Toppur Gölts, selja gjöld og dúfa ákærð fyrir njósnir

Orðlof

Hreintungustefna

Ef vondslega hefur þig veröldin blekkt,
vélað og tælt þig nógu frekt,
og móðurlands þíns málfar skekkt,
- mundu þá Air Iceland Connect.

Ragnar Önundarson, skrif á Facebook. Einhver hefur breytt vísu Jóns Arasonar á þennan veg.

Jón Arason biskum orti árið 1550 þegar ljóst var að hann yrði tekinn af lífi:

Vondslega hefur oss veröldin blekkt,
villt og tælt svo nógu frekt:
Ef ég skal dæmdur af danskri slekt,
og deyja svo fyrir kóngsins mekt.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Donald Trump varði helginni í að spila golf, í fyrsta sinn um nokkurt skeið, og að tísta móðgunum, lygum og alls konar dylgjum um andstæðinga sína.“

Frétt á visir.is.                              

Athugasemd: Þetta er ekki frétt og ekki blaðamennska heldur persónuleg skoðum blaðamannsins. Hún kemur lesendum ekkert við. Engu skiptir þó allt þarna sé satt. 

Blaðamanni ber að setja fram upplýsingar án formerkja. Hann á ekki að draga ályktanir fyrir lesandann, mata hann á því sem honum finnst.

Ótrúlegt er að útgáfa Vísis skuli samþykkja svona skrif blaðamanns.

Tillaga: Engin tillaga.

2.

„Systurnar á toppi Gölts.“

Frétt á visir.is.                              

Athugasemd: Göltur er algengt örnefni og beygist svona: 

Göltur, um Gölt, frá Gelti, til Galtar.

Göltur er eintöluorð. Karlsvín er nefnist göltur og það beygist eins og örnefnið í eintölu en í fleirtölu svona:

geltir, um gelti, frá göltum, til galta.

Þar að auki getur göltur verið hvorugkynsorð og merkir samkvæmt málið.is; reika, flakka um, glænapast; slást utan í. Orðið glænapast vekur hér athygli og merkir vera (úti) illa klæddur í kulda. 

Blaðamaður Vísis fer rangt með fallbeygingu örnefnisins Göltur. Einfalt er að fletta beygingunni upp í orðabók. Hins vegar þarf hann að vilja skrifa rétt mál.

Deila má um hvort toppur sé á fjallinu Gelti. Sum fjöll eru frekar slétt að ofan, til dæmis Esja. Hæst á Esju er Háabunga sem í raun ekki toppur. Örlítið lægri er Hátindur sem er toppur.

TillagaSysturnar á Gelti.

3.

„Boris hefur neitað því að ráðgjafinn verði rekinn.“

Staksteinar í Morgunblaðinu 27.5.20.                             

Athugasemd: Forsætisráðherra Bretlands var hvattur til að reka ráðgjafa sinn vegna brots á útgöngubanni í kóvítis faraldrinum. Eðlilegt er að segja að Boris hafi hafnað því að reka manninn. 

Í pistlinum segir einnig:

Ekki telst víst að ráðgjafar víki fyrr en forsætisráðherra hefur neitað brottrekstri hans þrisvar.

Sögnin að hafna getur samkvæmt orðabókinni merkt; vísa frá, taka ekki við, neita; forðast. Aftur á móti getur sögnin að neita þýtt; segja nei, hafna, synja.

Forsætisráðherrann hafnar því að reka mann. Séu uppi grunsemdir um að ráðherrann hafi rekið hann kann að vera að því sé neitað.

Af þessu má sjá að merking orðanna tveggja skarast nokkuð. Þá á skrifari það við máltilfinningu sína hvort hann notar. 

Tillaga: Boris hefur hafnaði því að reka ráðgjafann.

4.

Þetta er svart­ur blett­ur á minni fer­il­skrá, þetta er eitt­hvað sem ég þarf að læra af.“

Frétt á mbl.is.                              

Athugasemd: Hér má margt lagfæra. Það sem viðmælandi Moggans á við er að hann þurfi að læra af reynslu sinni, sem varla var „eitthvað“, heldur mun alvarlegra.

Orðið er mjög algengt í margvíslegum tenginum og hefur smám saman fengið aukna þyngd í umræðinni, algjörlega óverðskuldað. Ástæðan er sú að óákveðna fornafnið er oftast notað um það sem er óljóst: „Bara eitthvað“, er sagt.

Stundum er sagt:

  • Ég lærði eitthvað í frönsku sem merkir að ég lærði dálítið í frönsku.
  • Hann fékk sér eitthvað að borða og þá má vera að hann hafi fengið sér brauð með smjöri, osti og skinku og drukkið mjólk með.

Enginn segir:

  • Ég var í Háskóla í fjögur ár og lærði eitthvað í lögfræði.

Ekki er hægt að segja:

  • Ökumaðurinn lenti í alvarlegum árekstri og þarf að læra eitthvað af því.
  • Ég tapaði skákinni og þarf að læra eitthvað af því.

Í þessum tilvikum er „eitthvað“ afar ómarkvisst og tekur ekki mið af því hversu málefnið er mikilvægt.

Hins vegar er ekkert að því að nota „eitthvað“ þó í fjölmörgum tilvikum sé betra að sleppa því og orða hugsun sína skýrar.

Málsgreinin er slæm, tvívegis „þetta“, dæmigerð nástaða. Á íslensku stendur eignarfornafnið „minn“ yfirleitt á eftir nafnorðinu en stundum á undan, en það á ekki við hér. Blaðamaðurinn á að lagfæra lélegt orðalag.

Tillaga: Úrslitin eru svart­ur blett­ur á fer­il­skránni og ég þarf að læra mikið af þeim.

5.

„Allt síðasta ár seldi klúbburinn sjö þúsund vallargjöld!“

Frétt á visir.is.                              

Athugasemd: Varla er hægt að selja gjöld. Gjald merkir að borga, greiða.

Í fréttinni er talað um vallargjöld á golfvelli, það er kylfingar greiða fyrir aðgang að vellinum. Á ensku eru vallargjald kalla „green fee“ sem er ekki beint lýsandi en er engu að síður alþjóðlegt.

Almennt kaupa kylfingar sér rástíma en í orðinu felst sá tími sem hann má byrja leik og er það vallargjaldið.

Hvað kallast vallargjald í golfi? Útilokað er að selja vallargjald, það gengur hreinlega ekki upp, svona röklega séð. Í augnablikinu sýnist mér skást er að nota aðgang, selja aðgang.

Tillaga: Allt síðasta ár seldi klúbburinn sjö þúsund manns aðgang að golfvellinum.

6.

„… um að fá aftur eina af dúfum sínum, sem þessa dagana er í varðhaldi á Indlandi eftir að hafa verið ákærð fyrir njósnir.“

Frétt á ruv.is.                               

Athugasemd: Nú versnar í’ðí. Getur dúfa verið ákærð fyrir njósnir? Já, greinilega. Þetta er ekki rökvilla eða þýðingarvilla hjá fréttamanni Ríkiútvarpsins.

Á vef BBC stendur:

A Pakistani villager has urged Indian Prime Minister Narendra Modi to return his pigeon, currently being held in India on charges of spying.

Dálítið slappt að þýða „currently“ með „þessa dagana“. hefði dugað.

Vonandi verður dúfan yfirheyrð og allt sem hún segir skrifað skilmerkilega niður. Vera má að hún hafi ekki verið við njósnastörf, verið „ferðadúfa“. 

Tillaga: Engin tillaga.

7.

„Ekki við eina fjölina felld.

Fyrirsögn á frettabladid.is                              

Athugasemd: Stórskemmtileg fyrirsögn, ein sú besta sést hefur. Rætt er við konu sem er menntaður garðyrkjufræðingur og ... smiður. Svona má leika sér með málið. Blaðamaðurinn á hrós skilið fyrir að þora orðaleiknum. 

Í bókinni Mergur málsins eftir Jón G. Friðjónsson segir um orðalagið að vera ekki við eina fjölina felldur:

Vera viðsjárverður, vera ekki allur þar sem maður er séður, vera ekki (alveg) heiðarlegur; vera fjöllyndur í ástum. [...]

Líkingin er dregin af smíðum þar sem m.a. fjalir eru felldar saman, hver að annarri. Sá sem passar ekki aðeins við eina fjöl getur brugðið sér í ýmis líki.

Auðvitað hafa flestir sem ráku augun í fyrirsögnina og myndina af fallegu brosi konunnar haldið að hún væri vergjörn eða eitthvað enn verra. En það er nú langt í frá.

Tillaga: Engin tillaga.

 

 


Bloggfærslur 27. maí 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband