Gjaldþrot er smámál miðað við vanskilaskrárnar
19.10.2010 | 14:25
Frumvarp til laga um að skuldir fyrnist tveimur árum eftir gjaldþrot er svo sem góðra gjalda vert. Í það vantar þó tvö mikilvæg atriði svo slagkrafturinn verði sem mestur.
- Með gjaldþroti fer viðkomandi á vanskilaskrá sem í raun hefur miklu alvarlegri afleiðingar fyrir fólk en sjálft gjaldþrotið. Svo lengi sem það er á slíkri skrá er lífið afar erfitt og nær ómögulegt að taka lán og byrja upp á nýtt þó borðið eigi að heita nýtt. Allt verður að vera staðgreitt og jafnvel kreditkort fæst ekki útgefið þeim sem í gjaldþroti hafa lent.
- Fílsminni bankanna er stórkostlegt vandamál. Þeir hafa komið sér upp afar þróuðum hugbúnaði og í þeim er að finna þeirra eigin vanskilaskrá. Hafi banki, hvaða nafni sem hann nefnist, hvort sem tilvera þeirra hófst fyrir eða eftir hrun, á þessari eða síðusu öld, þá man hann allt. Bankarnir samþykkja aldrei aftur þann sem eitt sinn hefur farið í gjaldþrot. Viðkomandi er sí og æ snýtt upp úr þessari lífsreynslu sem fólki verður um alla framtíð meinað að gleyma.
Til að lög um tveggja ára fyrningu skulda þurfi að ná árangri verður að jafnframt að þurrka út skráningu á vanskilaskrá og krefjast þess að bankarnir láti af mannvonsku sinni og ruddamennsku.
Skuldir fyrnist á tveimur árum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:48 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Sigurður. Fílsminni bankanna er líka yfirfært og tekið að láni. Ég hef svolítið komið að málum nokkurra einstaklinga sem lentu upphaflega í greiðsluvandræðum við hið opinbera skattkerfi en skulduðu öðrum aðilum ekki krónu.
Það er dýrara en gengur og gerist að skulda "skattinum" og kostnaðurinn á það til að vaxa venjulegum launamanni yfir höfuð. Skatturinn hefur hins vegar þann háttinn á að gera "árangurslaust fjárnám" hjá einstaklingum sem viðheldur skuldinni fram í rauðan dauðann, í stað þess að krefjast gjaldþrots sem fyrnist á X löngum tíma.
Mér þætti því ekki verra ef ríkisstjórnin ætlar að afmá áhrif gjaldþrots eftir 2 ár að hún gerði slíkt hið sama við árangurslausu fjárnámin hins opinbera.
Kolbrún Hilmars, 19.10.2010 kl. 14:50
Þetta er rétt hjá þér, Kolbrún. Ég gleymdi að nefna skattinn. Tek undir það sem þú segir.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.10.2010 kl. 14:56
Það er svo sem ágætt að hjálpa þeim sem fara á hausinn, þó sú hjálp sé reyndar í mýflugumynd samkvæmt þessum lögum.
Meir er þó um vert að koma í veg fyrir að fólk fari fram af brúninni. Það er það sem mest er aðkallandi núna. Þessa stundina eru tug þúsindir sem búið er að hrekja fram á bjargbrúnina, ef hjálpin á að berast eftir að fólk hefur hrapað fram af verður nær ógerlegt að byggja upp landið á ný.
Því er nauðsynlegt að koma fólki frá brúninni og stöðva þann straum sem þangað liggur.
Gunnar Heiðarsson, 19.10.2010 kl. 15:05
Geri nú ekkert annað en að samsinna síðasta ræðumanni og er fyllilega sammála Gunnari.
Það breytir því þó ekki að það er lífsins glæpur sem vanskilaskrár og bankarnir fremja og ég rakti í pistlinum. Þessir aðilar eru saksóknarar, dómarar og fullnusta loks refsinguna.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.10.2010 kl. 15:09
Það er eitt sem ætti að taka með inn í þessa umræðu en það er sú staða að lán séu endurskoðuð við forsendubrest eins og var 2008. Með því að innleiða inn í samningalögin þá reglu að ef forsendur fyrir samningnum bresti þá eigi að miða skuldina við þær forsendur sem upphaflega voru fyrir hendi. Í þessu tilfelli er nauðsynlegt að miða við launavístölu og lánskjaravístölu sem ættu að haldast í hendur.
Það sem veldur þessum forsendubresti er að laun eru ekki verðtryggð eins og lánin. Ef launin væru vísitölutryggð þá væri ekki þessi staða í dag.
Guðlaugur Hermannsson, 19.10.2010 kl. 15:17
""Gjaldþrot er smámál miðað við vanskilaskrárnar""
Gerir þú þér ekki grein fyrir að gjaldþrota einstaklingur getur ekki átt neitt og hann má ekki í sitja í stjórnum félaga.
Á vanskila skrá getur maður keypt og eignast allt sem hugurinn girnist, maður þarf bara að eiga fyrir því.
Guðmundur Jónsson, 19.10.2010 kl. 18:13
Nei, Guðmundur, gjaldþrota maður getur átt það sem hann vill. Vandinn er bara sá að kröfuhafar geta gengið að eignum hans í allt að tíu ár eftir gjaldþrotið.
Vegna vanskilaskrár fær maður t.d. ekki húsnæðislán, ekki kreditkort, ekki smálán í banka, honum er jafnvel neitað um vinnu. Fólk á vanskilaskrá er eins og holdsveika fólkið hér áður yrr, því er neitað um réttlát lífsskilyrði.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 19.10.2010 kl. 18:29
Sigurður! Sá sem er ekki í vanskilum á ekki að vera á vanskilaskrá.
"Vandinn er bara sá að kröfuhafar geta gengið að eignum hans í allt að tíu ár eftir gjaldþrotið."
Þetta er ekki rétt, kröfuhafi getur rofið fyrningu allt að dánarbúi viðkomandi.
Kristján Sigurður Kristjánsson, 19.10.2010 kl. 20:01
"""Nei, Guðmundur, gjaldþrota maður getur átt það sem hann vill. Vandinn er bara sá að kröfuhafar geta gengið að eignum hans í allt að tíu ár eftir gjaldþrotið."""
Guðmundur Jónsson, 19.10.2010 kl. 20:44
Gjaldþrot getur verið bæði veraldlegt og andlegt!
Allir geta tekið allt frá mér, nema mína heiðarlegu lífssýn, sannfæringu og sál! Ég vil lifa fyrir mína sannfæringu og mína sál, því öðruvísi get ég ekki komið nokkurri lifandi sálu að gagni (hvorki mér né annarri)!!!
Hvað halda banka-svika-stofnanir að þær séu án fólksins sem skapar verðmætin?
Ættu ekki blessaðar auðvalds-baka-svika-stofnanirnar að óttast afleiðingar svikanna við alþýðuna sem byggir grunninn sem þeir standa á???
Eða eru þessir svikarar svo illa menntaðir og upplýstir að þeir skilja ekki svo auðskiljanlega staðreynd?
Og þeir eru jafnvel háskóla-menntaðir eftir skólabóka-höfundum svika-háskóla-menntunnar heims-auðjöfranna (sem samin er af heims-auðvaldinu), þessir blessaðir vesalingar, sem fjarstýrt er af heimsálfu-auðjöfra-álfum (út úr hól græðgi-fáráðlinganna vanþroskuðu)???
"Ég á ekki til orð" segja almúga-heimsspekingarnir (einu alvöru heimsspekingarnir) sem ekki geta með nokkru móti skilið svika-heimspeki auðvaldsins, sem nú eru búnir að fella heims-byggðina með sinni vanþroskuðu græðgi-heims-speki?
"Hagfræði" hafa heims-auðjöfra-svikararnir valið að kalla sína heims-svika-speki???
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 19.10.2010 kl. 20:57
Sigurður skrifaði: Nei, Guðmundur, gjaldþrota maður getur átt það sem hann vill. Vandinn er bara sá að kröfuhafar geta gengið að eignum hans í allt að tíu ár eftir gjaldþrotið.
Og Guðmundi fannst það hlægilegt. Hvað var svona hlægilegt við það, Guðmundur? Var svarið hans ekki alveg eðlilegt??
Elle_, 19.10.2010 kl. 21:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.