Þykistuleikurinn gegn Rússum

Þjóðverjar eru búnir að reikna út að verði lokað fyrir orkuna frá Rússlandi myndi skella á efnahagskreppa. Kórónuveiran hefði lokað þjónustugeiranum, en þessi kreppa myndi bitna á hjarta þýsks iðnaðar og leiða til þess að landsframleiðsla myndi dragast saman um allt að þrjá af hundraði [3%]. Þá yrði dýrara að útvega orkuna. Það myndi hafa áhrif á verðlag og jafnvel draga úr samkeppnishæfni þýskrar framleiðslu.

Þessi athyglisverðu orð eru í leiðara Morgunblaðsins 26. mars 2022. Þýsk stjórnvöld gráta af því að það er of dýrt að refsa Rússum fyrir stríðsreksturinn í Úkraínu. Úr þessu má lesa að efnahagslegar refsiaðgerðir mega ekki vera of dýrar fyrir þá sem beita þeim og þetta virðist vera útbreitt skoðun í Evrópu. Friðelskandi fólk vill auðvitað ekki borga of mikið fyrir friðinn en krefjast hans engu að síður.

Þvílík della. Það verður dýrt að stöðva Rússa, fylgi hugur máli, sem vissulega má draga í efa. Svona er allt sýndarmennska, innihaldslaust mal og tal sem engu skiptir.

Og þú, lesandi góður. Ertu með í baráttunni fyrir friði ef efnahagslegar refsiaðgerðir gegn Rússum muni kosta þig sem nemur 20% af tekjum þínum eða kaupmætti?

Nei, auðvitað ekki. Þú ert engu skárri en aðrir í Evrópu í þykistuleiknum gegn Rússum. 

Hingað til hafa Rússar aðeins hrist sig vegna refsiaðgerðanna en halda svo áfram að drepa fólk í Úkraínu og sprengja borgir og bæi í tætlur. Á meðan berast óstaðfestar fréttir sem eiga að gera okkur, almenning, ánægða með refsiaðgerðirnar. Her Rússa er í vandræðum, Pútín er veikur og rússnesku almenningur muni bylta stjórninni í Kreml. Svona sögur bera öll einkenni falsfrétta.

En, en, en ... það er búið að taka flugvélar, hús og snekkjur af rússnesku auðmönnunum, ólígörkunum, kannt þú að segja. Þetta skiptir engu máli. 

Rússar hafa ekki lent í miklu vanda vegna refsiaðgerðanna. Kínverjar hjálpa þeim. Jafnvel íslensk fyrirtæki sem seldu til Rússlands senda nú vörur þangað í gegnum Kína. Allt lekur í gegn rétt eins og gasið og olían til Þýskalands, hveitið og byggið til Frakklands, og SWIFT er bara orðin tóm því auðvitað þarf að borga fyrir lekann frá Rússlandi.

Dettur einhverjum í hug að baráttan gegn stríðsrekstri Rússa muni ekki verða Evrópu dýr sé tilgangurinn raunverulega sá að stöðva stríðsvél innrásarliðsins.

Efnahagslega refsiaðgerðir eiga að vera þannig að almenningur í Rússlandi þjáist og helst rísi upp gegn stjórnvöldum. Til þess er leikurinn gerður.

Aldrei hafa efnahagslegar refsiaðgerðir verið nógu harðar og verða það ekki nema því aðeins að almenningur hérna megin finni fyrir þeim. Öllum samskiptum við Rússa þarf að hætta og það mun óhjákvæmilega leiða til tímabundinna óþæginda hérna megin járntjaldsins nýja.

Þjóðverjar eru eins og allar aðrar þjóðir. Gráta tapað fé. Evrópuþjóðunum finnst betra að láta Úkraínumenn þjást en verðbólgan vaxi, vextir hækki, samkeppnishæfnin minnki, ferðaþjónustan staðni, atvinnuleysi aukist, hagvöxtur hrynji, með öðrum orðum; að allt stefni í kalda kol.

Ágæti lesandi. Þú ert eflaust á móti stríði, manndrápum og eyðingu borga og bæja svo framarlega sem baráttan kosti þig ekki nema örfáar krónur sem þú veiðir sjálfur upp úr buddunni. 

Við fordæmum Pútín og rússnesk stjórnvöld og teljum okkur til góða fólksins en erum ekki tilbúin til að borga fyrir friðinn. Hann er síst af öllu ókeypis.


Bloggfærslur 26. mars 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband