Skotinn kallaði eftir, og Jón tekinn við Keflavík

Orðlof og annað

Tilbrigði í málfari

Málnotendur hafa oft um ýmsar leiðir að velja til að orða hugsun sína. Margs kyns tilbrigði í málfari eru til en þau eru ekki öll jafngild við allar aðstæður. Sumt er talið við hæfi á einum stað og stund en annars ekki. 

Einn liður í málkunnáttu málnotenda er að hafa vald á því að fella orðaval, orðalag, beygingar, framburð og svo framvegis að því málsniði sem um ræðir hverju sinni.

Sjá nánar á Vísindavefnum.

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

1.

„„Þetta er hræðileg staða til að vera í, …““

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Aðstæður geta verið slæmar, vondar og jafnvel hræðilegar fyrir þann sem í hlut á. Í stuttu máli má orða þetta þannig að staðan sé hræðileg. Punktur. Orðalagið „… til að vera í“ hjálpar ekkert. Blaðamaðurinn hefur verið að bögglast við að þýða úr ensku með þessum hörmulega árangri.

Fleira má gagnrýna í þessari stuttu frétt. Blaðamaðurinn byrjar setningu á tölustöfum. Hann veit ekki eða kann ekki betur. Slæmt.

Svo hroðvirkur er blaðamaðurinn að hann bullar með nöfn. Í upphafi fréttarinnar er sagt frá flugmanni sem heitir Chris Brady. Etir önnur greinaskilin heitir flugmaðurinn Turner en það er ekki nóg. Eftir næstu greinaskil heitir hann Brady og svo koma önnur greinaskil og þá heitir aumingja flugmaðurinn Turner. Frétt um sama mál er á mbl.is. Þar ber flugmaðurinn sama nafnið í allri fréttinni, Chris Brady og Turner kemur ekkert við sögu.

Þetta er stórgölluð frétt og blaðamanninum og Vísi til áborinnar skammar. Telur ritstjórnin að hægt sé hella einhverju bulli yfir lesendur, bjóða upp á blaðamennsku sem stendur ekki undir nafni. Er engin gæðastefna hjá Vísi?

Tillaga: Þetta er hræðileg aðstaða.

2.

„Skotinn kallaði m.a. eftir því að strákurinn fengi tvo miða á úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Madríd og ársmiða á Anfield fyrir framlag sitt í leiknum gegn Barcelona í gær.“

Frétt á visir.is.              

Athugasemd: Enska orðalagið „to call for“ má ekki þýða á sem að kalla eftir. Skotinn í tilvitnuninni kallað ekkert, hækkaði ekki rödd sína. Hins vegar hefur hann líklega óskað eftir, hvatt til, krafist eða heimtað að strákurinn fengi tvo miða.

Munum að mörg ensk orð hafa ekki sömu merkingu og íslensk orð sem eru eða virðast samstofna. Í enskutímum fyrir óralöngu, á skólastigi sem þá var kallað gagnfræðaskóli, tók kennarinn eitt sinn ágætt dæmi sem festist í kolli þess sem þetta skrifar.

Hvað þýðir þetta: „Look out“? Hugsunarlitlir blaðamenn eru vísir með að segja að það þýddi „líttu út“ og það er rétt, svo langt sem það nær. Hins vegar verður alltaf að líta til samhengisins vegna þess að það getur líka þýdd varaðu þig eða passaðu þig. Viðvörun vegna yfirvofandi hættu.

Annað kunnuglegt er orðasambandið „to step aside“ sem klúðraðar í blaðamennsku þýða beint; „stíga til hliðar“. Í flestum tilfellum merkir það hins vegar að hætta. Sjá nánar hér.

Af þessu má ráða að ekki er allt sem sýnist og betra að huga að samhenginu áður en maður fer að bulla einhvern fjárann. Sjá nánar hér. 

Tillaga: Skotinn hvatti til þess að strákurinn fengi tvo miða á úrslitaleik Meistaradeildarinnar í Madríd og ársmiða á Anfield fyrir framlag sitt í leiknum gegn Barcelona í gær.

3.

„Jón Hall­dór tek­inn við Kefla­vík.“

Frétt á mbl.is.               

Athugasemd: Skyldi Jón þessi hafa verið tekinn fyrir of hraðan akstur við Keflavík? Nei. 

Er Jón Halldór skip sem tekið var við veiðar í landhelginni við Keflavík? Nei. 

Var Jón kannski ráðinn bæjarstjóri í Keflavík? Nei.

Svona er nú hægt að misskilja einfalda og „skýra“ fyrirsögn. Líklegast best að taka það fram að Jón Halldór tók við þjálfun körfuboltaliðs Keflavíkur í meistaraflokki.

Auðvitað skilst fyrirsögnin í réttu samhengi, ekkert rangt við hana þó hér sé gerð tillaga.

Tillaga: Jón Hall­dór þjálfar í Kefla­vík.


Bloggfærslur 8. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband