Sagan af hægra skíðinu sem fór af 5vörðuhálsi
23.3.2010 | 09:11
Dagurinn var ákaflega fagur. Við risum árla úr rekkju í skála Útivistar í Básum og lögðum af stað upp á Fimmvörðuháls. Í ljós kom að hjarn var yfir, gaddfreðinn snjór. Okkur sóttist því gangan vel uppúr Strákagili, yfir Kattahryggi, upp Foldir og á Morinsheiði.
Útsýnið var fagurt, vart ský á himni. Við bárum gönguskíðin, fannst það ekki taka því að setja þau undir. Engu líkar var en við gengum á hvítu malbiki.
Með í ferðinni var Árni Jóhannsson. Hann var nýbyrjaður að ferðast af einhverju viti og þess vegna lánaði ég honum bæði gönguskíði og gönguskó. Með þessi lánsgögn á bakinu var hann afar sennilegur sem fjallakall.
Við áðum uppi á Bröttufannarfelli, átum nesti og nutum útsýnisins. Sunnan fellsins var um það bil eins km rennsli. Við settum á okkur skíðin og renndum okkur niður á jafnsléttuna. Þar vorum við nákvæmlega á þeim slóðum þar sem fimmtán árum síðar myndi jörðin rifna með látum og eldgoshefjast.
Ég er ekki forspár maður. Vildi gjarnan vera það. Vera eins og sumir sem eftir á segjast hafa dreymt fyrir eldgosum,kreppum, bankahruni, úrslitum í kosningum. Nei, ekkert svoleiðis hefur hent ílífi mínu. Man eftir því sem krakki að ég sagði stundum móður minni frá draumummínum. Oftar en ekki sagði hún að þeir væru einfaldlega fyrir snjóavetri ... og svo brosti hún vingjarnlega. Uppúr því varð mínum augum allt óskiljanlegt og hálfyfirnáttúrulegt ábending frá æðri máttarvöldum um komandi snjóavetur.
En þarna á Fimmvörðuhálsi, skammt sunnan við Bröttufannarfell, stóðum við Árni á gönguskíðunum eftir gott rennsli. Kemur nú loks að því sem sagan fjallar í raun og veru um.
Ég tek af mér skíðin og set þau á bakpokann og axla hann. Árni gerir slíkt hið sama en í þann mund að hann ætlar að setja vinstra skíðið á pokann rekur hann sig í hitt og það rennur hægt frá honum.
Ég sé hvað gerist en nokkurt bil er á milli okkar og því geri ég ekkert annað en að hrópa viðvörunarorð.
Árni, sér á augabragði hvað gerist, er seinn á fætur en drattast þó upp og hleypur á eftir skíðinu. Fyrst dregur hann á það, síðan helst millibilið jafnt en loks breikkar bilið. Skíðið tekur bókstaflega á rás, brunar niður vaxandi hallann, tekur beygju til vinstri í fjarska og hverfur án þess að hafan okkru sinni oltið.
Nú er það svo að í fjallaferðum að vetri er skíðalaus maður hreinlega dauðadæmdur. Þess vegna yfirgaf ég Árna með þeim orðum að hann skyldi nú finna skíðið mitt eða sleppa því að sýna sig íFimmvörðuskála eða Básum.
Einhverjum kynni að finnast þetta nokkuð harkalegt viðhorf. Á móti bendi ég bara á að í ferð á Vatnajökli nokkrum árum áður fauk frá mér dína. Af miskunsemi sinni ákváðu ferðafélagar mínir að leyfa mér það nær ómögulega verkefni að eltast við dínuna frekar en að ganga frá mér á staðnum. Sem betur fer fann ég dínuna og það urðu fagnaðarfundir þegar ég kom með hana í fanginu til félaga minna. Þó var ekki laust við að sumum þeirra fyndist þeir hafa misst af einhverju ...
Nú, nú. Þarna á Fimmvörðuhálsi í mars 1995 held ég áfram göngu minni að Fimmvörðuskála til fundar við hóp útlendinga sem nokkrir félagar mínir voru með í ferð með yfir Hálsinn.
Ekki frétti ég neitt af Árna eða afdrifum skíðisins enda var þetta fyrir almenna notkun á farsímum.
Á bakaleiðinni grunaði mig að skíðið hefði líklega runnið ofan í Hrunaáargil og Árni hefði sótt það þangað. Ég ákvað þó að draga upp kíkinn þegar ég kom á Heljarkamb. Ofan í dimmu gilinu kom ég auga á skíðið en Árni var víðs fjarri, líklega kominn ofan í Bása á einari eins og það heitir, þ.e. á öðru skíðinu.
Af ferðum hægra skíðisins var það að frétta að það hafði runnið austur fyrir Bröttufannarfell og svifið ofan í Hrunaárgil og staðnæmst þar í snjónum, alls óskemmt.
Víkur nú sögunni til dagsins í dag. Þá verður eldgos skammt sunnan við Bröttufannarfell. Og hvað gerist fyrst af öllu? Jú, vatn bráðnar og rennur nákvæmlega þá sömu leið og skíðið hafði endasenst forðum daga. Og vatnsflóðinu fylgir glóandi hraunið sem nú er í óða önn að bræða jökulinn ofan í myrkrum gilsins og það veldur enn meira vatnsflóði í Hrunaá ogKrossá.
Og ég þakka fyrir að hafa sótt skíðið. Annars væri það að eilífu tapað eða þannig ...
Ferðafélag minn átti síðan eftir að vera formaður Útivistar í nær fjórtán ár en aldrei tapaði hann aftur gönguskíði, hvorki sínu eigin né annarra. Og loks þegar Árni hættir sem formaður, aðalfundurinn var í byrjun mars 2010, verður eldgos á Fimmvörðuhálsi. Þetta þýðir einfaldlega að Útivist hefur misst alla stjórn á atburðarásinni og það er ábyggilega allt nýjum formanni að kenna sem ég hef ekki hugmynd um hvað heitir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:22 | Facebook
Athugasemdir
... veldur enn meira vatnsflóði í Hrunaá, Tungnaá og Krossá.
Þó svo að sagan af linsunni þinni og eplunum hafi hvorki með Fimmvörðuháls né eldgos að gera þá ...
Af hverju ert þú ennþá á láglendinu. Er allur dugur úr ykkur hetjunum. Þó það andi létt af fjallinu þá er það engin afsökun. Þið félagarnir hefðuð alltént ekki látið það aftra ykkur fyrir nokkrum árum. Eruð þið farnir að reskjast.
Kveðja
Elís
Elís Másson, 23.3.2010 kl. 23:47
Sæll gamli félagið. Rakst á mynd af þér um daginn, var að leita að góðum myndum af Hálsinum til að birta.
Jú, við gjörumst nú gamlir og stirðir en ekki svo að á laugardaginn ætla ég upp hvort sem yfirvöld leyfa eða ekki. Ertu með?
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 24.3.2010 kl. 09:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.