Horfa framan í stríð og hlusta á tilboð

Orðlof

Að fyrna mál

Hjördís telur (2002:46-47) að lagamálið skapi ekki eins mikil vandræði hér hjá okkur og víða annars staðar, sérstaklega í engilsaxneskum löndum, en þar með sé ekki sagt að staðan sé algóð hérlendis. 

„Við lögfræðingar erum að mörgu leyti föst í gömlum hefðum og hættir ósjálfrátt til að fyrna mál okkar og skrifa langar og stundum óskýrar setningar. 

Kansellístíllinn er mörgum lögfræðingi enn hjartfólginn og einnig svonefndur júridískur þankagangur. Hef ég grun um að misskilningur á merkingu þessa hugtaks hafi á stundum átt sök á því að ekki var gætt að skýrri og markvissri framsetningu á rökstuðningi í lögfræðilegum skrifum. 

Einnig eru ýmsir lagatextar óþarflega snúnir og mætti gera þá aðgengilegri með skýrara orðafari og setningaskipan.“ (2002:47).

Einfalt mál, gott mál, skýrt mál; Ari Páll Kristinsson.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„Við erum ekki að horfa framan í Persaflóastríðið.“

Frétt á visir.is.                   

Athugasemd: Svona er ekki hægt að taka til orða. Blaðamaðurinn má ekki skrifa á þennan veg jafnvel þó orðin séu viðmælandans. Verkefni blaðamanns er öðrum þræði að lagfæra orðalag viðmælenda. Síst af öllu á hann að dreifa röngu og vitlausu máli yfir alþjóð.

Enginn horfir framan í stríð jafnvel þó á ensku kunni að vera sagt:

We might be facing a war.

Á íslensku tölum við um að stríð gæti orðið, við horfum fram á stríð eða átök. 

Viðmælandi blaðamannsins á greinilega við að nýtt Persaflóastríð sé ekki í uppsiglingu.

Tillaga: Við þurfum ekki að óttast nýtt Persaflóastríð.

2.

„Tom Hanks brotnaði niður í ræðu sinni á Golden Globe.“

Fyrirsögn á visir.is.                   

Athugasemd: Greinilegt er að blaðamaðurinn sem skrifað þessa fyrirsögn veit ekki hvað orðasambandið að brotna niður merkir. Í orðabókinni merkir þetta að vera í sorg eða kvöl vegna einhvers. Hann getur ekki heldur sagt frá því sem gerðist, finnur ekki réttu orðin.

Eftir myndklippunni að dæma komst leikarinn við. Síst af öllu brotnaði hann niður þegar honum var veitt mikil viðurkenning. Í erlendum fréttamiðlum eru notuð orð eins og „emotional“, „breaks down in tears“ og svo framvegis. Ekkert taugaáfall eða niðurbrot.

Viðvaningar í skrifum á íslensku og þeir sem hafa ekki nægan orðaforða til að tjá sig á eðlilegan hátt, þýða rangt úr enskunni sem þeir halda að þeir skilji svo vel. Enginn leiðbeinir nýliðunum og viðvaningunum heldur fá þeir að leika lausum hala og skemma fréttir. Lesendurnir skipta engu máli.

Tillaga: Tom Hanks komst við í ræðu sinni á Golden Globe.

3.

„Ég get svo svarið það,“ trúði Bubbi tónleikagestum og útvarpshlustendum fyrir og hló eins og hross sem gefið er í nefið.“

Ljósvakinn, pistill á blaðsíðu 3  í Morgunblaðinu 7.1.2020.                

Athugasemd: Sem betur fer eru til afar ritfærir og góðir blaðamenn á íslenskum fjölmiðlum. Þeir sem hafa lesið gagnrýni mína á málfar í fjölmiðlum gætu haldið að svo væri ekki.

Þegar ritfærir blaðamenn bregað á leik geta lesendur skemmt sér. Blaðamaðurinn segir í pistlinum frá Þorláksmessutónleikum Bubba Morteins og niðurstaðan bráðfyndin.

Tillaga: Engin tillaga.

4.

„Ég reyndi að segja þeim hvað þeir máttu búast við og …“

Frétt á visir.is.                 

Athugasemd: Blaðamaðurinn notar þátíð framsöguháttar í stað viðtengingarháttar þátíðar og afleiðingin verður ómarkviss og slöpp málsgrein.

Tillaga: Ég reyndi að segja þeim hvað þeir mættu búast við og …

5.

„Halda því fram að Ancelotti sé tilbúinn að hlusta á tilboð í Gylfa.“

Fyrirsögn á visir.is.                 

Athugasemd: Mér finnst það dálítið lélegt að orða það þannig að maðurinn sé tilbúinn til að hlusta á tilboð. Hvað ef þau eru skrifleg? 

Á vef Football Insider segir:

Carlo Ancelotti is ready for Everton to listen to offers for Gylfi Sigurdsson …

Þokkalega rifær blaðamaður myndi ábyggilega orða þetta eins og segir í tillögunni hér fyrir neðan.

Tillaga: Halda því fram að Ancelotti sé tilbúinn að íhuga tilboð sem kunna að berast í Gylfa.


Bloggfærslur 7. janúar 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband