Migan úr Gígjökli tærari en Krossá

10511_voda_throngt.jpg

Þær breytingar hafa nú orðið á Gígjökulsmigunni að hún virðist vera tærari en Krossá. Þetta má næstum því glögglega sjá á vefmyndavél Vodafone, en hér til hliðar er mynd frá því í morgun. Sé myndin stækkuð sést að í migunni eru flúðir og þar bryddir á hvítt.

Af þessu má draga þá einföldu skýringu að ekki er mikil leysing á jöklinum enda kalt í veðri. Þó svo væri er jökullinn þakinn gjósku og sólbráð því afar lítil.

Einhver bræðsla er enn af völdum hraunsins eða eldogssins. Þess vegna er vatnshiti Markarfljóts við Þórólfsfell kominn í 18 gráður. Við Markarfljótsbrú er hann þó aðeins rúmar 6 gráður.

Nokkrar sveiflur hafa verið undanfarna daga í vatnshæð en nú virðist hún vera í jafnvægi.

100511_jar_skjalftar.jpg

 Enn virðist vera mikill órói undir og við Eyjafjallajökul. Ég ætla hins vegar ekki að ræða dýpt jarðskjálftanna. Geyma mér það þangað til síðar. Nokkrir lesenda þessarar bloggsíðu vita hvers vegna.

Jarðskjálftarnir eru flestir í kringum toppgíginn en samt eru þeir afskaplega margir sunnan við hann.  

Óróamælingarnar virðast frekar flatar en þó má greina sveiflur um það bil er jarðskjálftarnir hófust í gærmorgun. Frá því á mánudagsmorgun hafa orðið 87 skjálftar undir Eyjafjallajökli sem eru stærri en 1 á Richter á svæðinu.

Neðst er mynd úr vefmyndavélinni í Surtsey. Gosmökkurinn um kl. 22 í gærkvöldi rís hátt og kvöldsólin varpar geislum sínum á hann. 

 

 

100510_surtsey.jpg

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Aurkeilan sýnist mér vera farin að virka eins og risastór sía. Vatnstaumurinn hverfur hreinlega ofan í jörðina og kemur svo undan aurkeilunni neðst sem nokkuð hreint vatn.

Emil Hannes Valgeirsson, 11.5.2010 kl. 12:50

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Held að þetta sé rétt hjá þér. Að minnsta kosti gleypir árkeilan það litla vatn sem undan Gígjökli kemur. Svo sprettur það aftur upp neðst í árkeilunni. Enn er vatnið mjög heitt eða urúmlega 19 gráður við Þórólfsfell og rétt tæplega 10 gráður við brú.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 11.5.2010 kl. 13:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband