Mæli með þessum í prófkjörinu í Reykjavík
17.3.2022 | 15:09
Hverja á að kjósa í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna borgarstjórnarkosningunum?
Margir velta þessu fyrir sér og sumir hafa spurt mig ráða. Ég fæ ekki að kjósa lengur í Reykjavík, flúði þaðan og í Kópavogi og þar hef ég lagt mitt lóð á vogarskálarnar í prófkjörinu sem var um síðustu helgi.
Væri ég búsettur í Reykjavík fengju þessi mitt atkvæði:
- Hildur Björnsdóttir
- Marta Guðjónsdóttir
- Kjartan Magnússon
- Örn Þórðarson
- Ólafur Guðmundsson
- Birna Hafstein
- Valgerður Sigurðardóttir
- Helgi Áss Grétarsson
- Ragnheiður J. Sverrisdóttir
Fyrstu fimm frambjóðendurna þekki ég persónulega. Hildur Björnsdóttir eru tvímælalaust efni í traustan leiðtoga og mun án efa draga fjölda atkvæða að, hörkudugleg og vel máli farin.
Marta, Kjartan, Örn og Ólafur búa yfir gríðarlegri þekkingu í borgarmálum og hafa aldrei látið meirihlutann í borgarstjórn eiga neitt inni hjá sér. Þetta fólk verður bakbeinið í borgarstjórnarlista flokksins.
Þekking Ólafs Guðmundssonar í samgöngumálum er mikil og hefur hann gagnrýnt meirihlutann harðlega fyrir bullið með borgarlínuna og öryggismál í umferðinni.
Aðrir koma nýir inn í borgarmálin. Birna Hafstein hefur getið sér góðs orðs í menningarmálum og er þekkt fyrir fagmennsku og lipurð.
Valgerður Sigurðardóttir er borgarfulltrúi og leggur meðal annars áherslu á húsnæðismál sem meirihlutinn í borginni hefur klúðrað eftirminnilega.
Helgi Áss Grétarsson er harður gagnrýnandi borgarlínunnar og telur að hún sé alltof dýrt mannvirki.
Ragnheiður J. Sverrisdóttir hefur unnið að velferðarmálum og með heimilislausum með miklar og flóknar þjónustuþarfir.
Í prófkjörinu tekur núna þátt einvalalið traustra Sjálfstæðismanna. Því miður má aðeins kjósa níu frambjóðendur, ekki fleiri og ekki færri og ekki skrifa neitt annað en númer við nöfnin, annars er atkvæðið ógilt.
Kosið er á föstudaginn frá 11 til 18 og á laugardaginn frá 9 til 18. Kjörstaðir eru þessir:
- Valhöll, Háaleitisbraut 1
- Árbær, félagsheimili Sjálfstæðisflokksins, Hraunbæ 102
- Grafarvogur, félagsheimili Sjálfstæðisflokksins, Hverafold 1-3
- Breiðholt, félagsheimili Sjálfstæðisflokksins, Álfabakka 14a (Mjódd)
- Vesturbær, Fiskislóð 10
Ég hvet fólk til að kjósa. Nú er tími til að búa til öflugan lista Sjálfstæðisflokksins og losna við vinstri meirihlutann.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2022 kl. 00:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)