Lónið í upphafi goss og núna
30.4.2010 | 20:34
Til vinstri er mynd af lónstæðinu gamla eins og það er í dag, 30. apríl. Inni í sprungunni má sjá mikla gufubólstra.
Gufan myndast vegna þess að hraunið er komið langt niður brattan undir Gígjökli. Bæði er að hraunið bræðir jökulinn þarna neðarlega og vatnið er því sjóðheitt þegar það kemur fram við sprunguopið.
Fram hefur komið hjá jarðvísindamönnum að hraunbrot séu tekin að falla niður með bráðvatninu. Haldi gosið áfram mun þeim smám saman fjölga og loks mun hraunið skriða niður gamla lónstæðið. Þetta eins og þegar jökull fellur fram af bjargbrún, safnst saman fyrir neðan og heldur áfram að skríða. Þetta má til dæmis sjá í Morsárdal í Skaftafelli, innst inni í Kálfafellsdal í Suðursveit og víðar.
Til samanburðar er svo mynd frá því 16. apríl, þá hafði gosið staðið í tvo daga. Ég valdi þessa mynd frá Vodafone vegna þess að hún er tekin síðla dags og er nokkuð björt. Samt þurfti ég að lýsa hana upp til að ummerki innst inni í skugganum kæmu í ljós.
Myndin var tekin eftir að stóru flóðin tvö höfðu komið undan jöklinum.
Samanburðurinn er alveg ljós. Bráðvatn, leir, aska og möl og ís kemur að mestu leyti út úr sprungunni innst inni.
Breytingin er sú að frá 16. apríl hefur stöðugt bæst við ofan í lónstæðið og alltaf sest meira og meira efni fyrir. Nú er brekkan orðin miklu brattari en frá því í upphafi og hún á eftir að aukast svo lengi sem gýs.
Fremst, við skarðið, voru átta metrar niður á gamla lónstæðið þegar mælingamenn áttu síðast erindi þangað inneftir. Eflaust er dýptin núna orðin meiri.
Virkni aðeins brot af því sem áður var | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Aurkeilan hefur hækkað ótrúlega mikið upp við klettana. það sést best með því að miða við hringlaga geil vinstra megim við stóra gljúfrið. Í kvöld var orðið opið uppúr farveginum fyrir gufuna langleiðina fram á brún og nær þangað hugsanlega um helgina
Olgeir Engilbertsson, 1.5.2010 kl. 00:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.