Takklæti eða þakklæti ... á hádegiverði eða í hádegisverði

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

„Öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins deildu sín á milli á hádegisverði í aðdraganda atkvæðagreiðslu … 

Frétt á visir.is.      

Athugasemd: Má vera að þetta sé algjört smáatriði en réttara er að segja að þeir hafi deilt í hádegisverði. Veiti ekki hvað það þýðir þegar forsetningin „á“ er notuð um hádegisverðinn.

Nokkur munur er á sögnunum að deila og rífast. Hið fyrrnefnda merki þræta en hið síðara er orðasenna sem er nokkuð óvægnari en deila. Blaðamaðurinn gerir hins vegar engan greinarmun á orðunum. Fyrst í stað talar hann um deilur svo voru þingmennirnir að rífast. Þetta eru slæm vinnubrögð og fyrir vikið verður fréttin ekki trúverðug.

Á vefmiðli Washington Post segir er enska sögnin „clash“ notuð. Hún getur  vissulega þýtt deilur. Orðabókin segir: 

confrontation, angry exchange, shouting match, war of words, battle royal, passage of arms; contretemps, quarrel, difference of opinion, disagreement, dispute …  

Síðar í ensku fréttinni er talað um „argument“ sem  líka má þýða sem deilur en varla rifrildi.

Hafi þingmennirnir deilt þá var það þeirra á milli, þetta var lokaður hádegisverðarfundur.

Í fréttinni stendur þetta líka:

Þegar fréttamaður benti honum á að það vinna, því annars yrðir þú rekinn, væri ekki að „bjóðast til að vinna“ …

Þetta er óskiljanlegt. Hins vegar skildi ég málsgreinina með því að lesa mynd af Twitter-færslu sem fylgdi fréttinni. Mér finnst blaðamaðurinn þurfi að vanda sig betur. Hvað eftir annað birtir hann skemmdar fréttir. Allir eiga að lesa yfir skrif sín og vera um leið frekar gagnrýninn. Í fréttinni eru margar leiðinlegar villur og klúðurslegt orðalag. 

Tillaga: Öldungadeildarþingmenn Repúblikanaflokksins deildu í hádegisverði í aðdraganda atkvæðagreiðslu …

2.

„Takklæti í tíu ár, <3 #10ychallangeaccepted 

Auglýsing í tölvupósti frá Nóva.     

Athugasemd: Hvernig má það vera að stórt og öflugt fyrirtæki sem býður Íslendingum þjónustu geti ekki notað íslensku í auglýsingum sínum? „Takklæti“ er bull, orðið er ekki til. Jafnvel léleg íslensk leiðréttingaforrit gera athugasemd við orðið.

Tölvupósturinn er ótrúleg vanvirðing við íslenskt mál. Það sem stendur eftir kommuna er óskiljanlegt.

Textinn í auglýsingin er svona:

Við erum stolt, glöð, ánægð, hrærð, uppveðruð og kát, en fyrst og fremst endalaust þakklát ykkur, viðskiptavinum Nova, fyrir öndvegiseinkunn í Íslensku ánægjuvoginni. Viðskiptavinir Nova eru ánægðustu viðskiptavinirnir í farsímaþjónustu, tíunda árið í röð. Takk.

Mér finnst tölvupósturinn ekki sýna viðskiptavinum Nóva, neitt þakklæti, þvert á móti. Í auglýsingunni er bull og skelfileg nástaða.

Af hverju er ekkert samræmi; „takklæti“ í fyrirsögn en þakklæti í texta? Þetta er ekki einu sinni fyndið eða svalt. Fyrirtæki eiga ekki að verja fé og vinnu fólks í að misþyrma íslenskunni, hún á við nægan vanda að etja svo þetta bætist nú ekki við.

Íslendingar ætlast til þess að fyrirtæki hafi samskipti við þá á íslensku. Punktur. 

Hér er ekki úr vegi að ræða um þakkir. Langt er síðan við tókum upp í íslensku danska orðið takk. Í Málfarsbankanum segir:

Sumir hafa amast við orðunum takk fyrir vegna danskra áhrifa. Benda má á þökk fyrir eða þakka þér fyrir í þeirra stað.

Frekar er mælt með því að segja eiga þakkir skildar en eiga þakkir skilið enda þótt hið síðarnefnda sé einnig tækt.

Samkvæmt íslenskri orðsifjabók er nafnorðið þökk náskylt tøkk á færeysku, takk á nýnorsku, tack á sænsku og tak á dönsku. Á þýsku er samstofna orðið danke og thank(s) á ensku.

Mjög sjaldgæft er að einhver segir: Þökk fyrir, miklu frekar takk fyrir. Hins vegar er nafnorðið þakklæti alltaf notað, enginn asnast til að segja „takklæti“, nema Nóva.

Tillaga: Þakklæti í tíu ár.


Gjafir fyrir bónda á einum tímapunkti ...

Athugasemdir við málfar í fjölmiðlum.

 

1.

Það vakna spurningar um hvað það merkir að vera fjölskylda og á einum tímapunkti segir Nobuyo: „Stundum er betra að velja sér fjölskyldu“. 

Kvikmyndagagnrýni á blaðsíðu 71 í Morgunblaðinu 24.1.2019.     

Athugasemd: Hér hefur áður verið agnúast dálítið út í orðið tímapunktur. Enn skal það fullyrt að það er óþarft í flestum þeim tilvikum sem ég hef fundið. Veltum fyrir okkur hvað punktur í tíma þýðir. Er það sekúnda eða eitthvað lengra eða skemmra? Hversu langur getur tímapunktur verið, er hægt að teygja á honum? Getur hann verið einn dagur, vika eða mánuður? Sé orðið svo sveigjanlegt stendur það varla undir nafni.

Í staðinn má nota ýmis orð og orðasambönd eins og eitt skipti, einu sinni, þá, þegar og í þessu tilviki má nota á einum stað í kvikmyndinni.

Ofangreind tilvitnun er frekar illa skrifuð, hefði mátt vanda orðalagið. Byrjun málgreinarinnar er líka óvönduð; „það vaknaþað merkir …“. Höfundurinn getur greinilega skrifað ágætan texta er smávægilegir gallar eru áberandi.

Tillaga: Í myndinni eru vangaveltur um hvað fjölskylda sé. Í eitt skipti segir Nobuyo: „Stundum er betra að velja sér fjölskyldu“.

2.

„Gjafir fyrir alla bónda! 

Fyrirsögn í tölvupósti frá skor.is.     

Athugasemd: Já, ég fæ stundum tilboð frá skor.is, ekki skora heldur skór. Þetta er netverslun sem er hluti af stórri verslunarkeðju sem selur margvíslegan skófatnað, til dæmis Ecco skó sem eru alveg ágætir.

Mér snarbrá auðvitað við þennan póst. Höfundur hans virðist ekki kunna að beygja algengt íslenskt orð, bóndi. Síðast þegar ég vissi beygðist það svona í eintölu: bóndi, bónda, bónda, bónda. Í fleirtölu: Bændur, bændur, bændum til bænda (fleirtalan er ekki svona en þetta er samt fyndið: Bóndar, bónda, bóndum, bónda)

Fyrirsögnin á við fleirtölu í þolfalli, því ræður forsetningin.

Höfundurinn gæti verið fullorðinn og haft í huga bóndadaginn, sem er í dag. Hugsanlega er þetta villa sem verður til þegar verið er að prófa sig áfram með fyrirsögn og svo gleymist að klára hana. Slíkt kemur fyrir besta fólk.

Nafnorðasýki er það kallað þegar höfundur texta „gleymir“ að fallbeygja nafnorð og hefur þau í nefnifalli.

Ég velti því fyrir mér hvort höfundurinn hafi ætlað að komast hjá því að nefna bændur í merkingunni búmenn, þeir séu ekki markhópurinn heldur bændur sem eiginmenn (sem vissulega má segja að séu búmenn, ráða fyrir búi sínu, heimilinu). 

Hver meðalmaður veit hvernig orðið bóndi fallbeygist skrifað og hann hefði líka getað skrifað: Gjafir fyrir alla á bóndadaginn.

Þetta er nú ekki allt. Pósturinn er alveg kostulegur. Í honum segir:

Í tilefni þess tókum við saman vinsælustu vörurnar akkúrat núna og bjóðum þér á geggjuðum afslætti!

Vinsælustu vörurnar hitta alltaf í mark! - og þær eru hér:

  • Klikkaðu hér fyrir bóndann sem fer á skíði, í göngu og fílar almenna útivist
  • Klikkaðu hér fyrir bóndann sem sinnir erindum á malbikinu
  • Klikkaðu hér fyrir bóndann sem fer á æfingu

„Akkúrat“ hélt ég að væri því sem næst útdautt orð, að minnsta kosti í ritmáli. Í talmáli var það einu sinni svo óskaplega algengt að sá sem var sammála síðasta ræðumanni kinkaði kolli og sagði í skilningsríkum tón; „akkúúúrad ...“ og ekkert meira þann daginn.

Fótboltalýsandi á Stöð2 hefur vandi sig á að kalla allt sem vel er gert í boltanum „geggjað„; skoruð mörk, sendingar, einleik og annað skemmtilegt. Mörgum þykir hljómurinn í þessu orð ansi geggjaður og töff og er það nú notað í tíma og ótíma, rétt eins og að fyrir nokkru gat svo margt verið „brjálað“, „geðveikt“ og ekki má gleyma „sjúkt“. Svona orð fara smám saman í geggjuðu glatkistuna þar sem framliðin orð hvíla, til dæmis spældur, truflaður, skvæsinn, dsísös, kommon og fleiri og fleiri.

Sögnin að klikka er svo sem í lagi en ofnotkun á henni eins og þarna virkar dálítið, tja ... klikkuð að mínu mati.

 

Tillaga: Gjafir fyrir alla bændur!


Bloggfærslur 25. janúar 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband