrýni. Og flokksmenn Jóhönnu fylltust svo gífurlegri hrifningu og eldmóði fyrir að taka sjálfstæðismönnum svo mjög fram í öllum mannkostum að þeir klöppuðu rækilega fyrir sjálfum sér. Sjálfsánægjan skein úr hverju andliti.
Undanfarin ár vakti það oftar en einu sinni athygli mína að í hvert skipti sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt landsfund eða flokksráðsfund tilkynnti Samfylkingin um fundi í eigin batteríum á sömu dögum. Líklega er best að taka það fram að þeetta var ekki á hinn veginn. Samfylkingin kom alltaf í kjölfar Sjálfstæðisflokksins með tilkynningu um stórfundi sína.
Ástæðan var sú að fyrir nokkrum árum, fyrir hrun, ákvað Samfylkingin, í samráði við aðal almannatengslaráðgjafa sinn, að Sjálfstæðisflokkurinn væri höfuðandstæðingur sinn. Þar sem hann væri stærri ætti Samfylkingin að fleyta sér áfram á kostnað hans, reyna að baða sig samtímis í fjölmiðlum. Ákveðið var að í hvert skipti sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins væri haldinn myndi verða sambærilegur fundur Samfylkingarinnar. Og þetta gekk eftir.
Ástæðan fyrir þessu pólitíska snjallræði er einfaldlega sú að landsfundir Sjáflstæðisflokksins eru afar fjölmennir og fá mikla umfjöllun í fjölmiðlum. Þó landsfundir Samfylkingarinnar hafi alltaf verið miklu fámennari þá fá þeir sambærilega umfjöllun í fjölmiðlum séu þeir haldnir á sama tíma. Fyrir vikið hefur það einhvern veginn síast inn hjá mörgum að Samfylkingin sé mótvægið við Sjálfstæðisflokkinn.
Um síðustu helgi var ekkert um að vera í flokkssstarfi Sjálfstæðisflokksins, en Samfylkingin, öllum til mikillar undrunar, hélt engu að síður flokksstjórnarfund þar sem ákaft var klappað fyrir árangri flokksins í ríkisstjórn. Um hann segir Kolbrún Bergþórsdóttir:
Á þessari sömu ráðstefnu innvígðra samfylkingarmanna kynnti umbótanefnd flokksins skýrslu. Þar var fjallað um ýmsar misgjörðir Samfylkingar. Nær allar stöfuðu af því að hin áhrifagjarna Samfylking var dregin á tálar af hinum illa þenkjandi og slóttuga Sjálfstæðisflokki og tók í óráði upp vonda siði þess gjörspillta flokks. En nú hefur Samfylkingin að sögn séð að sér, enda er hún komin í nýtt og eðlilegt samband við hið rétt þenkjandi afl Vinstri-græna sem fyrirlíta fátt meir en fjármagn og gróða.
Auðvitað er uppgjör Samfylkingarinnar við fortíðina afskaplega þarflegt og mætti halda að með jólahreingerningu flokksins væri fortíðin nú sómasamlega jarðsett. Kolbrúnu finnst það ekki:
Það er merkilegt að Samfylkingin virðist ekki geta axlað ábyrgð á eigin mistökum. Í einni setningu segist hún hafa gert mistök, en í næstu setningu kemur alltaf fram að mistökin urðu vegna tilveru Sjálfstæðisflokksins og Davíðs Oddssonar. Gríðarleg tilbreyting væri nú í því ef Samfylkingin gæti haldið eins og einn stórfund án þess að einhver úr forystunni héldi taugaveiklunarræðu um Davíð Oddsson. Ef það tekst þá hefur forysta flokksins náð umtalsverðum andlegum þroska.
Fyrir alla muni lesið þessa grein Kolbrúnar á blaðsíðu 20 í Mogganum í dag. Hún er upplýsandi þó ekki sé fyrir annað en að sjálf telur Kolbrún sig vera jafnaðarmann.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Kolbrún er enginn jafnaðarmaður. Hún er búin að selja Hádegismóra sál sína, er ásamt Agnesi Bragadóttur varðhundur útgerðarauðvaldsins eins og Morgunblaðið í heild sinni.
Seint muntu nafni sjá nokkuð athugavert við embættisfærslu Davíðs Oddssonar, hvorki sem ráðherra eða Seðlabankastjóra.
Sigurður Grétar Guðmundsson, 9.12.2010 kl. 09:30
Mikið óskaplega ertu heiftúðugur, kæri nafni. Annars hefurðu líklega rétt fyrir þér hvað mig varðar þó engum hafi ég selt sál mína enda er ég jafnblankur og endranær.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.12.2010 kl. 09:33
Sá flokkur á lítið erindi við samtímann sem hefur það kappsmál fyrst og fremst að þjappa moldina á leiði Davíðs Oddssonar.
Viðmælandi bloggara veitir okkur leiftrandi innsýni í hugaheim hinna óttaslegnu, sem fara með formælingar og særingar hvert eitt sinn sem óttinn ætlar að bera þá ofurliði. "Hádegismóri" er nýjasta innleggið í hið íslenska særingasafn, og leggst þar í púkk með orðum eins og fjandinn, pokurinn og Satan
Flosi Kristjánsson, 9.12.2010 kl. 11:15
þessi maður Sigurður Grétar er ekki í lagi þvílík heift
Guðmundur Kristinn Þórðarson, 9.12.2010 kl. 12:48
Ég er einn af alhörðustu sjálfstæðismönnum landsins og þræl innmúraður og innvígður í bak og fyrir.
Ef eitthvað er, þá verð ég eindregnari í afstöðu minni til Sjálfstæðisflokksins eftir að hafa lesið um þessa svo nefndu "umbótaskýrslu" sem er vita marklaust plagg.
Sjálfstæðismenn gerðu fjöldamörg mistök í aðdraganda og kjölfar hrunsins. Þeir juku ríkisútgjöld allt of mikið og treystu um of á fjármálamennina. Þetta er staðreynd sem við sjálfstæðismenn þurfum að horfast í augu við.
Enda gerum við það og þurfum ekki að klína sökina á aðra eins og þessi vesæli klúbbur sem kallast Samfylking gerir.
Skýrslan fjallar ekki mikið um landsfund SF árið 2007, en þar þakkaði Ingibjörg Sólrún jafnaðarmönnum það, að útrás og vöxtur fjármálageirans hafi orðið að veruleika. Einnig var Bjarni Ármannson gestur fundarins, en það vita flestir hver hans starfi var á þessum tíma.
Þegar Þingvallastjórnin var mynduð vildi SF aðlaga regluverkið betur að þörfum fjármálageirans, til að hann gæti vaxið enn meir.
Samfylkingin gekk algerlega í takt með sjálfstæðismönnum á árunum fyrir hrun. Þeir sem vilja kynna sér staðreyndir þess efnis geta fundið helling af heimildum á netinu, enda er nú ekki langt um liðið, þannig að flestum ætti þetta að vera í fersku minni.
Þeir sem fylgst hafa með Jóhönnu vita að ef hún er ósátt, þá fer hún ekki í grafgötur með það. Hún var ósát við Alþýðuflokkinn á sínum tíma og stofnaði þjóðvaka eins og flestir vita.
Hún samþykkti allt útrásarvíkinga daðrið.
Það er gott hjá Kolbrúnu Bergþórsdóttur að þroskast og kannast við sannleikann.
Fleiri samfylkingarmenn mætu taka það til fyrirmyndar, því ef menn þora ekki að horfast óttalaust í augu við eigin gjörðir, þá er lítil von um þroska.
Jón Ríkharðsson, 9.12.2010 kl. 16:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.