Vitleysisgangurinn í löggunni

Börnum innan tólf ára hefur verið bannað að fara á gossvæðið. Svo segir löggan á Suðurnesjum. Þar ráða ríkjum Geir og Grani sem flestum eru kunnir. Spengilegu kallarnir í löggunni þykjast vita betur en allur almenningu hvernig að ferðast, hverjir megi ferðast.

Hvers vegna 12 ára börn? Er eitthvað sem liggur þarna að baki?
„Hvers vegna ekki? Þetta er náttúrlega matskennd ákvörðun,“ segir Úlfar. Ekki fengust nánari upplýsingar um ástæður aldurstakmarksins.
„Menn geta velt þessu fyrir sér en ákvörðunin liggur fyrir og henni verður framfylgt,“ segir Úlfar. Hann segist vonast til þess að aðgerðirnar verði til þess að tryggja öryggi á svæðinu. Almannavarnir beri ábyrgð á að það sé gert.

Þetta kemur fram í frétt í Morgunblaðinu. Lögreglustjórinn þykist hafa Almannavarnir Ríkislögreglustjóra á bak við sig. Samkvæmt honum er ákvörðunin um að banna börnum aðgang „matskennd“ og engin rök fylgja.

„Mönnum er skylt að fara eftir fyrirmælum lögreglu og ef það er ekki gert, þá er hægt að beita sektum samkvæmt lögreglulögum,“ segir Úlfar, spurður hvort unnt sé að sekta fólk sem fer að gosinu eða þá sem halda að gosinu með börn undir 12 ára aldri.

Þetta er vitlausara en tali tekur. Sé ákvörðunin „matskennd“ er aldrei hægt að sekta þá sem brjóta gegn matinu. Sé sumum hleypt í gegn en ekki öðrum er það gert samkvæmt ákvörðun lögreglumanns sem finnst að barnið eigi ekkert erindi á gosstöðvarnar. Hefur löggan þekkingu á útbúnaði, getu barna og getuleysi. Getur verð að matskennd ákvörðun lögreglumanns gangi framar lögum um frjálsa för fólks um landið?

Þetta er eftir öðru. Ég dreg stórlega í efa að lögreglan á Suðurnesjum og  Ríkislögreglustjóra séu starfi sínu vaxin. Mistökin og vandræðagangurinn hjá embættunum á síðasta ári og þessu eru nóg til að hver heilvita maður ætti að varast að taka þau trúanleg. 

2021

Screenshot 2022-08-10 at 12.16.08Eldgosið við Fagra-dalsfjall sem hófst 19. mars 2021 var forvitnilegt og dró að sér þúsundir manna og skipti veðrið fæsta neinu máli. Mér kom samt á óvart hve embætti Ríkislögreglustjóra og almannavarnadeild þess var illa að sér. Sama á við Lögregluna á Suðurnesjum og jafnvel Björgunarsveitina Þorbjörn í Grindavík sem var þarna almenningi til aðstoðar og stóð sig oft vel.

Í upphafi hafði svo mikið fát gripið lögguna, bæði þá hjá Ríkislögreglustjóra og á Suðurnesjum. Vegagerðin var látin loka Suðurstrandarvegi og því borið við að hann væri skemmdur. Engin skemmd fannst. Vegurinn átti bara að vera skemmdur og því var hann lokaður heila helgi. Svo var gefinn út tilkynning um að fólk gæti gengið að gosstöðvunum frá Grindavík og Bláa Lóninu. Þarna kom berlega í ljós hvers konar vitleysisgangur ríkti. Frá báðum stöðum voru að minnsta kosti tíu km að gosstöðvunum, aðra leiðina. Sem sagt fólki var ráðlagt að ganga rúma tuttugu km til að sjá gosið. Hundruð ef ekki þúsundir gerðu það og voru uppgefin á eftir. Gangan gekk nærri heilsu fjölda fólks og hafði það ekki annað til saka unni en vilja sjá eldgos.

Nátthagi

IMGL4818Ég get lesið á landakort. Þó ég hefði aldrei komið á þessar slóðir áður sá ég strax að auðveldast var að ganga um dalinn Nátthaga. Besta að segja það strax að þegar svona stendur á er ég lítið fyrir að láta yfirvöld sem þekkja greinilega ekki aðstæður smala mér, segja mér hvert ég á að fara eða gera. Staðreyndin var einfaldlega sú að ég vissi miklu betur en embættismenn Ríkislögreglustjóra og Suðurnesjalöggan. Þekking þeirra á landslagi og fjallamennsku var sáralítil og ekki til mikils gagns. Þar að auki var eins og þessir aðilar kynnu ekki að lesa úr landakortum.

Athuganir á gervitunglagögnum bentu til þess að kvikugangurinn, sem myndaðist vikurnar fyrir gosið, og opnaðist í Geldingadölum, sé ekki að fara að mynda nýjar gosstöðvar annarstaðar yfir ganginum.

IMGL5335 AurSvo sagði í yfirliti á vef Veðurstofu Íslands 26. mars 2021. Í upphafi eldgossins var ekki talið ráðlegt að búa til gönguleið að gosstöðvunum um Nátthagadal. Jarðfræðingar töldu að ýmislegt benti til að berggangurinn væri undir dalnum og þar gæti hugsanlega gosið. Þrem dögum síðar var ekki lengur talin hætta á þessu. Þó var gerð gönguleið sem lá þráðbeint eftir bergganginum og nefnd „leið A“. Ekki mikil hugsun þar að baki.

Nátthagadalur er geysistór, langur og djúpur, líklega nærri 250.000 fermetrar og er þá aðeins mesta sléttlendið talið. Hæglega hefði verið hægt að koma þar fyrir nærri tíu þúsund bílastæðum án mikillar fyrirhafnar og hefði þó verið æði rúmt um alla. Með því hefði hefði verið hægt að koma í veg fyrir umferðaröngþveiti á Suðurstrandarvegi. Mestu skipti að fólk hefði ekki þurft að ganga nema að hámarki fjóra km að gosstöðvunum og til baka í dalinn, afar létta leið.

Embættismennirnir

Embættismennirnir tóku engum sönsum, hugsuðu ekki sjálfstætt, jafnvel þegar sérfræðingar Veðurstofunnar töldu óhætt að ganga um Nátthagadal.

Margt fer öðru vísi en ætlað er. Hér er atburðarásin: 

  1. Hraun rann niður í Nátthagadal 22. maí 2021 og fyllti hann smám saman. 
  2. Þann, 4. júní 2021 rann hraun yfir gönguleiðina sunnan Gónhóls og lokaði henni. 
  3. Þann 13. júní rann hraun yfir gönguleið Ríkislögreglustjóra (kölluð A) gerð hafði verið með jarðýtu.

RíkislögreglustjóriÞegar litið er til baka var engin gönguleið varanleg. Þó má fullyrða að skynsamlegra hefði verið að beina fólki um Nátthagadal í stað þess að gera fólki beinlínis erfiðara fyrir að skoða eldgosið. Það sem olli þessu var einfaldlega þekkingarleysi, reynsluleysi og getuleysi þeirra sem um véluðu.

Eftir að hafa kynnt mér málin fannst mér útilokað að fara gönguleið löggunnar að gosstöðvunum. Sé enga ánægju í að rölta í óslitinni fimm kílómetra halarófu, troða drullu og renna til í flughálli brekku. Nátthagadalsleiðin mun skemmri og fljótfarnari.

Veðrið

Stundum þótti löggunni óskaplega vont veður á gosstöðvunum. Líklega er miðað við að kyrrsetumenn treysti sér ekki út í rok eða slagveður. Þá er sagt ófært fyrir alla, jafnvel fyrir fjallakalla sem eru margreyndir í útivist og ferðalögum. Öllu var skellt í lás, jafnt fyrir útlendinga á sandölum sem og þeim sem voru í gönguskóm með stífum sóla, í hlýjum og góðum útivistarfötum og hlífðarfötum utan yfir.

Ríkisútvarpið var lengst af með beint streymi frá gosstöðvunum í Geldingadal og einnig var hægt að nálgast myndir á vef Veðurstofunnar og Ríkislögreglustjóra. Stundum var ekki annað að sjá en að á Fagradalsfjalli væri þokkalegt  útivistarveður.

Þá má spyrja, hvað er gott veður til útvistar? Sumir segja að veðrið skipti engu máli, bara klæðnaður fólks, útbúnaður og slatti af skynsemi. Því er ég mikið sammála. Spakir fjallamenn halda því reyndar fram að veður velti á hugarfari. 

Svo er það hitt. Þegar lokað var vegna veðurs á gosstöðvunum fór ég, og örugglega margir aðrir, eitthvert annað, á fjöll, um heiðar. Hvergi var lokað nema við Fagradalsfjall og nágrenni. Enginn bannaði fólki að ganga á Núpshlíðarháls, Sveifluháls eða Geitafell, sem eru þó í næsta nágrenni og veðurlagið nákvæmlega hið sama. 

Líklega þótti löggunni lakara að fólk færi sér að voða  við gosstöðvarnar en skárra að það gerðist annars staðar. Þetta er nú meiri vitleysan hjá löggunni.

Einhver fann upp orðið „gluggaveður“. Það notar „of-fólkið“ óspart. Úti er of-kalt, of-hvasst, of-rigning, of-snjór og van-sól sem merkir of lítil sól. Helst þarf að vera blankalogn úti, tuttugu gráðu hiti og sól til að of-fólkið treysti sér í útivist.

Æ, æ, nú rignir

Fjölmiðlar og Ríkislögreglustjóri hafa oft tekið að sér að segja fólki til um útivist á Fagradalsfjalli en hafa því miður ekki alltaf rétt fyrir sér enda sjaldnast reynt útivistarfólk sem slíkt gerir. Sífelldur áróður gegn gönguferðum úti í náttúrunni er lítt hvetjandi. Byggir upp bölvaðan aumingjaskap sem endar með því að fólk leggur upp laupanna heima í stofu horfandi á sjónvarp og étandi sykurvörur. Þá væri nú meiri mannsbragur á því að berjast á móti vindi: 

Ég vildi óska, það yrði nú regn 
eða þá bylur á Kaldadal,            
og ærlegur kaldsvali okkur í gegn 
ofan úr háreistum jöklasal.

Þurfum á stað, þar sem stormur hvín 
og steypiregn gerir hörund vott. 
Þeir geta þá skolfið og skammast sín, 
sem skjálfa vilja. Þeim er það gott.

Undir Kaldadal heitir þetta hraustlega ljóð eftir Hannes Hafstein, tvö erindi af fimm. 

Ég þreytist sjaldan að vitna í Fjallamenn, bók Guðmundar Einarssonar listamanns frá Miðdal en þar stendur:

„Íslendingar eru skyldugir til að leggja stund á göngur og skíðaíþrótt, þá vaxa þeim ekki fjarlægðir í augum. Sund, leikfimi og fleiri íþróttir eru ágætur undirbúningur fyrir fjallgöngumann jafnframt því, að hann beri virðingu fyrir líkama sínum. Ég veit, að fyrstu tilraunum fylgir nokkur hætta, ef ekki er reynt fólk með í för. En það aftrar mér ekki frá að hvetja fólk til að ganga á fjöll.

Fleiri og voðalegri slys hljótast af hreyfingarleysi en fjallgöngum. Ég hef séð kunningja minn hrapa til dauða í Alpafjöllunum, en það fékk mér ekki eins mikillar sorgar og að sjá fjölda fólks, sem ég þekki, grotna niður af fitu, leti og óreglu.“ (Fjallamenn, blaðsíða 161)

Geir og Grani í löggunni

Screenshot 2022-08-10 at 12.54.11Rétt fyrir hádegi þann 5. apríl 2021 opnaðist sprunga norðan við Geldingadal og á örfáum dögum mynduðust fimm gígar. 

Þegar þetta gerðist var ég nýkominn upp á Langahrygg. Hafði dvalist í heiðskíru og fallegu veðri við að taka myndir af rofabörðum enda lá mér ekkert á. Hefði ég gengið hraðar upp á hrygginn, sem ætlunin var, hefði ég séð nýju eldsprunguna opnast. Það hefði verið saga til næsta bæjar. Já, hefði og hefði.

Þegar ég kom upp leit ég auðvitað til eldstöðvanna, en nokkru norðar var reykur og jafnvel eldur. Nokkrar sekúndur liðu áður en ég áttaði mig á því að þarna var ný sprunga að opnast. Úr henni rann hraun sem féll ofan í Meradal. Ég tók myndir í gríð og erg. Skundaði eftir Langahrygg í áttina að Stóra-Hrúti, þangað upp ætlaði ég. Þá  fékk ég smáskilaboð í símann minn; 

Rímið gossvæðið. Umferð bönnuð. Ný sprunga að myndast.

Ég las skilboðin og hló (dálítið illkvittnislega ég viðurkenni það). Leirskáldin hjá Ríkislögreglustjóra höfðu berað þekkingarleysi sitt á enn einu sviðinu. 

Vantaði Geir og Grana rímorð? Mörg orð ríma við gossvæðið, til dæmis fljótræðið, smáræðið, ónæðið, bráðræðið, einræðið og mörg fleiri. Öll þessi eiga vel við.

Þegar löggan frétti af nýrri sprungu virðist mikið fát hafa gripið um sig á lögreglustöðinni á Suðurnesjum og Ríkislögreglustjóra. Ef til vill eins og sást í gömlu bíómyndunum um „The keystone cops“. Sé fyrir mér ringulreiðina þegar fréttin barst. Allir æða fram og til baka, rekast á vinnufélaga, borð og stóla og hrópa og kalla í algjöru ráðaleysi.

„Lokum lokum, fólk gæti dottið ofan í nýju sprunguna,“ gæti einhver hafa æpt, skrækum rómi. Nýliðanum er skipað fyrir og hann hleypur til og sendir út smáskilaboð. Af hverju nýliðinn? Jú, hann er með próf á jarðýtu, hámenntaður.

Jæja, afsakið þetta. Ég gat ekki stillt mig, því löggan tók til þess ráðs að skipa fólki að rýma (ekki „ríma“) gossvæðið. Sleppum stafsetningarvillunni og samt mátti misskilja orðalagið. Var átt við að þeir sem fái skilboðin eigi að aðstoða við að rýma gossvæðið eða eiga þeir fari á brott? Líklega var átt við það síðarnefnda. Löggan gat ekki einu sinni skrifað skammlaust smáskilaboð fyrir síma.

Þyrlan

Þó gossprunga opnist er lítil hætta á ferðum. Engar hamfarir eru á leiðinni. Ekki verður sprenging. Nær útilokað var að aðrar eldsprungur myndu opnast við hlið hennar. Það gerist aldrei. Frekar er líklegar að svona sprungur lengist í aðra hvora áttina. Á Reykjanesi hafa allar gossprungur stefnuna suðvestur-norðaustur og þarf ekki annað en að líta á landkort til að sannfærast. Löggan vissi þetta ekki, skildi ekki eða hafði ekki hlutað á jarðfræðinga. 

Uppi á Langahrygg velti ég því fyrir mér hvers vegna ég ætti að fara heim? 

Jú, valdstjórnin krafðist þess. 

En var ég á gossvæðinu? 

Nei, ég var langt fyrir utan hættusvæði sem skilgreint hafði verið. Þess vegna gekk ég upp á Stór-Hrút.

Stuttu eftir að ég sá nýju sprunguna og náði af henni mynd tók að renna hraun suðvestan við staðinn þar sem fyrst opnaðist.

IMGL4917 AurMikið var gaman - þangað til þyrla Landhelgisgæslunnar nálgaðist. Svo hringsólaði hún ógnandi yfir mér þar sem ég stóð þarna á fjallstindinum. Auðvitað skelfdist ég. Bjóst við hryðjuverkasveit Ríkislögreglustjóraembættisins sem myndi renna sér á köðlum niður úr þyrlunni, alvopnaðir hríðskotabyssum, hnífum, kylfum og táragasi, og handtaka mig fyrir að hafa óhlýðnast valdstjórninni. Svo gerðist það næstótrúlegasta. Þyrlan flaug í burtu. Ég settist skjálfandi og sveittur niður við litlu hrúguna sem einu sinni hafði verið varða og reyndi að ná mér. Það tókst, en helluna í eyrunum hef ég ekki losnað við síðan. Enn suðar.

 

Já og nú er aftur farið að gjósa og löggan á Suðurnesjum og embætti Ríkislögreglustjóra leita allra ráða til að passa okkur, almúgann. Við vitum ekki neitt, kunnum ekki neitt og erum vís til að detta ofan í kvikutjörnina eða jafnvel ofan í gíginn. Og þá er nú nauðsynlegt að þeir Geir og Grani og félagar þeirra standi sig.

 

Myndirnar

Efsta myndin er af forsíðu Fréttablaðsins og er af fólki sem er að brölta upp „kaðalleiðina“ svoköllu. Gönguleið upp bratta hlíð sem tróðst fljótt niður og í slyddu og rigningu varð hún fljótt eitt forað. Þetta var í boði löggunnar og Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar í Grindavík og hafa báðir aðilar verið stoltir af framkvæmdinni.

Næsta mynd er tekin af Langahrygg og þarna sést í fjarska „kaðalbrekkan“ fræga.

Þriðja myndin er af uppgöngunni úr Nátthagadal, miklu léttari og auðveldari leið en löggan þröngvaði fólki til að fara.

Fjórða myndin þarfnast ekki skýringa.

Fimmta myndin ekki heldur.

Sú sjötta er af þyrlu Landhelgisgæslunnar sem nálgast Stóra-Hrút. Grænafjall í baksýn.

 

 

 


Bloggfærslur 10. ágúst 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband