Skoðanakönnun hjálpar svaranda að mislíka mjög - eða hata
17.2.2023 | 21:51
Hægt er að klúðra heilli skoðanakönnun með því að leggja svarendum orð í munn. Auðvita á að varast það. Fjölmiðlanefnd lét fyrir stuttu gera könnun sem um margt er vafasöm. Niðurstöður hennar er auðveldlega hægt að draga í efa.
Hér er ein spurningin:
Er einhver hópur sem þér mislíkar mjög?
Sárasaklaus. Ætti ég að svara henni hefði ég einfaldlega sagt nei, mér mislíkar ekki mikið við neina hópa. Auðvitað kann að vera að manni sé í nöp við það sem einstaka hópar eða fólk sem tengt er hópum lætur frá sér fara. Þannig held ég að flestum sé farið.
Hins vegar er afar líklegt að svar margra myndi breytast ef spurt væri á þennan hátt:
Hér fylgir listi með ólíkum hópum í samfélaginu sem fólk getur haft mismunandi skoðanir á. Er einhver hópur sem þér mislíkar mjög?
Þetta er það sem borið var fram fyrir svarendur. Listinn sem fylgir breytir öllu, gefur hverjum manni byr í seglin. Boðið er upp á hlaðborð af hópum sem maður getur látið sér líka illa við og það á stundinni, nær umhugsunarlaust. Sjá meðfylgjandi töflu.
Hvers vegna? Einfaldlega vegna skyldurækni. Ég er spurður og sjálfsagt er að svara. Í fermingarveislunni er það sjálfsögð kurteisi að bragða á öllum sortum, jafnvel þeim sem manni líst ekkert á.
Skyndilega er sá sem ekki mislíkaði við nokkurn mann orðinn fúll út í allt og alla. Hann rámar í fjölmiðlafréttir, vonda fólkið. Þegar hann sér alla listann yfir hópanna, hlaðborðið sjálft, man hann hver skylda hans er; að svara ítarlega, samkvæmt fréttum fjölmiðla. Hakaðu við alla sem þú vilt, og svarandinn gerir það svikalaust.
Hvað merkir sögnin að mislíka? Í almennu máli getur það merkt að gremjast vegna einhvers eða falla eitthvað illa svo vitnað sé í orðabókina. En, svo bætist hitt við; áhersluorðið mjög og mislíkunin fer að nálgast gildishlaðna orðið að hata. Svarandinn gerir ef til vill ekki greinarmun á að mislíka og hata því hlaðborðið breytir öllu.
Gjörbreyting verður á merkingu orðalagsins mislíka mjög þegar á eftir fara nöfn hópa sem nefndir eru í könnuninni.
Hversu skammt er í að sá sem mislíkar mjög við Gyðinga, Pólverja, múslima hati þá. Merkir við til að segja eitthvað: Jú, ég hata Ísraela sem fara illa með Palestínumenn. Ekki eru allir Gyðingar Ísraelar, skiptir það engu máli?
Jú, ég hata femínista, ég hata múslima, íhaldsmenn, kapítalista. vopnasafnara, loftlagsafneitara, transfólk, lögguna, alþingismenn ...
Svona könnun er furðuleg. Líkist ansi mikið svokölluðum smellufréttum veffjölmiðla sem búa til vafasamar fyrirsagnir til þess eins að plata fólk til að opna fréttina.
Skoðanakönnunin býður upp á ótal viðtöl við fulltrúa þess sem framkvæmdi hana. Þá myndast vandlætingin: Guð minn góður! Hvað er að gerast? Þvílíkar öfgar. Erum við svona miklu verri en Svíar sem er samanburðarþjóð í könnuninni. Könnunin er fullkomin rétt eins og smellufrétt.
Hvers vegna er þér illa við veganista, geturðu rökstutt svarið? Ha, hvað? Nei, sko, mér finnst bara asnalegt að fólk borði ekki kjöt.
Af hverju mislíkar þér mjög við rómafólk, geturðu rökstutt svarið?
Hvers vegna er þér svona uppsigað við marga hópa?
Eflaust verður fátt um svör þegar gengið er á fólkið sem svaraði þessari spurningu.
Aðalatriðið er það sem nefnt var i upphafi. Mislíki þér mjög við einhverja hóp nefndu þá. Ég skora á þig.
Sá sem býr til skoðanakönnun á ekki að hjálpa svarandanum og mynda sér skoðun.
Hefði enginn listi fylgt spurningunni segir mér svo hugur um að niðurstaðan hefði ekki orðið fréttnæm. En það var ekki tilgangurinn.
Smellufréttin er aðalatriðið. Og blaðamannastéttin gleypti við þessu, gagnrýnislaust.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)