Tímapunktur, gúgú og manneskjur

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum

Öryggi

Orðið öryggi ber fyrir augu og eyru oft á dag og telst svo auðskilið að við leiðum ekki hugann að því hvernig það sé til komið. Þó er það varla gagnsætt öllum. 

Ör- er neitandi forskeyti og uggur er ótti; öruggur merkir »eiginl[ega] laus við ótta« segir Orðsifjabók, og af því er leitt öryggi.

Málið á blaðsíðu 28 í Morgunblaðinu 6.3.2019.

Örnefni

Á Hornströndum, milli Fljótavíkur og Rekavíkur bak Látur, er fjallið Hvesta. Orðið er framandlegt en hljómmikið og fallegt.

Nokkrir staðið bera þetta nafn að hluta til:DSCN7247b

    1. Hvestuskál er skál eða dalur fremst á fjallinu Hvestu sem áður var nefnt. Þar er líka Hvestutá.
    2. Hvestudalir nefnast dalverpi norðan í fjallinu Hvestu og horfa þeir út á Fljótavík.
    3. Hvesturdalur er við sunnanverðan Arnarfjörð og þar er samnefndur bær. Á korti eru skráð í dalnum Neðrihvesta og Fremrihvesta, á sem heitir Hvestuá, fjallið vestan ár heitir Hvestunúpur
    4. Hvestuholt  er í Ekkilsdal sem er inn af Önundarfirði. Í dalnum er Hvestur, sem líklega er fjall eða fjallsbrún.
    5. Hvestulækur er í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu. Skammt frá honum er laut sem heitir Hvesta og nálægt er önnur sem nefnist Hvest. Þar fyrir ofan er Hvestarmelur.

Hvaðan skyldi nú orðið Hvesta vera komið. Í Íslenskri orðsifjabók segir:

hvesta kv. (18. öld) ‘hringmynduð lægð; smálaut með hvössum brúnum, t.d. við stein í leirflagi, í snjólagi við stein eða hús eða í lægð,…’. 

Orðið kemur einnig fyrir í örn.[örnefnum], einkum fjallsheitum, og sýnist eiga þar við hvilftir eða hvassar brúnir, sbr. fjallsnafnið Hvesta. 

Einnig kemur fyrir hvest kv. ⊙ ‘hryggskafl, aflöng, brúnhvöss snjórák’.

Myndin er af fjallinu Hvestu sem er á milli Fljótavíkur Rekavíkur bak Látur. Lengst til vinstri er Kögur en myndin er tekin af Straumnesfjalli. Stækka má myndina með því að smella á hana.

1.

„Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hafa verið Tottenham skilningsríkir en nú er komið að þeim tímapunkti þar sem ákveða þarf hvar síðustu fimm heimaleikirnir verða leiknir.“

Frétt á vísir.is.          

Athugasemd: Þessi málgrein er klúður, hún er löng og illa samin. Blaðamaðurinn heldur að „tímapunktur“ sé nothæft orð en svo er ekki. Þar að auki veit hann varla ekki hvernig á að nota punkt til að skila á milli efnisatriða í frásögn.

Orðleysan „tímapunktur“ er gjörsamlega óþarft í íslensku máli. Varla þarf að rökstyðja það nánar nóg er að lesa tillögunar hér fyrir neðan.

Tillaga: Stjórn ensku úrvalsdeildarinnar hefur sýnt aðstæðum hjá Tottenham skilning. Nú þarf hins vegar að ákveða hvar síðustu fimm heimaleikirnir verða leiknir.

2.

Hvers vegna eru ís­lensk­ir menn gúgú?

Frétt á mbl.is.           

Athugasemd: Ekki veit ég hvað þetta orð, gúgú, þýðir? Ekki finnst það í íslenskum né erlendum orðabókum. Má vera að þetta sé eins konar útfærsla á slanguryrðinu gaga, sem þýðir tóm vitleysa, heimska eða dómgreindarleysi.

Á malid.is segir um gaga:

‘spotta, hæða’; sbr. nno. gag ‘aftursveigður’, gaga ‘reigja sig aftur á bak, teygja fram höfuðið’, …

Af samhenginu í „fréttinni“ má líklega ráða að konan sem um ræðir telji sig hugsanlega vera skrýtna á einn eða annan hátt. Hins vegar á íslenskan orð um flest og engin ástæða að dreifa rugli sem líklega fæstir skilja. Lágmarkið er að nota gæsalappir og gefa síðan skýringu.

Svo er það hitt, það konan sem um ræðir telur sig vera „gúgu“ en fyrirsögnin segir að menn, það er karlar, séu „gúgú“. Þetta er varla hrósyrði.

Tillaga: Hvers vegna eru íslenskir menn skrýtnir?

3.

Lögregla í Danmörku hefur ákveðið að ákæra fjórtán manneskjur fyrir að deila myndbandi, …

Frétt á visir.is.            

Athugasemd: Á dönsku er til orðið „menneske“. Í gamla daga var manni innrætt að manneskja væri sletta og ætti ekki að nota. Samt lifir orðið enn góðu lífi. Merkingin getur verið maður, það er karl og kona, eða þá eingöngu kona.

Danir nota ekki manneskja eins og við. Vefur danska ríkisútvarpsins er heimild fréttarinnar og þaðan er tilvitnunin hér að ofan er fengin. Þar segir:

Politiet har besluttet at sigte 14 personer for at dele en video, …

Þarna er talað um „personer“, ekki „mennesker“. Persóna er orðið gott og gilt íslenskt orð. Mjög sjaldgæft er að það sé notað um fólk, karla og konur. Flestir myndu telja það rangt mál.

Best er auðvitað að nota menn, en margir setja það fyrir sig.

Árið 1992 rökræddu þingmenn um frumvarp um almenn hengingarlög og þá sagði Hjörleifur Guttormsson og eru þessi orð af vef Alþingis:

Það á að sjálfsögðu að nota karl og kona sem andheiti og maður sem samheiti yfir tegundina maður, en orðið manneskja er alveg hræðilegt orðskrípi samkvæmt minni máltilfinningu og ég vona að menn geti sameinast um að ýta frá í íslensku máli og nota sem allra minnst.

Hins vegar er alveg greinilegt að ýmsir eru farnir að bera sér þetta orð í munn vegna þess að þeim finnst það eitthvað hlutlausara gagnvart konum en orðið maður og segja þá manneskja. 

Hins vegar er ekki innifalið í orðinu manneskja að það þurfi að vera kona frekar en karl út af fyrir sig heldur er það einhver útvötnun á heitinu yfir tegundina maður. 

Löngu síðar, 6. maí 2018, segir á vef Máls og sögu, félags um söguleg málvísindi og textafræði: 

Að nota manneskja í samhengi þar sem maður var áður notað brýtur vitaskuld ekki í bága við íslenska málstefnu, bæði orðin eru til í merkingunni ‘mannvera’. En bent hefur verið á að breytinguna megi skilja þannig að eitthvað sé athugavert við orðið sem var skipt út (orðið maður átti sér þarna áratuga sögu). Þannig sé hætta á að menn taki að forðast að nota það um bæði kynin.

Ástæða er til að hverja lesendur til að kynna sér nánar þessa grein, hún er ekki löng en vel skrifuð.

Líklega hefur lögreglan í Danmörku ákveðið að ákæra bæði karla og konur fyrir að deila myndbandinu. Óhætt er því að segja að löggan ákæri fjórtán menn enda eru bæði karlar og konur menn.

Tillaga: Lögregla í Danmörku hefur ákveðið að ákæra fjórtán menn fyrir að deila myndbandi, …


Bloggfærslur 7. mars 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband