Orðlof
Fréttastjóri með kröfur
Þegar Emil Björnsson var fréttastjóri og dagskárstjóri Frétta- og fræðsludeildar Sjónvarpsins hér um árið gerði hann þá kröfu, að engin málvilla heyrðist í Sjónvarpinu.
Þetta kostaði það að hann las sjálfur yfir allt sem sagt var í fréttatímanum, leiðrétti og færði til betri vegar. Ef einhver Íslendingur hefur verið uppi með óbrigðult málskyn, var það hann.
En hann gerði enn meiri kröfur. Hann krafðist þess að allur texti væri á lipru og auðskildu máli.
Þegar ég var nýbyrjaður á fréttastofunni fékk ég þá bestu kennslu í þessum efnum sem ég hef fengið.
Eftir að handrit að frétt hafði legið inni hjá honum í meira en klukkustund, kallaði hann á mig inn til sín.
Hann veifaði handritinu framan í mig og benti á það með fingrinum um leið og hann sagði með bylmingshárri röddu:
Ég er fréttastjóri hér og hef nóg annað við tímann að gera en það sem ég er búinn að vera að strita við í langan tíma, að reyna að koma þessu bulli þínu á mannamál! Þetta gengur ekki!
Sérðu, hver afraksturinn er: Krafs með leiðréttingum mínum út um allt blað! Þetta er ónýtt! Ég hef unnið til einskis og geri þá kröfu að ég þurfi ekki að eyða dýrmætum tíma mínum í svona vitleysu!
Hann hækkaði róminn enn frekar og sagði með miklu þunga:
Þetta má aldrei koma fyrir aftur! Farðu og skrifaðu þetta allt saman aftur á máli sem fólkið skilur!
Íslands þúsund ár, blogg Ómars Ragnarssonar frá 2014.
Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum
1.
Eldur kom upp í bíl eftir árekstur tveggja þeirra á Korpúlfsstaðavegi á milli Barðastaða og Vesturlandsvegar um klukkan átta í morgun.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Eldur kvirknar í bíl eftir árekstur tveggja þeirra. Þeirra hverja? Fréttin er viðvaningslega skrifuð og blaðamaðurinn fljótfær.
Svo virðist sem blaðamaðurinn telji að það sé frétt að enginn hafi verið fluttur á slysadeild. Því hefði mátt sleppa því það hefði verið frétt ef einhver hefði slasast.
Í fréttinni segir:
Veginum hefur verið lokað vegna slyssins á meðan viðbragðsaðilar vinna á vettvangi.
Hverjir eru viðbragðsaðilar. Þetta er eitthvað orð sem hvergi er skilgreint og þar að auki frekar illa samansett orð.
Á málið.is segir:
Athuga að ofnota ekki orðið aðili.
Oft eru til góð og gegn orð í málinu sem fara mun betur en ýmsar samsetningar með orðinu aðili.
Ofangreind málsgrein hefði að skaðlausu mátt vera svona:
Veginum hefur verið lokað meðan hreinsað er til þar sem áreksturinn varð.
Ekkert slys varð í árekstrinum eða vegna eldsins. Slys er atburður sem veldur meiðslum eða er þeim mun alvarlegri. Þar af leiðir að ófært er að kalla þetta slysstað.
Tillaga: Tveir bílar lentu í árekstri á Korpúlfsstaðavegi um klukkan átta í morgun og kviknaði eldur í öðrum þeirra.
2.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir mest um skipulagsbreytingar í fyrsta kasti.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Skilur einhver þessa setningu?
Tillaga: Engin tillaga.
3.
Þeir ætluðu að forða sér þegar þeir urðu varir við lögreglu án árangurs.
Frétt á visir.is.
Athugasemd: Setningin hér að ofan er svo flöt og illa gerð að furðu sætir. Merkingin er þessi:
Lögreglan náði þeim.
Á undan segir:
Í Njarðvík eru unglingar sagðir hafa verið staðnir að því að sprengja flugelda inni í nýbyggingu.
Merkingin er þessi:
Unglingar sprengdu flugelda inni í nýbyggingu og voru staðnir að verki.
Og svo er það þetta:
Lögreglumenn ræddu við þá um atvikið og höfðu jafnframt tal af forráðamönnum þeirra.
Merkingin er þessi:
Löggan gaf þeim tiltal og sögðu forráðamönnum þeirra frá.
Tilhneigin er sú að nota fleiri orð en þörf er á. Ástæðan er einfaldlega kunnáttuleysi blaðamanna og þeirra sem skrifa fyrir lögguna.
Í fréttinni segir einnig:
Þá var lögreglu tilkynnt um pilta sem voru að kasta flugeldum í íþróttahús.
Ekkert má nú. Miklu alvarlegra er að kasta grjóti í íþróttahús en flugeldum. Grjótið skemmdir en pappírshólkar sem nefnast flugeldar skemma ekkert sé þeim kastað í hús. Nema auðvitað að þeim sé kastað logandi inn í hús en um það segir ekkert í fréttinni. Til að skilja þessa málsgrein þarf að lesa fréttir í öðrum fjölmiðlum.
Tillaga: Þeim tókst ekki að forða sér undan löggunni.
4.
Eftir að honum varð bjargað var O´Conner fluttur á spítala þar sem hann er nú í stöðugu ástandi og bíður eftir fjölskyldumeðlimum sínum.
Frétt á frettabladid.is.
Athugasemd: Það er svo sem ekkert að því að tala um meðlimi í hinu og þessu. Sumir ætla sér að vera svo flottir þeir gleyma að fjölskylda er betra en fjölskyldumeðlimir og áhöfn er miklu betra orð en áhafnarmeðlimir og svo má lengi upp telja.
Á vef CNN sem er heimildin fyrir fréttinni segir:
He is undergoing a medical evaluation and is in stable condition awaiting family members to join him
Í íslensku fréttinni gleymist að geta um meðhöndlunina á spítalanum. Á CNN kemur fram orðalagið family members og það þýðir blaðmaðurinn snarlega sem fjölskyldumeðlimur af því að hann er að flýta sér og hann þekkir orðin. Hann hefði eftir smá umhugsun getað sagt að maðurinn væri að bíða eftir fjölskyldu sinni.
Ég hnýt um þetta stöðugt ástand sem einatt er talað um. Það getur eiginlega þýtt hvað sem er, allt frá því að maðurinn sé meðvitundarlaus með næringu í æð og tengdur við alls kyns tæki og tól, og upp í það að hann sitji í rúmmin, horfir á sjónvarpið og bíði eftir að vera sóttur.
Tillaga: Eftir að honum var bjargað var O´Conner fluttur á spítala. Hann bíður eftir fjölskyldumeðlimum sínum.
5.
Innbrot var framið í eina af höllum Margrétar Danadrottningar
Frétt á blaðsíðu 10. í Fréttablaðinu 4.1.2020.
Athugasemd: Allt bendir til að brotist hafi verið inn í höllu drottningar. Nafnorðavæðingin er slæm. Íslenska sagnorðamál en enskan heldur upp á nafnorðin. Þess vegna notum við hér sögnina að brjóta.
Ég skrifaði viljandi höllu drottningar. Flestir beygja kvenkynsnafnorðið höll svona:
Höll, um höll, frá höll, til hallar.
Þó þekkist þessi beyging mætavel:
Höll, um höllu, frá höllu, til hallar.
Hægt er á leita á Google og velja til dæmis leitarorðin höllu drotningar eða höllu konungs og þá koma upp dæmi allt frá fornsögunum og fram á síðustu ár um beygingu orðsins.
Merkilegt er þó að höll með ákveðnum greini beygist aðeins svona
Höllin, um höllina, frá höllinni, til hallarinnar.
Ekki er viðurkennt að í þolfalli og þágufalli megi nota hölluna og höllunnar.
Tillaga: Brotist var inn í eina af höllum Margrétar Danadrottningar
6.
Prófarkalesarar óskast til starfa á Fréttablaðinu.
Auglýsing á blaðsíðu 10 í atvinnuauglýsingum Fréttablaðsins 4.4.2020.
Athugasemd: Þetta heyrir til tíðinda og ber að fagna. Prófarkalesarar hafa ekki starfað á Fréttablaðinu eftir því sem ég best veit. Dreg þá ályktun meðal annars af óleiðréttu málfari í fréttum blaðsins.
Vonandi verður vefurinn frettabladid.is einnig prófarkalesinn. Mikilvægt er að allar fréttir verði að minnsta kosti lesnar yfir eftir á og lagfærðar, sé þörf á. Hvorugt er núna gert.
Í auglýsingunni stendur:
Prófarkalesari þarf að hafa góða tilfinningu fyrir íslensku máli og búa yfir framúrskarandi stafsetningarkunnáttu.
Stafsetningakunnáttan þar ekki að vera framúrskarandi þar sem tölvur eru búnar leiðréttingaforriti sem lagfærir stafsetningarvillur. Tölvur kunna hins vegar ekki málfar og því ættu allir blaðamenn að hafa góða tilfinningu fyrir íslensku máli.
Eitt er að leiðrétta villur í texta og annað að leiðbeina blaðamönnum. Prófarkalestur er nauðsynlegur fyrir lesendur en hjálpar blaðamönnum lítið.
Þegar ritstjórar ráða í starf blaðamanns ættu þeir að spyrja hvaða fornrit umsækjandanum þyki mest varið í og hvers vegna. Til viðbótar mættu þeir spyrja hvort hann hafi til dæmis lesið Fjallkirkjuna, Íslandsklukkuna og Höll minninganna.
Sá sem ekki hefur lesið neitt í fornsögunum eða hefur ekki lesið neitt eftir til dæmis Gunnar Gunnarsson, Halldór Laxnes eða Ólaf Jóhann Ólafsson er ekki vænlegt efni í blaðamann.
Hvers vegna?
Blaðmennska veltur öðrum þræði á drjúgum orðaforða og kunna að beita honum. Aðeins lestur bókmennta eykur orðaforða einstaklings. Sá sem ekki stundar lestur verður aldrei skýr í skrifum.
Tillaga: Engin tillaga.
7.
United átti 15 skot að marki Wolves en tókst ekki að skjóta á markið einu sinni.
Frétt á dv.is.
Athugasemd: Fóboltalið átti fimmtán skot að marki en samt tókst því ekki að skjóta á markið. Skilur einhver þetta?
Þar fyrir utan kemur orðalagið einu sinni síðast í málsgreininni. Ekki veit ég hvað það á að þýða. Er átt við að að ekki hafi tekist að skjóta einu sinni á markið? Sé svo hefði mátt orða þetta svona:
en tókst aldrei á skjóta á markið.
Símskeytastíllinn í íþróttafréttum á vef DV er svo sem ágætur en því miður er textinn oftar en ekki óskýr og jafnvel hroðvirknislega saminn. Hvort tveggja er slæmt. Enginn leiðbeinir viðvaningunum á DV.
Tillaga: Engin tillaga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)