Hafa björgunarsveitir forvarnaráhrif?

Frasinn um sjúkdómsvæðingu þjóðarinnar er þekktur. Átt er við að eiginlega séu allir svo sjúkir að fara þurfi reglulega til læknis rétt eins og árlega er farið með bíl í skoðun.

Sama er með björgunarsveitavæðinguna. Síst af öllu skal ég gera lítið úr þörfinni á björgunarsveitum og vissulega hafa þær innt af hendi frábært starf. Hins vegar sé ég ekki þörf á gæslu við gosstöðvarnar. Langstærsti hluti ferðafólks kann að ferðast. Það er ekki lengur þannig að ferðalög að sumri eða vetri séu fyrir sérþjálfað lið.

Þróun í fatnaði hefur gjörbreytt öllu. Flísfatnaðurinn er þvílíkt undur að fátt kemst í hálfkvisti við hann. Skjólfatnaður er orðinn óskaplega sterkur og skórnir eru afar góðir og nota margir sömu skóna allt árið um kring, jafnt í snjó sem bleytu.

Mesta breytingin hefur þó orðið í hugarfari fólks. Gönguferðir á fjöll og lengri ferðir eru tómstundagaman þúsunda Íslendinga og þetta fólk kann að ferðast, nota áttavita eða GPS tæki, símar eru með í föt og nánast allir láta vita um ferðaáætlun sína fyrirfram.

Dettur einhverum í hug að þeir sem vilja leggja á sig allt að 30 km göngu til að skoða eldstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi kunni ekki til verka? Jú, auðvitað eru alltaf einhverjir innanum sem ekki kunna að ferðast. Slíkir eru ekki síst á vélknúnum ökutækjum. Réttlætir það að staðsetja björgunarsveitarmenn við gosstöðvarnar?

Óhöpp verða og björgunarsveitir geta ekkert við þeim gert. Það er fyrst þegar koma skal þeim sem lenda í óhappi til byggða að leitað er til þeirra. Forvarnaráhrif björgunarsveita eru einhver en þær koma ekki í veg fyrir óhöpp.

Niðurstaða mín er því sú að draga má gríðarlega úr þessari svokallaðri gæslu við eldstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi. Við eigum að geta treyst því að samfeðamenn eða nærstaddir hafi jafn góð áhrif á þá sem ekki kunna fótum sínum forráð eins og sjálfar björgunarsveitirnar. 


mbl.is Gæslan er kostnaðarsöm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Ég er sammála þér. Á þeim 40 árum sem ég hef stundað útivist fjarri byggð hefur orðið bylting á búnaði. Fatnaður allur hefur gjörbreyst til hins betra og aðgengilegur öllum. GPS tæknin er í raun bylting - þó kort og áttaviti sé ennþá grunnbúnaður. Veðurspár hafa einnig tekið stakkaskiptum-einkum uppsetning þeirra í myndrænu formi og nokkuð öruggar nokkra daga fram í tímann. Þrátt fyrir stóraukningu á útivist fjarri byggð - hefur óhöppum fækkað mjög .  Sjálfur treysti ég göngufólki best-það er yfirleitt best undirbúið að ölluleyti til ferðalagsins.  Mjög margir hafa einnig náð miklu ferðaöryggi á jeppum um óbyggðir.  Hörmulegt slys um páskahelgina þarf að upplýsa um hvað fór úrskeiðis - til að læra af..það er mikilvægt.

Sævar Helgason, 7.4.2010 kl. 10:13

2 Smámynd: Ibba Sig.

Ég verð að vera algerlega ósammála ykkur félögunum. Tugir eða hundruðir ferðamanna sem björgunarsveitir hafa aðstoðað eða bjargað á svæðinu styðja þá skoðun mína.

Það dettur nefnilega fullt af fólki í hug að leggja á Fimmvörðuhálsinn illa útbúið og í lélegu formi og óvanir reyna að aka yfir jökul á illa búnum bílum. 

Löggan er með aukna gæslu í miðborg Reykjavíkur á 17. júní og Menningarnótt. Hvað er öðruvísi við Fimmvörðuháls? Það þarf aukna gæslu þar sem mikið af fólki kemur saman. 

Ibba Sig., 7.4.2010 kl. 10:40

3 Smámynd: Stefán Freyr Barðason Nielsen

ég þakka guði fyrir að björgunnarsveitir voru á svæðinu þegar bróðir minn datt og ökklabraut sig á föstudaginn langa.

legg ekki einusinni í það að hugsa um hvernig heði farið ef hann heði þurft að bíða í einhverja klukkutíma liggjandi þarna tvíökklabrotinn...

Stefán Freyr Barðason Nielsen, 7.4.2010 kl. 11:04

4 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Stefán, þá er auðvitað nærtækast að spyrja hvort bróðir þinn sé vanur fjallaferðum, hafi verið vel útbúinn og hvernig slysið átti sér stað. Hins vegar má ljóst vera að björgunarsveit gat ekki komið ekki í veg fyrir slysið. Það er í raun og veru meginatriðið í röksemdafærslunni.

Ibba, í því liggur vandinn að björgunarsveitir eru meira eins og sjúkraflutningamenn, taka á því sem þegar hefur gerst en hafa sáralítið forvarnargildi. Þess vegna tel ég að við eigum að leggja áherslu á kynningarmálin, vekja athygli á vandanum, koma í veg fyrir að fólk fari sér að voða

Það er gjörsamlega útilokað að koma í veg fyrir slys, hvort heldur í ferðalögum á hálendinu eða á götum í miðborg Reykjavíkur. Við hljótum því að gera þá kröfu til fólks að það ferðist skynsamlega. Enginn ætlar að meiðast en óhöppin verða, það er bara staðreynd, jafnvel í Reykjavík á 17. júní eða á Menningarnótt.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 7.4.2010 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband