Gígjökull, áðurfyrr, fyrir og eftir ...
10.5.2010 | 23:39
Víða hafa birst samanburðarmyndir á Gígjökli fyrir og eftir gos eða fyrir og eftir þann tíma sem hann hefur þynnst mest.
Ég vil ekki láta mitt eftir liggja og hér eru nokkar myndir.
Sú efsta er tekin 12. september 2000 og þarna glittir í klettinn sem á næstu árum kom betur og betur í ljós.
Annað athyglisvert er að neðst er jökullinn tiltölulega flatur. Það átti nú eftir að breytast.
Auðvitað á ég betri myndir af Gígjökli meðan hann var og hét en vandinn er að komast í almennilegan skanner. Fram til ársins 1999 og lítið eitt lengur tók ég langflestar myndir á pósitívar filmur, slides.
Næsta mynd var tekin þann 5. júlí 2009. Þarna er kletturinn og gjáin komin fram og jökullinn heldur áfram að þynnast.
Þriðju myndina tók ég sama dag. Þarna eru bílar á leið á eftir mér yfir vaðið, sem svo var kallað. Þá var átt við neðri leiðina. Þegar efri leiðin var farin var ekið upp að Lóni og þar yfir jökulfallið.
Vaðið var stundum dálítið stór en yfirleitt var lítið vatn í því, botninn traustur og ef farið var að settum reglum kom ekkert fyrir.
Sá sem ekur bílnum sem þarna er úti í miðju vaði fer þó ekki alveg rétt að. Hann hefði átt að aka niður með vaðinu, í sveig og koma upp þar sem litli lækurinn fellur út í það. Allt fór þó vel.
Síðasta myndin er frá ágætum vin, Olgeir Engilbertssyni, frá Nefsholti. Hana tók hann árið 1985 og þar sést jökullinn í öllu sínu veldi. Og stundum mátti sjá ísjaka fljóta um lónið, stranda svo við útfallið. Jafnvel mátti stundum grípa með sér smærri klaka og hafa út í drykkinn um kvöldið.
Er það ekki þannig sem við munum jökulinn? Glæsilegan ísvegg og lónið fyrir neðan. Eitthvað annað en núna, svo rýr og öskugrár.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.