Trúðurinn og það sem hann er ekki
26.5.2010 | 07:48
Og trúðurinn stendur upp og segir; Nú get ég. Þeir sem áður fögnuðu honum, hlógu með honum, grétu með honum og áttu sér góða daga flykkjast um hann.
Fyrst trúðurinn hafði getað látið fólki líða vel í þykistunni hlýtur hann að geta látið því líða vel í alvörunni.
Ekkert þýðir fyrir hina flokkana að gera eins. Þeir komast ekki upp með að tala um aumingja, þeir komast ekki upp með að ætla að flytja inn íkorna, þeir komast ekki upp með stefnuskrá sem er tómt bull. Þeirra tími virðist einfaldlega liðinn. Trúðurinn fremur einfaldlega valdarán með trúðslátum.
Eru kjósendur einfaldir eða kannski vitlausir? Sjá þeir ekki að trúðurinn hefur ekkert til brunns að bera?Hann þekkir ekkert inn á rekstur fyrirtækja, hann hefur enga reynslu í stjórnun og þeir sem eru með honum á lista gæta þess að greina hvorki frá reynslu sinni né stefnu.
Ótrúlegt væri ef kjósendur í Reykjavík ætli að kjósa trúðinn og bjóða heim hættunni á efnahagskreppu í Reykjavík, gjaldþroti.
Hvað er þá að gerast?Kjósendur eru líklega að segja eina einfalda staðreynd. Stjórnmálaflokkar þjóðarinnar verða að endurnýja sig frá því fyrir hrun. Kjósendur treystum þeim ekki lengur. Í borgarstjórn er flokkunum refsað fyrir störf þeirra á Alþingi.
Í sannleika sagt fjalla kosningarnar í Reykjavík ekki um trúðinn heldur trú kjósenda á stjórnmálaflokkunum. Hún hefur fallið hrikalega svo jafnvel trúðurinn hefur meira traust. Ekki vegna þess að hann er trúður heldur fyrir það sem hann er ekki.
Mikið forskot Besta flokksins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góðann daginn,
Ég ætla að kjósa Besta flokkinn.
Það er rétt hjá þér að kjósendur eru að koma með ákveðið "statement" með því að kjósa Besta Flokkinn. Það að kjósa besta flokkinn er -1 stig fyrir 4-flokkana en að skila auðu er 0 stig á alla flokkana.
Gæti ekki verið að kjósendur séu að segja að þeir nenni ekki að hafa einhverja framapotara á spenanum sínum ? Kannski vilja kjósendur Besta Flokksins að fjórflokkarnir leysist upp og inn komi persónukjör, það hafa margir sagst vilja kjósa Dag B en kjósi hann ekki vegna Samfylkingarinnar og eins með Hönnu B og Sjálfstæðisflokkinn.
Varðandi tal um heimsendi og gjaldþrot þá er það auðvitað ekkert annað en hræðsluáróður, sem er auðvitað aldrei af hinu góða, Maður á að vera með fræðsluáróður ekki hræðsluáróður. Besti Flokkurinn er buinn að segjast ætla að nýta sér þá sérfræðinga sem eru í starfi hjá Reykjavík til þess að keyra batterýið. Sem er btw. mjög mikil framför.
kv,
Birgir Hrafn
ps: Var ekki Davíð O eitt sinn skemmtikraftur (trúður) ?
Birgir Hrafn Sigurðsson, 26.5.2010 kl. 09:28
Margt til í þessu hjá þér. Hins vegar er ég alls ekki sammála því sem þú segir í niðurlaginu. Það er bara bull að sérfræðingar og annað starfsfólk borgarinnar sé ekki nýtt. Hins vegar þarf þekkingu til að nýta sér þekkingu. Dreg stórlega í efa að Besti flokkurinn hafi neina þekkingu á stjórnun.
Besti flokkurinn hefur ekkert látið uppi um getu frambjóðendanna, reynslu þeirra eða þekkingu. Hversu áhugasamur sem þú ert um Besta flokkinn, Birgir, þá veistu ekkert meira um hann heldur en við hin. Það er hins vegar þitt mál hverja þú vilt kjósa og hvernig þú kemst að þeirri niðurstöðu.
Þú hlýtur þó að vera sammála mér að það sé afar ámælisvert að flokkur skuli ekki upplýsa kjósendur um frambjóðendur sína eða stefnu. Besti flokkurinn gerir það ekki. Hvernig heldurðu að staðan væri ef aðrir flokkar færu eins að.
Þú mátt tala um hræðsluáróður. Staðreyndin er bara sú að Besti flokkurinn er ekki óskrifað blað, hann er grín og vitleysa. Stefnan er engin, þekkingin engin, aðferðafræðin engin og það sem verst er bakgrunnurinn er ekki neinn.
Ástæðan fyrir því að ég tala um trúð er ekki sú að ég sé að niðurlægja Jón Gnarr. Síst af öllu. Þú myndir áreiðanlega tala um trúðslæti ef ég segði þér að ég ætlaði að bjóða mig fram sem forseta lýðveldisins. Hvaða grunn hefði þú eiginlega í slíkt embætti myndir þú spyrja.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.5.2010 kl. 09:49
Kjarninn í greininni er athyglisverður og verður trauðla hrakinn: Hið óvenjulega framboð leikarans Jóns Gnarr og "flipparanna" nýtur fylgis, ekki fyrir það sem flokkur hans er, heldur fyrir það sem hann er ekki.
Hannes Smárason, Bjarni Ármannsson og aðrir ámóta dugnaðarforkar hefðu seint farið að bera fé á Jón Gnarr í þeirri von að auðveldara væri að komast yfir Orkuveitu Reykjavíkur í framhaldinu! Ætli hann sé ekki ámóta "nútímalegur" í peningamálum og Jóhannes Zoëga og Þóroddur Th. Sigurðsson, sem þar réðu ríkjum á síðustu öld!
Flosi Kristjánsson, 26.5.2010 kl. 10:41
Svo má velta því fyrir sér Flosi, hvað myndi gerast ef Jón myndi hætta en Besti flokkurinn héldi engu að síður áfram.
Eftirherman í Kópavogi, Næst besti flokkurinn, virðist ekki ná sama flugi og sá í Reykjavík enda nýtur hann ekki persónuvinsælda Jóns.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.5.2010 kl. 10:45
Þetta er hárrétt greining Sigurður ... að langstærsta ástæðan fyrir því að Besti fær góða kosningu er ekki hver hann er, heldur hver hann er ekki.
Þess vegna líka virkar líka allt skítkast á Besta flokkinn þeröfugt og lendir beint í andliti skítkastarans. Þetta virðast málpípur fjórflokksins ekki hafa skilið að undanförnu.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 26.5.2010 kl. 11:14
Rétt hjá þér, grefillinn sjálfur. Hins vegar verður að vera hægt að rökræða við Besta flokkinn. Hvernig á þá að rökræða við trúð, hann svara auðvitað með trúðslátum. Engu hefur hann svarað hingað til um þekkingu, reynslu, menntun og hæfileika. Ef fjórflokkurinn myndi svara á sama hátt yrði hann rakkaður niður. Hvað myndi gerast ef Dagur B. Eggertsson myndi kalla einhverja hópa í borginni aumingja? Hvers konar útreið myndi Hanna Birna borgarstjóri fá ef hún hefði enga hugmynd um hvernig ætti að spara í rekstri borgarinnar?
Grundvallaratriði er að spyrja og svara á málefnalegan hátt. Besti flokkurinn kemst upp með að gera það ekki. Hjá þeim er gagnrýni iðulega flokkuð sem hræðsluáróður eða skítkast.
Forsendur kosninga eru stefnumörkun frambjóðenda og upplýsingar um þá. Annað er bara trúðslæti.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 26.5.2010 kl. 11:23
Verð nú aðeins að fá að tjá mig um síðasta innlegg þitt Sigurður - lofa að venja mig ekki á ofurtuð en...
Þú veltir fram þeirri spurningu hvernig eigi að rökræða við trúð. Ég horfði stuttlega á þáttinn hjá Sölva á Skjá einum í kvöld og ég verð að segja að þar upplifði ég ekki Jón Gnarr í hlutverki trúðsins heldur flesta aðra þátttakendur. Reyndar er ég og fleiri búin að horfa á endurtekið "skemmtiatriði" með þessu fólki aftur og aftur og aftur í gegnum árin þar sem frambjóðendur skítkasta hvorn annan og upphefja sjálfan sig og sinn flokk. Þessi skrípalæti teljast ekki sem rökræður í mínum bókum. Rökræður eru oftast málefnalegar og fjórflokkarnir eru ekki alveg með fókusinn þar.Eru þekking, reynsla, menntun og hæfileikar það eina sem gerir manneskju hæfa sem stjórnmálamann. Ef svo er þá trúi ég ekki öðru en Jón Gnarr hafi eitthvað af þessu fernu. Menntun sem slík segir ekki allt um manneskjuna. Það sem við lærum er eitthvað sem aðrir segja okkur að lesa eða framkvæma. Við getum lesið og lært heilan helling alveg sjálf án þess að fá gráðu fyrir. Það að vera alin upp í flokksstarfi alveg frá menntaskóla, upp í gegnum háskólann og beint inn í flokkinn sinn gerir suma frambjóðendur sérlega blinda fyrir því sem er í gangi hérna "niðri" hjá okkur hinum.Síðasti en ekki síst er þetta með að Jón Gnarr komist upp með að kalla einhverja hópa "aumingja" Þetta er bara spurning um hvaðan fordómarnir koma og frá hverjum. Eitt gott dæmi um slíkt sá ég einu sinni í auglýsingu þar sem hvítur maður var í kór með lituðu fólki og hann söng rammfalskt - þetta þótti sérlega fyndið. Ef auglýsingin hefði verið sett upp í andhverfu, þ.e. að litaður maður hefði sungið falskt í hvítra-manna kór þá hefði þetta verið harðlega gagnrýnt og flokkað undir fordóma. Eftir því sem ég hef lesið og kynnt mér þá hefur trúðurinn sjálfur, eins og þú kallar hann, prufað að vera blankur og þurft að strita fyrir sínu. Þeir sem hafa upplifað slíka stöðu geta líklega frekar notað slík orð án þess að litið sé á það sem fordóma.
Ég held einnig að það væri gott fyrir þá sem komast inn í borgarstjórn að fá einstaklinga inn á sinn vinnustað sem eru jákvæðir og létta andrúmsloftið í vinnunni. Góð starfslíðan smitar út frá sér og hver veit nema að umræður og framkvædargleði fjórflokkana verði málefnalegri í framtíðinni :)
Dagbjört L. Kjartansd. Bergmann, 27.5.2010 kl. 00:11
Var að horfa á spjallið hjá Sölva og get ekki annað en tekið undir orð Dagbjartar um að ef einhverjir eiga skilið viðurnefnið trúðar þá voru það flestir aðrir en Jón Gnarr. Skoðið bara þáttinn sjálf.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 27.5.2010 kl. 01:26
Að kjósa vitlaust í sveitarstjórn, borgarstjórn, gerir flokkunum sem tapa ekkert til. Það kemur hinsvegar í hnakkann á kjósendum sjálfum. Mögulega færi allt í upplausn og fyrirtæki borgarinnar hryndu að gæðum eins og gerðist með Hitaveituna í tíð Ingibjargar og Alfreðs og framhaldið af því ætti að vera í mynni einhverra. Þeim fjölgar óðum borgarstjóra hausunnum sem eftir er að smíða.
Hrólfur Þ Hraundal, 27.5.2010 kl. 07:40
Þakka þér fyrir Dagbjört. Þetta var ágætt innlegg og málefnalegt. Auvitað er rétt hjá þér að menntun segi ekki allt um hæfileika fólks. Það er hins vegar vandi ef framkvæmdastjóri tugþúsunda manna fyrirtækis þarf að læra að stjórna um leið og hann stjórnar. Hann þarf líka að læra að leita sér aðstoðar um leið og hann stjórnar og síðast en ekki síst hann þarf að geta gert greinarmun á góðum ráðum og slæmum um leið og hann stjórnar.
Grefillinn Sjálfur veit af lestri pistla minna að ég uppnefni ekki fólk. Jón Gnarr er ekki trúður í niðrandi merkingu þess orðs. Í staðinn hefði ég getað sagt að kokkurinn eða bátsmaðurinn vildi fá að stjórna skipinu af því að hann er bæði vel gefinn og hefur verið um borð í 25 ár. Aðalatriði er að enginn stekkur fullskapaður í starf nema eiga sér einhverja reynslu. Það á ekki síður við embætti borgarstjóra en einhver önnur.
Að öllu þessu sögðu er ég engu að síður á þeirri skoðun að Besti flokkurinn hafi hrist ærlega upp í flokkakerfinu í borginni og það er gott. Hins vegar er ég ansi hræddur um að staðan eftir kosningar, fari þær eins og skoðanakannanir benda til, verði svipuð því sem var á fyrrihluta yfirstandandi kjörtímabils. Margir meirihlutar, margir borgarstjórar, ekkert verklag og borgarbúar dauðleiðir á öllu þessu. Ef ég skil Hrólf rétt þá er þetta það sem hann á við.
Tilraunastarfsemi í lýðræðissamfélagi á einfaldlega ekki við. Ég tek atkvæðisréttinn mjög alvarlega og finnst að fleiri ættu að gera það. Fjögur ár eru í húfi.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 27.5.2010 kl. 14:10
Ég tek minn atkvæðarétt líka alvarlega og verð að segja að sjaldan eða aldrei hefur mér fundist mitt atkvæði mikilvægara en einmitt núna.
Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 27.5.2010 kl. 14:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.