Húnvetningum sagt stríð á hendur

Þjóðvegir landsins eru almennt slæmir. Víðast eru ekki nein skil á milli akstursstefna. Vegirnir eru eru ekki sléttir, þeir eru almennt ójafnir og ófyrirsegjanlegir. Ótal einbreiðar brýr eru vegfarendum til stórkostlegrar hættu.

Stjórnmálamenn hafa enn ekki haft í sér dug til að taka um það ákvörðun á aðalþjóðvegur landsins, hringvegurinn skuli vera tvöfaldur. Slíkur er aumingjaskapurinn er og skortur á framtíðarsýn. Samt er ætlunin að taka á móti milljón ferðamönnum innan tíu ára ...

Nú hefur það gerst að sveitarfélagið Akureyri hefur sagt Blönduósi og Húnavatnshreppi stríð á hendur. Atvinnuþróunarfélag Eyfirðinga reið á vaðið og lagði ómælda vinnu í að fá Akureyringa til að senda Húnavatnshreppi athugasemdir um aðalskipulag hreppsins. Tilgangurinn er sá að stytta veginn frá Reykjavík til Akureyrar um það bil þrjár mínútur.

Fyrir vikið á að byggja veg framhjá Blönduósi og yfir fúamýrar í Húnavatnshreppi og byggja að auki nýja brú yfir Blöndu. Kostnaðurinn er um þrír milljarðar króna. Einn milljarður á mínútu.

Hverskonar dómsdags vinnubrögð eru það að efna til stríðs milli sveitarfélaga þegar margt annað er mikilvægara.

Eru menn virkilega sáttir við einbreiðu brýrnar? Er engin þörf á að aðskilja aksturstefnur á hringveginum? Er engin þörf á sléttum vegum í stað þeirra sem nú eru? Vill enginn að þjóðvegir landsins séu fyrirsjáanlegir fyrir ökumenn eða eiga óvæntir krókar og bólgur í malbiki að koma á óvart um ófyrirsjáanlega framtíð.

Markaðsstofa Norðurlands hefur í langan tíma unnið að því að byggja upp flugumferð til útlanda frá Akureyrarflugvelli. Ástæðan er einfaldlega sú landsbyggðin á ekki að vera upp á suðvesturhornið komið í atvinnumálum.

Má gera ráð fyrir því að bæjarstjórn Akureyrar og sveitarstjórnir Hörgárbyggðar, Grýtbakkahrepps, Fjallabyggðar og Dalvíkurbyggðar séu komin í stríð við Blönduós og Húnatnshrepps? Að minnsta kosti eru fulltrúar þessara sveitarfélaga í stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.

Þessi sveitarfélög eru greinilega á þeirri skoðun að upphaf og endir tilverunnar sé Reykjavík. Það er aumlegt viðhorf.

Er ekki nær að sameinast um verkefni í samgöngumálum sem skipta öll sveitarfélög máli? 


mbl.is Vilja styttri þjóðveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ég hef nú staðið í þeirri trú að stytting leiðarinnar væri 15 - 17 km, og ef þú ferð þá vegalengd á 3 mínútum er ég hræddur um að Blönduóslöggan verði að vera vel á verði þegar þú ert á ferðinni. Einhversstaðar á bilinu 8 - 10 mínútur væri nær lagi og það er bara einfaldur útreikningur hversu mikið sparast af innfluttu eldsneyti með þeirri styttingu. Ekki reikna ég með að mönnum verði bannað að fara niður að Blönduósi eftir að þessi vegur væri kominn, frekar en bannað er að keyra niður að Skagaströnd og Hvammstanga þó hringvegurinn sé ekki þræddur þar í gegn. Og ekki held ég að olíufélögin yrðu lengi að byggja nýja sjoppu við þennan nýja veg og einhverjir fengju áfram vinnu við að afgreiða sveitta hamborgara ofan í svanga ferðalanga.

Gísli Sigurðsson, 9.7.2010 kl. 12:29

2 Smámynd: Ragnar Eiríksson

Ég er nú svosem alveg sammála þér en véfengi tímasparnaðinn sem þú gefur upp.     Vegurinn á að styttast um 14 km og miðað við 90 km hámarkshraða er tímasparnaðurinn 9 mínútur!

Ragnar Eiríksson, 9.7.2010 kl. 12:38

3 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Er það höfuðmálið hvort það eru þrjár eða níu mínutur? :)

Ég er sjálf Húnvetningur, og uppalin að mestu á þessum slóðum. Mér þætti því leiðinlegt að sjá hringveginn vera færðan frá Blönduósi, því reynslan hefur kennt að slíkar aðgerðir hafa sett heilu og hálfu bæjarfélögin á hausinn.

Megnið af þeim iðnaði sem er á Blönduósi fær inn mikið af tekjum vegna fólks sem á leið þarna í gegn, sem er þá annaðhvort á norður eða suðurleið. 

Gísli: Nei, svosem er fólki ekki bannað að keyra niður að Skagaströnd eða inná Hvammstanga þegar þeir keyra hringveginn. En það keyrir enginn þangað bara svona afþvíbara. Ferðalangar fara aldrei inn á þessa staði nema að eiga þangað beint erindi, en ef hringvegurinn færi hinsvegar í gegnum þessa staði, líkt og á Blönduósi, þá væri dæmið líka allt annað.

Það er liðið rétt rúmlega ár frá því að ég fór hringveginn síðast, og það er eins og blogghöfundur lýsir. Vegirnir eru alls ekki í því ástandi sem væri óskandi. Lengi hefur vegagerðin sett hinar og þessar framkvæmdir á hakann, hvað varðar lagfæringar og betrumbætur á þjóðveginum sem geta jafnvel þýtt bilið á milli lífs og dauða innan tíðar. Því ástandið skánar ekkert á meðan ekkert er gert.

Held að það ætti frekar að verja þessum pening í að laga hringveginn í stað þess að gera hann nokkrum mínutum styttri.

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 9.7.2010 kl. 13:28

4 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Kannski ættum við Keflvíkingar (Reykjanesbæingar) að fara fram á það að veginum fyrir ofan bæinn verði lokað og allir sem eiga erindi í Flugstöðina verði að keyra í gegnum bæinn okkar. Ef bara 5% af þeim myndi stoppa og versla í einhverjum verslunum eða sjoppum myndi það skila okkur töluverðri veltu.

Vegir eru lagðir til að komast á milli staða en ekki endilega til að skapa atvinnu einhversstaðar á leiðinni. Ég bjó um nokkurra ára bil á Húsavík, ekki liggur hringvegurinn þar í gegn, þannig að menn þurftu að sýna hugkvæmni og áræðni til að ná til sín ferðamönnum og það hefur tekist svo vel að Húsavík er með vinsælustu ferðamannastöðum á landinu.

Gísli Sigurðsson, 9.7.2010 kl. 13:51

5 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Gísli, bestu þakkir fyrir gott innlegg. Efni pistilsins er fyrst og fremst það, að miklu skiptir að fullklára hringveginn, gera hann svo hættulausan sem mest má verða.

Tökum svo til við að vinna að þeim hlutum sem skipta minna máli, s.s. að hægt sé að komast frá Reykjavík til Akureyrar á 4:41 en ekki 4:50. Dettum ekki ofan í hrepparíg eða hálfkæring, t.d. á borð við það sem Atvinnuþróunarfélag Eyjarfjarðar hefur verið að gera eða jafnvel það sem ég læt frá mér fara í pistlinum.

Það er svo óskaplega margt óunnið í samgöngumálum hér á landi og fjármagnið takmarkað að við verðum umfram allt að forgangsraða m.a. út frá öryggissjónarmiðum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 9.7.2010 kl. 14:02

6 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Já Sigurður, ég get einlæglega tekið undir með þér í því að það er margt sem þarf að laga í okkar á löngum köflum dapra þjóðvegakerfi. En segjum sem svo að það ætti að endurbyggja þjóðveginn um Húnavatnssýslur, væri þá ekki gáfulegra að byggja nýjan veg með hagkvæmari staðsetningu m.t.t. vegalengda, heldur en að halda áfram að tjasla við þessa löngu úr sér gengnu vegi sem við erum að aka á í dag? Maður sér hvernig vegirnir eru víða að molna niður undan alltof mikilli þungaumferð eftir að stórflutningar með skipum lögðust að mestu af fyrir áratug eða svo. Það er að sjálfsögðu alltaf sama gamla sagan að við erum allt of fá sem búum á þessu landi og kostnaðurinn pr. haus því óheyrilegur.

Gísli Sigurðsson, 9.7.2010 kl. 14:34

7 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Gísli;

Er hægt að bera rök fyrir því að viðhaldið við nýjum þjóðvegi verði eitthvað betra en á þeim gamla?

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 9.7.2010 kl. 14:59

8 Smámynd: Gísli Sigurðsson

Ingibjörg A,

Kannski ekki, en vegir í dag eru kannski byggðir upp til að þola þá  umferð sem fer eftir vegunum í dag sem er talsvert meiri heldur en reiknað var með fyrir 30 - 40 árum síðan þegar þeir voru lagðir. Jafnframt voru þeir örugglega ekki reiknaðir til að bera eins þunga bíla og eru á ferðinni í dag. Mig minnir að einn stór og mikill trukkur slíti vegum eins og 200 fólksbílar.

Gísli Sigurðsson, 9.7.2010 kl. 15:20

9 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Það er rétt hjá þér.

En við megum samt ekki gleyma að hringvegurinn í sinni mynd er ennþá samgönguleið á milli bæjarfélaga fyrir þá sem þar búa.

Vegirnir á austurlandi t.d, eru til háborinnar skammar. Tala nú ekki um vestfirðina.

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 9.7.2010 kl. 15:30

10 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Ég ætlaði víst að rita "á milli bæjarfélaga á landsbyggðinni".

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 9.7.2010 kl. 15:33

11 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Bara smá innskot, Gísli ég held að það væri útilokað að Blönduósbúar fengju veginn færðann til sín ef hann væri núna um Svínvetningabraut eða þarna einhverstaðar framfrá eins og þér dettur í hug að bera saman og vertu ekki að skipta þér af vegum annarstaðar Húnvetningar fóru ekki Suður til að berjast á móti ykkur Reyknesingum þegar þið börðust fyrir tvöfölduninni og nú berjast þau, við skulum bara láta þau í friði með þá baráttu, ekki vil ég fá þau í lið með Möllernum á móti okkur Sunnlendingum svo ekki ætla ég að hafa skoðun á vegastæðinu, enn vil ítreka að ég treysti vegagerð ríkisins alveg til að klúðra þessu eins og næstum öllu sem hún kemur nálægt.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 9.7.2010 kl. 21:23

12 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Takk fyrir þennan pistil Sigurður. Þjóðvegur 1 á að tengja byggðir þar sem því verður við komið en ekki taka pláss úr þjóðvegi 1. En Eyfirðingar og Þingeyingar eru að reyna að þvinga Vegagerðina (sem ekkert vildi vita af þessu máli í fyrstu) til að skoða þetta mál sem forgangsmál sem er alveg út í hött. Það er alveg rétt hjá Gísla að vegir eru til að tengja staðai en ekki bara Akureyri-Reykjavík. Að koma með fáránlegt dæmi um Keflavík er ekki alveg að hitta í mark hjá Gísla blessuðum. Þetta dæmi um Keflavík hjá Gísla er í besta falli barnalegt. Leiðin til flugvallarins liggur alveg utan í bæinn og ég veit ekki betur en Keflvíkingar hafi haft mikla atvinnu af vellinum í gegnum tíðina þannig að Gísli ætti ekki að vera skotaskuld úr að finna til samsvörunar við Blönduós þar sem þjóðvegurinn gefur þeim bæ tekjur og atvinnu. Það á að laga vegi landsins, breikka þjóðveg nr. 1 og útrýma einbeiðum brúm. Ekki að byggja aðra brú yfir Blöndu takk fyrir.

Guðmundur St Ragnarsson, 9.7.2010 kl. 22:26

13 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það sem vekur upp spurningu hjá mér er; fyrir hverja eru þjóðvegir?

Samkvæmt hugmyndum Atvinnuþróunarfélagi Eyfirðinga og sveitarfélaginu Akureyri er þjóðvegur nr1 fyrir Eyfirðinga og enga aðra!

Á ekki þjóðvegur að vera fyrir sem flesta sem nálægt honum búa?

Er þá ekki rétt að þjóðvegir liggi sem næst flestum þeim byggðarkjörnum sem á leið hanns er?

Kallast það ekki þjóðleið?

Á ekki þjóðvegur að liggja um þjóðleið?

Gunnar Heiðarsson, 9.7.2010 kl. 22:29

14 Smámynd: Tryggvi Helgason

Góð skrif og réttmætar skoðanir þótt skiftar séu. Þessi vegur og vegarstyttingin sem um ræðir er ekki einungis til góða fyrir Akureyringa, heldur alla umferð frá Suðurlandinu til Skagafjarðar, Húsavíkur, Egilsstaða, Austfjarðanna og allra staða þar á milli.

Oftast þá ég fer þessa leið, þá vel ég suðurleiðina (Húnavallaleiðina) þótt hún sé lakari, en hún er styttri og á móti kemur að ég er oftast einn á veginum.

Þegar þeir lögðu sína milliríkjavegi "greiðbrautirnar" í Bandaríkjunum, þá voru hundruð borga og bæja sem duttu út úr alfaraleið og var víst lítið við því að segja.  (Nýyrði hjá mér; "greiðbraut" = vegur með engin gatnamót, engin umferðarljós, heilskiftar akstursleiðir í gagnstæðar áttir og tvær akreinar í hvora átt.)

Þegar Vaðlaheiðargöngin komast í gagnið þá verða þau kannske einna minnst til hagsbóta fyrir Akureyringa, þótt þau verði við bæjardyr Akureyrar, - en öllu fremur verða göngin til hagsbóta fyrir alla umferð milli Reykjavíkur og staðanna frá Fnjóskadal allt austur um til Austfjarðanna.

Tryggvi Helgason, 10.7.2010 kl. 00:43

15 identicon

Er sammála Gísla í flestu hvað þetta mál varðar. 

Ingibjörg segir að engin fari á Hvammstanga og Skagaströnd nema eiga þangað erindi!!! Því er ég algeralega ósammála því þangað fer ég stundum á leið minni þarna um  bara að gamni, en ég stoppa aldrei á Blöndósi svona að því bara einhverra hluta vegna þó ég sé nú þarna úr nágrenninu. Ég fer hins vega mjög oft Húnavallaleið einfaldlega að því hún er miklu skemmtilegri að fara og að því hún er styttri. Þjóvegur fyrir mér á að vera sú leið sem er skemmst á milli landsbyggðar og höfuðborgar og eða höfuðstaðar hvers landsfjórungs,  aðra vegi sem maður fer sér til gamans eru  annars eðlis og á öðrum standard.

(IP-tala skráð) 10.7.2010 kl. 15:13

16 Smámynd: Högni Jóhann Sigurjónsson

Sigurlaug, hvaða leið ætlarðu svo þegar þú verður ekki ein á veginum um Húnavallabraut sem mun væntannlega breytast, því að ekki viljum við of mörg vegamót á greiðveginn.

Ég held án þess að hafa velt þessu vegastæði fyrir mér að þarna eigi bara ekki að gera neitt annað en að halda veginum við en fara sem fyrst í að gera veg þvert yfir landið.

Högni Jóhann Sigurjónsson, 10.7.2010 kl. 15:19

17 Smámynd: Ingibjörg Axelma Axelsdóttir

Sigurlaug;

Sjálf bjó ég á Skagaströnd megnið af ævi minni, og ég get fullyrt að það gerðist örsjaldan á ári, sem það varð einhvers vart, sem ekki bjó á staðnum. Það keyrir heldur enginn krók inn á Skagaströnd til þess að taka bensín eða olíu á bílinn, né til að versla, líkt og fólk gerir á Blönduósi.

Ingibjörg Axelma Axelsdóttir, 10.7.2010 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband