Íslensk tunga verður útdauð eftir tuttugu ár

Það þarf að fara fram einhvers konar vitundarvakning sem felur í sér að fólk átti sig á því að íslenskan á alltaf við, alls staðar. Ef við höldum því ekki til streitu þá erum við komin á hættulega braut. Jafnframt þurfum við að leggja áherslu á það að auðvitað er enskan mikilvæg og það er sjálfsögð kurteisi og þjónusta við fólk sem heimsækir okkur að nota hana. Enskan má bara ekki útrýma íslenskunni.

Þegar virtur fræðimaður eins og Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor, tekur svona til máls (í viðtali á bls. 10 í Morgunblaði dagsins), veltir maður því fyrir sér hverjir hérlendir eigi að taka að sér vörn fyrir íslenskuna fyrst fræðimennirnir sitji hjá. Í orðum hans er felst ekkert annað en uppgjöf, enginn eldmóður engar hugmyndir eða tillögur.

Raunar eru uppgjöfin enn víðar. Ferðaþjónustan hefur engan áhuga á viðgangi íslenskunnar. Fyrirtæki eru kölluð enskum nöfnum, meira að segja skráð þannig athugasemdalaust í fyrirtækjaskrá. 

Banki heitir Arion, flugfélag Iceland Air Connect, rútufyrirtæki Iceland Excursions, rekstraraðili flugvalla Isavia, hvalaskoðunarfyrirtæki Gentle Giant, rukkunarfyrirtæki Motus, fataframleiðandi Cintamani, veitingahús Lemmon, gleraunasala Eyesland, bókhaldsfyrirtæki Accountant, tískuverslun Black Pepper Fasion og svo framvegis í langan tíma. 

Almenningur er algjörlega sofandi, ekki heyrist múkk vegna yfirgangs enskunnar. Fólki virðist almennt sama.

Fjölmiðlarnir gera lítið í að vekja athygli á þessu. Blaðamenn, fréttamenn og dagskrárgerðarfólk í útvarpi og sjónvarpi af yngri kynslóðinni eru margir hverjir illa skrifandi á íslensku, hafa lítinn orðaforða og geta ekki skammlaust þýtt greinar af ensku án þess að brúka enska orðaröð. Verst er að útgefndum, ritstjórum og öðrum er algjörlega sama.

Hvað segir þetta um menntakerfið, kennaranna? Ábyrgð þeirra er mikil rétt eins og okkar foreldra. Við erum að ala upp enskumælandi kynslóðir.

Stjórmálamenn er flestir steinsofandi, þeir vilja að vísu vel, en gera þó ekkert. Og hvað ættu þeir svo sem að gera þegar fræðasamfélagið virðist hafa gefist upp rétt eins og Eiríkur Rögnvaldsson.

Eldmóður fyrir íslenskunni fyrirfinnst ekki. Örfáir tuðarar eins og sá sem hér skrifar eru hingað og þangað en það er allt of sumt.

Í ár fagnar þjóðin 100 ára afmælis fullveldisins. Hvers virði er heil öld ef við erum að glata tungunni.

Jarðfræðingar hafa bent á að fari sem horfir munu allir íslenskir jöklar verða horfnir eftir um 150 ára. Ég spái því að eftir tuttugu ár verði íslenskt mál horfið og þjóðin tali ensku.

Allar líkur benda til þess. Viðspyrnan er engin. Skýr merki um uppgjöf er allt í kringum okkur.


mbl.is Enskan orðin sjálfsögð á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. júlí 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband